Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um heilbrigðisþjónustu

29.11.2006

Persónuvernd vísar til bréfs heilbrigðis- og trygginganefndar Alþingis, dags. 10. nóvember 2006, þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til nýrra laga um heilbrigðisþjónustu (þskj. 281 – 272. mál). Af því tilefni bendir Persónuvernd á eftirfarandi:

Í 5. tölul. 1. mgr. 20. gr. er kveðið á um það hlutverk Landspítala (Nú Landspítala-háskólasjúkrahúss) að starfrækja blóðbanka sem hafi með höndum blóðbankaþjónustu á landsvísu. Er þetta ákvæði sambærilegt við 1. málsl. 1. mgr. 37. gr. c í núgildandi lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990. Í 37. gr. c þeirra laga er einnig mælt fyrir um að ráðherra veiti leyfi til starfrækslu blóðbanka, að fenginni umsögn landlæknis og Lyfjastofnunar. Sambærilegt ákvæði vantar hins vegar í frumvarpið. Af því tilefni bendir Persónuvernd á að hún telur brýnt að áfram verði kveðið á um umrædda leyfisveitingu í lögum. Þá telur Persónuvernd brýnt í ljósi öryggissjónarmiða að jafnframt verði bætt við ákvæði um að þeir sem bera ábyrgð á öryggi persónuupplýsinga í blóðbönkum skuli greina Persónuvernd frá því í tæka tíð hvernig því verði háttað.

Í þessu sambandi skal tekið fram að til lengri tíma litið telur stofnunin æskilegt að lagaákvæðum um blóðbanka verði steypt saman í skýran, afmarkaðan og heildstæðan lagabálk, en þannig má ætla að best verði tryggt að farið sé að ákvæðum tilskipunar 2002/98/EB um setningu gæða- og öryggisstaðla fyrir söfnun, prófun, vinnslu, geymslu og dreifingu blóðs og blóðhluta úr mönnum, en ákvæði íslenskra laga verða að samrýmast þeirri tilskipun.

Að öðru leyti gerir Persónuvernd ekki athugasemdir við frumvarpið.





Var efnið hjálplegt? Nei