Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um vátryggingarsamninga

19.2.2007

Hinn 12. febrúar sl. veitti Persónuvernd efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vátryggingarsamninga.

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004.

Persónuvernd vísar til bréfs efnahags- og viðskiptanefndar, dags. 1. febrúar sl., þar sem óskað er umsagnar Persónuverndar um frumvarp til laga um breyting á lögum um vátryggingarsamninga, 387. mál, upplýsingaöflun vátryggingafélaga (þskj. 429 á 133. löggjafarþingi.)

1.

Frumvarp þetta er til komið vegna vafa um það hvort 2. mgr. 82. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga heimili tryggingafélögum að óska eftir upplýsingum um heilsufar náinna skyldmenna vátryggingartaka og vátryggðra. Vafi hefur leikið á því hvort ákvæðið sé nægilega skýrt til að heimila vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga og er frumvarpinu ætlað að bæta úr því. Með frumvarpinu er lagt til að 82. gr. laganna verði breytt á þá leið að skýrlega komi fram að tryggingafélagi sé heimilt að „óska upplýsinga um sjúkdóma sem vátryggingartaki eða vátryggður, foreldri hans, barn eða systkini eru haldin eða hafa verið haldin" vegna áhættumats.

Skýrt skal tekið fram að Persónuvernd telur að meginstefnu varhugavert að heimila aðilum utan heilbrigðiskerfisins umfangsmikla skráningu eða aðra meðferð heilsufarsupplýsinga án þess að til komi upplýst samþykki hlutaðeigandi einstaklinga. Þá skal því haldið til haga að, eftir því sem Persónuvernd best veit, er sjaldgæft í framkvæmd að upplýsingar um heilsufar skyldmenna vátryggingartaka eða vátryggðs leiði til þess að tryggingafélög óski eftir frekari rannsókn á heilsufari umsækjanda á því tímamarki sem hann sækir um vátryggingu. Þvert á móti eru upplýsingarnar í reynd notaðar til þess rökstyðja hærri iðgjöld, setningu sérskilmála eða synjun um vátryggingu vegna þess að tryggingafélög telja líklegt að umsækjandi þrói með sér eða fái tiltekinn sjúkdóm í framtíðinni. Persónuvernd er því enn þeirrar skoðunar að öflun upplýsinga um heilsufar skyldmenna geti eðli málsins samkvæmt ekki falið í sér annað en könnun á því hætta sé á arfgengum sjúkdómi, þrátt fyrir að ekki sé gengið svo langt að láta umsækjendur gangast undir erfðarannsókn í því skyni.

Í því samhengi sem hér um ræðir hefur verið bent á að afli tryggingafélögin ekki upplýsinga um heilsufar skyldmenna vátryggingartaka og vátryggðra geti ákvæði í endurtryggingarsamningum hugsanlega leitt til þess að iðgjöld hækki verulega og að það dragi úr framboði á persónutryggingum hérlendis. Hins vegar bendir Persónuvernd á að út frá sjónarmiðum um persónuvernd og friðhelgi einkalífs er æskilegra að þessara upplýsinga sé ekki aflað. Persónuvernd bendir einnig á að engin gögn hafa verið lögð fram sem sýna fram á hversu miklar afleiðingar það kynna að hafa í för með sér fyrir vátryggingamarkaðinn að afla ekki upplýsinga um heilsufar skyldmenna, s.s. um hversu mikið iðgjöld myndu hækka, en slík matsgerð liggur hugsanlega fyrir hjá hagsmunaaðilum.

2.

Á meðan á samningu frumvarpsins stóð fékk Persónuvernd tækifæri til að koma að ábendingum um efni frumvarpsins. Af því tilefni skal tekið fram, til að fyrirbyggja allan misskilning, að aðkoma Persónuverndar að undirbúningnum sneri að því að færa með skýrari hætti í orð þann skilningi sem fulltrúar SÍT og Fjármálaeftirlitsins hafa lagt í núgildandi ákvæði 82. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, en fól ekki í sér afstöðu stofnunarinnar til þess hvort upplýsingaöflunin sem um ræðir væri æskileg. Persónuvernd fékk síðast drög send frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneytingu hinn 2. júní 2006 og gerði þá engar athugasemdir við efni ákvæðisins út frá sjónarmiðum um skýrleika. Frá þeim tíma hafa hins vegar gerðar nokkrar breytingar og gerir Persónuvernd eftirfarandi athugasemdir við þær:

1. Upplýsingar um sjúkdóma barna vátrygginartaka eða vátryggðra

Í 2. málsl. 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að tryggingafélagi sé heimilt að óska upplýsinga um sjúkdóma sem vátryggingartaki eða vátryggður, foreldri hans, barn eða systkini eru haldin eða hafa verið haldin. Þetta er þrengra orðalag en í gildandi lögum. Bent er á að í framkvæmd hafa íslensk tryggingafélög ekki óskað upplýsinga um sjúkdóma barna vátryggingartaka eða vátryggðra, heldur óskað upplýsinga um heilsufar foreldra og systkina eingöngu. Ef ætlunin með frumvarpinu er að færa ákvæði laga um vátryggingarsamninga til samræmis við framkvæmd er rétt að hafa þetta í huga, eða í það minnsta taka til skoðunar hvort vísindaleg rök mæli með því að afla upplýsinga um sjúkdóma barna. Hér þarf í fyrsta lagi að hafa í huga að sérstök sjónarmið gilda um einkalífsvernd ólögráða barna þar sem þau eru síður í aðstöðu til þess að gæta réttinda sinna sjálf. Í öðru lagi er ekki óeðlilegt að áður en heimild til öflunar upplýsinga um sjúkdóma barna er bundin í lög verði aflað umsagna frá fagaðilum um vægi þeirra upplýsinganna.

