Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja, sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands, og starfskjör starfsmanna þeirra

22.2.2007

Umsögn um frumvarp til laga um erlend fyrirtæki sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands

Persónuvernd vísar til bréfs félagsmálanefndar Alþingis, dags. 12. febrúar 2007, þar sem óskað er umsagnar stofnunarinnar um frumvarp til laga um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja, sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands, og starfskjör starfsmanna þeirra (þskj. 810, 541. mál, 133. löggjafarþing).

Í símtali við starfsmann nefndarinnar hinn 13. febrúar 2007 kom fram að einkum er það ákvæði 4. mgr. 8. gr. frumvarpsins sem óskað er umsagnar um, en þar er mælt fyrir um að Vinnumálastofnun skuli „afhenda hlutaðeigandi stjórnvöldum, svo sem skattyfirvöldum, Tryggingastofnun ríkisins, Útlendingastofnun, Vinnueftirliti ríkisins og Þjóðskrá, eftir því sem við getur átt," tilteknar upplýsingar. Er þar átt við upplýsingar sem erlendum fyrirtækjum, sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands, yrði skylt að afhenda Vinnumálastofnun, m.a. um viðkomandi starfsmenn, sbr. 2. og 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins, þ. á m. um breytingar á þeim upplýsingum, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Framangreind ákvæði 1. mgr. eru sem hér greinir:

„2. Yfirlit yfir starfsmenn sem starfa munu á vegum fyrirtækisins hér á landi þar sem fram kemur nafn, fæðingardagur, heimilisfang í heimaríki, ríkisfang, upplýsingar um að viðkomandi starfsmenn njóti almannatryggingaverndar í heimaríki (E-101), dvalarstaður og áætlaður dvalartími hér á landi og starfsréttindi eftir því sem við á,

3. Gildi atvinnuleyfa starfsmanna í heimaríki þegar um er að ræða starfsmenn sem ekki eru ríkisborgarar ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu, EFTA-ríkja og Færeyja."

Persónuvernd bendir á að í 4. mgr. 8. gr. mætti afmarka betur hvaða stofnunum Vinnumálastofnun má afhenda upplýsingar um umrædda starfsmenn erlendra fyrirtækja, sem og í hvaða tilgangi miðla má upplýsingunum, s.s. að það sé nauðsynlegt vegna fyrirgreiðslu við umrædda einstaklinga. Eins og ákvæðið er orðað nú er hvorugt afmarkað með skýrum hætti

Ekki liggur fyrir hvaða stofnanir það eru, að undanskildum þeim sem sérstaklega eru tilgreindar í ákvæðinu, sem hafa þörf fyrir umræddar upplýsingar. Ætla má hins vegar að þær stofnanir, sem taldar eru upp, séu þær sem einkum sé nauðsynlegt að fá þær í hendur. Í ljósi þess telur Persónuvernd rétt að í það minnsta sé orðunum „svo sem" í ákvæðinu skipt út fyrir orðið „einkum" til að gera reglu þess afmarkaðri og skýrari.

Tilgangurinn með afhendingu upplýsinganna er af öllu að merkja sá að auðvelda hlutaðeigandi stofnunum að standa vörð um réttindi og starfskjör umræddra starfsmanna erlendra fyrirtækja. Telur Persónuvernd æskilegt að sá tilgangur verði tilgreindur sérstaklega í ákvæðinu.

Í ljósi framangreinds telur Persónuvernd að ákvæðið mætti hljóða svo:

„Vinnumálastofnun skal afhenda hlutaðeigandi stjórnvöldum, einkum skattyfirvöldum, Tryggingastofnun ríkisins, Útlendingastofnun, Vinnueftirliti ríkisins og Þjóðskrá, upplýsingar skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. og 3. mgr. að því marki sem upplýsingarnar eru þeim nauðsynlegar til að standa vörð um réttindi og starfskjör starfsmanna fyrirtækja sem falla undir lög þessi."

Að framangreindu undanskildu gerir Persónuvernd ekki athugasemdir við ákvæði frumvarpsins.





Var efnið hjálplegt? Nei