Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013 (upplýsingaréttur almennings)

Mál nr. 2021010175

15.2.2021

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013 (upplýsingaréttur almennings).

Persónuvernd vísar til beiðni allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis frá 21. janúar 2021 um umsögn um frumvarp til laga um um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013 (upplýsingaréttur almennings), (þskj. 458, 366. mál á 151. löggjafarþingi).

Í b-lið 1. gr. frumvarpsins segir að tvær málsgreinar bætist við 2. mgr. 18. gr. laganna sem kveði á um að þegar aðrar takmarkanir á upplýsingarétti almennings samkvæmt upplýsingalögum eiga ekki við sé heimilt að veita upplýsingar um viðurlög í starfi sem æðstu stjórnendur Ríkisútvarpsins hafa sætt, þar á meðal vegna áminninga og brottvísana, enda séu ekki liðin meira en fjögur ár frá þeirri ákvörðun sem um ræðir.

Í athugasemdum við ákvæðið segir að lagt sé til að við bætist tvær nýjar málsgreinar með heimild til að afhenda upplýsingar um viðurlög sem æðstu stjórnendur hafa sætt fjögur undangengin ár. Málsgreinarnar eru samhljóða ákvæðum 3. og 5. mgr. 7. gr. í upplýsingalögum og vísað er til umfjöllunar sem finna megi í frumvarpi til þeirra laga, þar sem meðal annars kemur fram að ekki þykir rétt að undanskilja alfarið aðgang almennings að slíkum upplýsingum, enda hvíla á stjórnendum opinberra stofnana ríkari skyldur en almennt gildir um aðra starfsmenn slíkra stofnana. Vega þurfi og meta í hverju tilfelli hvort vegi þyngra hagsmunir almennings af vitneskju um slík viðurlög eða hagsmunir viðkomandi starfsmanna af því að trúnaður ríki um slíkt. Sem dæmi má nefna að ekki verður séð að ríkir almannahagsmunir séu af því að gert sé uppskátt um áminningu sem stjórnandi hefur hlotið vegna áfengisneyslu í samanburði við hagsmuni viðkomandi starfsmanns af því að vera gefinn kostur á því að bæta ráð sitt án þess að eiga á hættu að vera um ókomna tíð stimplaður fyrir slíka háttsemi.

Persónuvernd áréttar í þessu sambandi að viðkvæmar persónuupplýsingar eru skilgreindar í 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/2018. Þar kemur m.a. fram að upplýsingar um stjórnmálaskoðanir, trúarbrögð, lífsskoðun, heilsufarsupplýsingar, upplýsingar um lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun, upplýsingar um kynlíf manna og kynhneigð eru m.a. skilgreindar sem viðkvæmar persónuupplýsingar.

Að mati Persónuverndar er nauðsynlegt að taka af allan vafa í lögum að ekki sé ætlunin að veita heimild til upplýsingagjafar um forsendur viðurlaga eða áminningar sem æðstu stjórnendur Ríkisútvarpsins hafi sætt, byggi þau á viðkvæmum persónuupplýsingum, eins og þær eru skilgreindar í 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Persónuvernd leggur því til breytingu á b-lið 1. gr. frumvarpsins, svohljóðandi:

„Enn fremur er heimilt að veita upplýsingar, aðrar en viðkvæmar persónuupplýsingar, um viðurlög í starfi sem æðstu stjórnendur hafa sætt, þar á meðal vegna áminninga og brottvísana, enda séu ekki liðin meira en fjögur ár frá þeirri ákvörðun sem um ræðir.”

Ekki eru að öðru leyti gerðar athugasemdir við efni frumvarpsins. Verði frekari umsagnar óskað um einstök atriði verður hún fúslega veitt.

F.h. Persónuverndar,

Vigdís Eva Líndal                     Helga Sigríður ÞórhallsdóttirVar efnið hjálplegt? Nei