2. Niðurstöður erfðarannsókna

Í 1. málsl. 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um að tryggingafélagi sé óheimilt, fyrir eða eftir gerð samnings um persónutryggingu, að óska eftir, afla með einhverjum öðrum hætti, taka við eða hagnýta sér upplýsingar sem fengnar eru úr niðurstöðu erfðarannsóknar á einstaklingi og geta gefið til kynna hættu á að hann þrói með sér eða fái tiltekinn sjúkdóm.

Í 2. málsl. 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins segir síðan: „Þetta bann á þó ekki við um upplýsingar sem fengnar eru úr niðurstöðu erfðarannsóknar á einstaklingi sem staðfesta að vátryggður sé haldinn tilteknum sjúkdómi þegar upplýsinga skv. 1. mgr. er aflað" - þ.e. þegar tryggingafélag hefur enn ekki samþykkt að veita vátryggingu.

Um þetta segir í athugasemdum við frumvarpið: „Hafi á hinn bóginn sjúkdómur verið greindur með erfðarannsókn, t.d. DNA-rannsókn, er félaginu heimilt að nýta þær upplýsingar í áhættumati sínu, en ekki aðrar upplýsingar. Jafnframt væri vátryggingartaka, eða vátryggðum, skylt að upplýsa um sjálfa sjúkdómsgreininguna, sem hefði fengist við erfðarannsóknina, sbr. greinargerð með gr. 3a í dönsku vátryggingarsamningalögunum, nr. 129/1930, sbr. breytingalög nr. 413/1997, sem er fyrirmynd ákvæðisins í 82. gr."

Ákvæði 1. málsl. tekur samkvæmt skýru orðalagi sínu til upplýsinga sem geta gefið til kynna heilsufar vátryggingartaka eða vátryggðs í framtíðinni, en ekki til upplýsinga um fyrra eða núverandi heilsufar. Af orðalagi 1. málsl. leiðir því þegar að upplýsingar um að vátryggður sé haldinn tilteknum sjúkdómi þegar hann sækir um vátryggingu falla ekki undir bannreglu ákvæðisins. Sé samt sem áður talið nauðsynlegt að taka það fram þarf að gera orðalagið skýrara til þess að koma í veg fyrir misskilning.

Í fyrsta lagi er ákvæði 2. málsl. orðað sem undanþága frá bannreglu 1. málsl. þrátt fyrir að bannreglan taki samkvæmt orðalagi sínu ekki til þeirra upplýsinga sem tilgreindar eru í 2. málsl. Heppilegra væri að nota jákvætt heimildarákvæði, þ.e. taka fram að tryggingafélagi sé heimilt að óska eftir eða afla tiltekinna upplýsinga á meðan það hefur ekki samþykkt að veita vátryggingu og skipa því í 1. mgr. þar sem mælt er fyrir um aðrar heimildir tryggingafélaga.

Í öðru lagi þyrfti að taka fram að tryggingafélagi sé heimilt að taka við upplýsingum sem fengnar eru úr erfðarannsókn og staðfesta að vátryggður sé ekki haldinn tilteknum sjúkdómi, en þess skal getið að Persónuvernd hefur a.m.k. einu sinni borist símtal frá umsækjanda um vátryggingu sem var meinað að leggja slíkar upplýsingar fram til tryggingafélags með vísan til núgildandi ákvæðis 82. gr. laga nr. 30/2004.

Í samræmi við framangreint leggur Persónuvernd til að ákvæði 1. gr. frumvarpsins verði orðað með eftirfarandi hætti:

„Á meðan félagið hefur ekki samþykkt að veita vátryggingu getur það óskað eftir upplýsingum sem hafa þýðingu fyrir mat þess á áhættunni. Í þeim tilgangi er félaginu heimilt að óska upplýsinga um sjúkdóma sem vátryggingartaki eða vátryggður, foreldri hans eða systkini eru haldin eða hafa verið haldin og er þá m.a. heimilt að óska eftir staðfestingu, sem fengist hefur með framkvæmd erfðarannsóknar, á því hvort vátryggður er haldinn tilteknum sjúkdómi eða ekki. Slíkra upplýsinga skal aflað beint hjá vátryggingartaka, eða eftir atvikum vátryggðum, sem skal veita rétt og tæmandi svör við spurningum félagsins. Sé upplýsinganna aflað frá öðrum en vátryggingartaka eða vátryggðum skal, áður en þeirra er aflað, liggja fyrir skriflegt upplýst samþykki þess sem aflað er upplýsinga um. Vátryggingartaki, og eftir atvikum vátryggður, skal að eigin frumkvæði veita upplýsingar um sérstök atvik sem hann veit, eða má vita, að hafa verulega þýðingu fyrir mat félagsins á áhættu.

Tryggingafélagi er óheimilt, fyrir eða eftir gerð samnings um persónutryggingu, að óska eftir, afla með einhverjum öðrum hætti, taka við eða hagnýta sér upplýsingar sem fengnar eru úr niðurstöðu erfðarannsóknar á einstaklingi og geta gefið til kynna hættu á að hann þrói með sér eða fái tiltekinn sjúkdóm.

Synji félagið að veita persónutryggingu skal það rökstyðja synjunina sé eftir því leitað."


12. febrúar 2007



Var efnið hjálplegt? Nei