Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um æskulýðsmál

19.2.2007

Umsögn um frumvarp til laga um æskulýðsmál

Persónuvernd vísar til bréfs menntamálanefndar Alþingis, dags. 31. janúar 2007, þar sem óskað er umsagnar stofnunarinnar um frumvarp til nýrra æskulýðslaga (409. mál, 133. löggjafarþing). Áður hefur Persónuvernd fengið að mestu samhljóða frumvarp til umsagnar, þ.e. með bréfi nefndarinnar, dags. 28. febrúar 2006 (434. mál, 132. löggjafarþing). Þá voru gerðar athugasemdir við 3. mgr. 10. gr. frumvarpsins um að hjá þeim aðilum, sem störfuðu samkvæmt lögunum, hvort sem væri hjá ríki, sveitarfélögum eða öðrum aðilum, væri óheimilt að ráða til starfa þá sem hlotið hefðu refsidóma vegna brota á m.a. ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni. Var bent á að ekki væri mælt fyrir um samþykki fyrir slíkri upplýsingaöflun ólíkt því sem væri í fyrirmynd ákvæðisins, þ.e. 36. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 um öflun upplýsinga úr sakaskrá um hvort umsækjendur um tiltekin störf hafi framið kynferðisbrot. Þá taldi Persónuvernd framangreint ákvæði frumvarpsins of víðtækt þar eð það tæki til allra fíkniefnabrota án nokkurrar afmörkunar. Um þetta segir í umsögninni:

„Annað, sem Persónuvernd telur rétt að benda á varðandi reglu frumvarpsins um öflun upplýsinga um fíkniefnabrot, er hversu víðtæk hún er. Nær hún þannig til allra brota gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Er þar enginn greinarmunur gerður á því m.a. hvort um dóma fyrir vörslu ávana- og fíkniefna annars vegar eða innflutning, dreifingu eða sölu slíkra efna hins vegar er að ræða. Að því leyti gengur ákvæði frumvarpsins lengra heldur en gert [er] ráð fyrir í athugasemdum við það í greinargerð, en þar ræðir aðeins um síðarnefndu upplýsingarnar.

Auk þessa telur Persónuvernd rétt að benda á að með umræddu ákvæði er verið að lögfesta framkvæmd sem ætla má að gangi mun lengra en nú tíðkast án þess að rökstutt sé að jafnvíðtæk regla og hér um ræðir sé í raun málefnaleg. Af þessu tilefni bendir Persónuvernd á þá grundvallarreglu í persónuupplýsingalöggjöf að við vinnslu persónuupplýsinga skuli þess gætt að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar, sbr. c-lið 1. mgr. 6. gr. persónuverndartilskipunarinnar nr. 95/46/EB. Einnig bendir Persónuvernd á grundvallarregluna um friðhelgi einkalífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Í ljósi framangreinds telur Persónuvernd að með samþykkt umrædds ákvæðis kunni að verða leitt í lög verklag við afgreiðslu umsókna um störf á sviði æskulýðsmála sem fer fram úr því sem málefnalegt getur talist í ljósi sjónarmiða um vernd persónuupplýsinga og friðhelgi einkalís. Álítur stofnunin því að kanna verði betur hvort raunverulega sé nauðsyn á slíku ákvæði sem hér um ræðir."

Í hinu nýja frumvarpi, sem Persónuvernd hefur nú borist til umsagnar, hefur umrætt ákvæði, sem eins og í fyrra frumvarpi er að finna í 3. mgr. 10. gr., verið þrengt. Tekur það nú aðeins til dóma fyrir brot gegn ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni síðastliðin fimm ár. Í ljósi þessa gerir Persónuvernd ekki athugasemdir við ákvæðið.

Auk þess er í hinu nýja frumvarpi að finna nýja 4. mgr. 10. gr. þar sem mælt er fyrir um að samþykki þurfi fyrir öflun umræddra upplýsinga. M.a. í ljósi þess gerir Persónuvernd ekki athugasemdir við ákvæði frumvarpsins um umrædda upplýsingaöflun.

Einnig er í frumvarpinu að finna ákvæði um svonefndar æskulýðsrannsóknir. Þessi ákvæði er að finna í 12. gr. þar sem segir að ráðherra skuli stuðla að því að fram fari reglubundnar æskulýðsrannsóknir sem lagðar verði til grundvallar stefnumótun í æskulýðsmálum. Þá segir að ráðherra skuli skipa fimm manna ráðgjafarnefnd um þessar rannsóknir, en þar á eftir er rakið hvernig skipað skal í nefndina og hver skipunartími hennar skuli vera.

Persónuvernd gerir ekki athugasemdir við þessi ákvæði, en vekur athygli á að ef vinna á með persónuupplýsingar í rannsóknum samkvæmt þeim verður í einu og öllu að vera farið að ákvæðum laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og reglna settra með stoð í þeim.

Eftir að hafa farið yfir frumvarpið að öðru leyti telur stofnunin ekki ástæðu til athugasemda við efni þess.

6. febrúar 2007




Var efnið hjálplegt? Nei