Umsagnir

Umsögn Persónuverndar um frumvarp til laga um meðferð sakamála

4.2.2008

Þann 28. janúar sendi Persónuvernd allsherjarnefnd Alþingis umsögn sína um frumvarp til laga um meðferð sakamála. Þar gerir hún athugasemdir við ýmis atriði í frumvarpinu.

 

Þann 28. janúar sendi Persónuvernd allsherjarnefnd Alþingis umsögn sína um frumvarp til laga um meðferð sakamála. Persónuvernd bendir m.a. á að hún telur eðlilegt að notkun lögreglu á ýmsum tæknibúnaði til eftirlits með einstaklingum, s.s. með miðunarsendum eða staðsetningarbúnaði, styðjist við skýr ákvæði í lögum eða úrskurð dómara. 

Einnig er bent á eftirfarandi:

1. Í frumvarpinu er gert ráð aðgangi almennings að ýmsum gögnum nema upplýsingum um einka-, fjárhags- eða viðskiptahagsmuni sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Ekki skuli þó afmá slíkar upplýsingar úr dómum, ákvörðunum og úrskurðum nema ef sérstök ástæða er til. Persónuvernd leggur til að þessi fyrirvari verði felldur brott.  

Þá leggur Persónuvernd til að framangreint taki ekki aðeins til afhendingar gagna heldur einnig til birtingar dóma á vefsíðum dómstóla, sem og að reglur Dómstólaráðs um afhendingu gagna taki til birtingar dóma á þessum vefsíðum. Þá skuli sérstaklega fjallað um eyðingu persónuauðkenna og upplýsinga um heilsuhagi og önnur einkalífsatriði í þeim reglum.

2. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lögregla geti synjað verjanda um aðgang að einstökum skjölum og öðrum gögnum meðan á rannsókn máls stendur, sé öryggi ríkisins eða almennings í húfi, sem og til að vernda brýna einkahagsmuni annarra en sakbornings.

Persónuvernd leggur til að heimild til að synja verjanda um aðgang að gögnum verði ávallt afmörkuð við tiltekinn tímafrest. Að þeim fresti liðnum skuli aðgangurinn veittur nema ástæðurnar fyrir synjun um aðgang eigi enn við. 

3. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að vissar eftirlitsaðgerðir skuli ekki bundnar því skilyrði að aflað sé dómsúrskurðar eða að brot varði tiltekinni refsingu. Persónuvernd bendir á að skilja megi orðalag ákvæðisins svo að hér sé m.a. átt við notkun tæknibúnaðar til að fylgjast með tilteknum einstaklingum. Gera verði orðalagið skýrara til að útiloka þetta. 

4. Í frumvarpinu er fjallað um hvenær lögregla geti lagt fyrir fjarskiptafyrirtæki að veita upplýsingar um símtöl eða önnur samskipti við tiltekinn síma, tölvu eða annars konar fjarskiptatæki. Ekki er átt við öflun upplýsinga um efni samskipta, eins og t.d. þegar sími er hleraður eða tölvubréf opnað, heldur um hvort tiltekin fjarskipti hafi átt sér, t.d. hvort hringt hafi verið úr einu númeri í annað eða tölvupóstur sendur af einu netfangi á annað. 

Samkvæmt gildandi lögum er slíkt óheimilt nema brot geti varðað tveggja ára fangelsi. Verði frumvarpið að lögum verður skilyrðið um fangelsisrefsingu afnumið. Persónuvernd leggur til að áfram verði gert skilyrði um fangelsisrefsingu.

 

Umsögn um frumvarp til laga um meðferð sakamála.




Var efnið hjálplegt? Nei