Umsagnir

Umsagnir um frumvörp til laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla

22.1.2008

Persónuvernd hefur komið á framfæri við menntamálanefnd umsögnum um frumvörp til laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Lúta athugasemdir Persónuverndar einkum að því að ekki séu fluttar ítarlegri persónuupplýsingar um börn á milli skólastiga en nauðsynlegt er m.t.t. skólagöngu þeirra.

Hér fyrir neðan eru eftirtaldar umsagnir:

A. Umsögn um frumvarp til laga um leikskóla

B. Umsögn um frumvarp til laga um grunnskóla

C. Umsögn um frumvarp um framhaldsskóla

A. Umsögn um frumvarp til laga um leikskóla (mál nr. 287, 135. löggjafarþing)


Þann 10. október 2007, funduðu lögfræðingar Persónuverndar með fulltrúum menntamálaráðuneytisins og var fundarefnið tiltekin ákvæði í frumvarpsdrögum til nýrra laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Í ljósi þess að stuttur tími var til stefnu við samningu frumvarpanna, var ákveðið að Persónuvernd myndi skila umsögn til menntamálanefndar Alþingis þegar frumvarpsdrögin lægju fyrir. Persónuvernd hefur nú farið yfir frumvarp til laga um leikskóla og gert eftirfarandi athugasemdir.

Í 2. mgr. 16. gr. frumvarpsins er fjallað um um meðferð persónuupplýsinga í tengslum við miðlun upplýsinga um börn milli leikskóla og grunnskóla. Persónuvernd hefur fullan skilning á mikilvægi þess að ákveðnar upplýsingar, s.s. um greiningu þroskafrávika eða sértæka námsörðugleika, fylgi börnum á milli skólastiga. Stofnunin telur engu að síður mikilvægt að haft sé í huga að í sumum tilvikum getur verið um að ræða mjög ítarlegar og persónulegar upplýsingar um börn sem hafa takmarkaða þýðingu fyrir starfsmenn grunnskóla við upphaf náms á grunnskólastigi. Þessu til stuðnings er rétt að benda á þá meginreglu sem fram kemur í 3. tl. 7. gr. laga nr. 77/2000. Samkvæmt henni ber að gjalda varhug við því að allar upplýsingar um börn fylgi þeim frá leikskóla til grunnskóla og jafnvel framhaldsskóla. Hér er að sjálfsögðu ekki átt við upplýsingar sem nauðsynlegar eru til þess að börn geti fengið viðhlítandi aðstoð vegna náms.

Í framangreindri frumvarpsgrein segir upplýsingar sem „að gagni geta komið". Æskilegra er að fylgja orðalagi sem er í skýringum við greinina í greinargerð, en þar segir að eingöngu sé átt við upplýsingar sem teljast nauðsynlegar fyrir skólagöngu barns í grunnskóla og stuðlað geta að því að grunnskóli geti mætt þörfum þess. Segir og í skýringum að markmið miðlunarinnar sé að tryggja að byggt sé á fyrra námi og reynslu leikskólabarna þegar þau koma í grunnskóla. Er því lagt til að í stað orðanna „að gagni geta komið" komi orðin „nauðsynlegar eru".


B. Umsögn um frumvarp til laga um grunnskóla (mál nr. 285, 135. löggjafarþing)

Þann 10. október 2007, funduðu lögfræðingar Persónuverndar með fulltrúum menntamálaráðuneytisins um tiltekin ákvæði í frumvarpsdrögum til nýrra laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Í ljósi þess að stuttur tími var til stefnu við samningu frumvarpanna, var ákveðið að Persónuvernd myndi skila umsögn til menntamálanefndar Alþingis þegar frumvarpsdrögin lægju fyrir.

Í 2. mgr. 18. gr. frumvarpsins er fjallað um persónuupplýsingar um börn en þar kemur fram að foreldrum sé skylt að veita grunnskóla upplýsingar um barn sitt sem „kunna að skipta máli" fyrir skólastarfið og velferð þess. Það er mat Persónuverndar að þetta orðalag þurfi að þrengja þannig að skýrt verði að foreldrum sé einungis skylt að veita grunnskóla upplýsingar um barn sitt sem nauðsynlegar eru fyrir skólastarfið og velferð barnins.

Geta má þess að framangreind afstaða er í samræmi við þær skýringar sem fram koma í greingargerð með 18. gr. frumvarpsins en þar segir m.a.:„Til þess að skólaganga barns geti gengið sem eðlilegast fyrir sig verða stjórnendur grunnskóla að hafa réttar og sem bestar upplýsingar um barn og líðan þess. Ljóst er í því sambandi að upplýsingar sem teljast nauðsynlegar við ákvörðun um rétt eða skyldu nemenda geta fallið hér undir og enn fremur upplýsingar sem teljast nauðsynlegar fyrir skólastjórnendur til þess að rækja skyldur sínar samkvæmt frumvarpinu."


C. Umsögn um frumvarp til laga um framhaldsskóla (mál nr. 286, 135. löggjafarþing)

Þann 10. október 2007, funduðu lögfræðingar Persónuverndar með fulltrúum menntamálaráðuneytisins um tiltekin ákvæði í frumvarpsdrögum til nýrra laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Í ljósi þess að stuttur tími var til stefnu við samningu frumvarpanna, var ákveðið að Persónuvernd myndi skila umsögn til menntamálanefndar Alþingis þegar frumvarpsdrögin lægju fyrir. Persónuvernd hefur nú farið yfir frumvarp til laga um framhaldsskóla og gert eftirfarandi athugasemdir.

Í 1. mgr. 55. gr. frumvarpsins kemur fram að menntamálaráðuneytið annist söfnun og miðlun upplýsinga um skólahald og skólastarf á framhaldsskólastigi sem varða mats- og eftirlitshlutverk þess. Í skýringum í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að gæta þurfi að því í lagasetningunni að ráðuneytið eigi greiðan aðgang að þeim upplýsingum sem það þarf um leið og sjónarmiða stjórnsýslulaga og laga um persónuvernd sé að fullu gætt.

Til að taka af allan vafa um það hvænær ráðuneytinu er heimilt að vinna með persónuupplýsingar á grundvelli ákvæðisins og ljósi lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, þ.e. þeirrar reglu að stjórnsýslan er lögbundin og að allar ákvarðanir hennar skulu byggðar á gildandi lögum, leggur Persónuvernd til að orðalagi 1. mgr. 55. gr. frumvarpsins verði breytt og það gert skýrara, með þeim hætti að fjallað verði um lögbundið eftirlitshlutverk menntamálaráðuneytisins í stað þess að fjalla um mats- og eftirlitshlutverk þess.



Var efnið hjálplegt? Nei