Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 (kennitöluflakk)

Mál nr. 2022111912

25.11.2022


Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 (kennitöluflakk).

 

1.

Persónuvernd vísar til beiðni allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis frá 16. nóvember 2022 um umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 (þskj. 280, 277. mál á 153. löggjafarþingi). Óskað var eftir umsögn Persónuverndar í kjölfar umsagnar Skattsins þar sem lagt er til að fram komi í lagatexta hvort skrá þessi skuli opin almenningi og þá með hvaða hætti, m.t.t. laga nr. 90/2018, þar sem ákvörðun um slíkt verði vart byggð á reglugerðarákvæði einu saman. Einnig er tekið fram í umsögn Skattsins að ágreiningsefni um aðgengi almennings að upplýsingum úr sambærilegum skrám hafi komið til kasta úrskurðarnefndar um upplýsingamál og Persónuverndar.

2.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. í því skyni að sporna við misnotkun á hlutafélagaforminu og svokölluðu kennitöluflakki í atvinnurekstri. Í greinargerð sem fylgir frumvarpinu er greint frá því að tilgangur frumvarpsins sé að vernda almenning og samfélagið í heild fyrir misnotkun á hlutafélagaforminu. Ákvæði frumvarpsins séu þannig samin með undirliggjandi almannahagsmuni að leiðarljósi.

Í j-lið 189. gr. frumvarpsins segir að hafi verið kveðinn upp úrskurður um atvinnurekstrarbann skuli viðkomandi dómstóll senda staðfest afrit hans til Skattsins. Segir jafnframt í 2. mgr. ákvæðisins að Skatturinn skuli halda skrá um þá einstaklinga sem úrskurðaðir hafa verið í atvinnurekstrarbann og ráðherra falið að setja reglur um hvaða upplýsingar skuli færðar í skrána og hvernig upplýsingar skuli veittar.

Sé það vilji löggjafans að skrá um þá einstaklinga sem úrskurðaðir hafa verið í atvinnurekstrarbann verði opin almenningi er það mat Persónuverndar að skýr lagaheimild þurfi að vera til staðar fyrir slíkri birtingu, sbr. 3. og 5. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018 og c- og e-lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Slík lagaheimild þarf auk þess að uppfylla kröfur 3. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar.

Persónuvernd áréttar einnig mikilvægi þess að gætt sé að öllum meginreglum persónuverndarlaga, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2018 og 5. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Á meðal þeirra er krafa um málefnalegan tilgang með vinnslu, sbr. 2. tölul. ákvæðis laganna og b-lið ákvæðis reglugerðarinnar, og má telja tilgang frumvarpsins og j-liðar 189. gr. þess, þ.e. að vernda almenning og samfélagið í heild fyrir misnotkun á hlutafélagaforminu, geta talist málefnalegan.

Einnig er hins vegar sérstaklega mikilvægt, eins og hér háttar til, að huga að þeim meginreglum er lúta að gagnsæi, sanngirni, áreiðanleika og meðalhófi, sbr. 1. og, 3.-5. tölul. ákvæðis laganna og a- og c-d-liði ákvæðis reglugerðarinnar. Í því felst meðal annars að hinum skráðu þarf að vera kunnugt um vinnslu, hvernig hún fer fram og hvaða réttarúrræði þeir geta nýtt sér. Þá verður að gæta þess að vinnslan fari ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang hennar og að upplýsingar séu teknar af skrá þegar skilyrðum til skráningar er ekki lengur fullnægt eða ef í ljós kemur að þær hafi verið ranglega skráðar.

Bent skal á að samkvæmt fyrrgreindu ákvæði 3. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar getur þurft að fjalla um atriði sem þessi í lögum sem ætlað er að renna stoðum undir vinnslu persónuupplýsinga. Löggjafinn gæti því þurft að taka sérstaka afstöðu til réttinda þeirra einstaklinga sem hér um ræðir, t.d. hvað varðar leiðréttingu og eyðingu. Í því sambandi þyrfti jafnframt að huga sérstaklega að eftirliti með áreiðanleika upplýsinga sem eru almenningi aðgengilegar, t.d. uppfærslu þegar atvinnurekstrarbanni er aflétt.

__________________

Ekki eru að öðru leyti gerðar athugasemdir við efni frumvarpsins að svo stöddu.

Verði frekari umsagnar óskað um einstök atriði verður hún fúslega veitt.

F.h. Persónuverndar,

Vigdís Eva Líndal               Edda Þuríður Hauksdóttir



Var efnið hjálplegt? Nei