Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum

Umsögn til allsherjarnefndar Alþingis

24.4.2006

Frumvarp til laga um breyting á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum

Persónuvernd vísar til bréfs allsherjarnefndar Alþingis, dags. 12. apríl 2006, þar sem óskað er umsagnar Persónuverndar um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum (667. mál á 132. löggjafarþingi). Í frumvarpinu er lagt til að á eftir 1. mgr. 22. gr. laganna komi ný málsgrein, svohljóðandi:

„Nú er beiðni um aðstoð lögð fram á grundvelli samnings Evrópusambandsins um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum frá 29. maí 2000 og bókunar við hann 16. október 2001 og skal þá fylgja þeirri málsmeðferð sem það ríki sem leggur fram beiðni tilgreinir sérstaklega að því tilskildu að brjóti ekki í bága við íslensk lög. Verða skal við beiðnum um skýrslutöku vitna eða sérfræðinga í síma eða á myndfundi eftir því sem unnt er. Yfirheyrsla í síma skal einungis leyfð ef viðkomandi vitni eða sérfræðingur samþykkir."

Eins og tekið er fram í athugasemdum frumvarpsins við þetta ákvæði hefur það að geyma sömu efnisreglu og 1. mgr. 4. gr. samningsins, en það ákvæði hljóðar svo:

„Þegar gagnkvæm réttaraðstoð er veitt skal aðildarríkið, sem beiðni er beint til, uppfylla þau formlegu skilyrði og fylgja þeirri málsmeðferð sem aðildarríkið, sem leggur fram beiðni, tilgreinir sérstaklega, nema kveðið sé á um annað í þessum samningi og að því tilskildu að formlegu skilyrðin og málsmeðferðin brjóti ekki í bága við grundvallarlagareglur í aðildarríkinu sem beiðni er beint til."

Af framangreindu er ljóst að á Íslandi hvílir sú þjóðréttarlega skylda að lögtaka þá reglu sem hér um ræðir. Beiting reglunnar hefur í för með sér vinnslu persónuupplýsinga um þá einstaklinga sem þau mál varða sem gagnkvæm réttaraðstoð er sprottin af. Í ljósi þess að reglan er lögfest með þeim hætti að ekki á að hljótast af meiri vinnsla persónuupplýsinga, heldur en umrætt ákvæði samningsins gerir ráð fyrir, gerir Persónuvernd ekki efnislegar athugasemdir við frumvarpið.

Hins vegar skal tekið fram að sérstaka áherslu ber að leggja á þann þátt reglunnar að sú málsmeðferð, sem beitt er við veitingu gagnkvæmrar réttaraðstoðar, brjóti ekki gegn íslenskum lögum. Eins og fjallað er ítarlega um í athugasemdum við frumvarpið getur beiðni um slíka aðstoð samkvæmt umræddum samningi lotið að símhlerun, sbr. III. bálk samningsins, þ.e. 17.–22. gr. Er ljóst að við afgreiðslu um aðstoð í slíkum tilvikum yrði ávallt að fara að þeirri grundvallarreglu íslenskra laga að lögregla afli sér dómúrskurðar til hlerunar, sbr. c-lið 86. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 1. og 2. mgr. 87. gr. sömu laga.

Einnig bendir Persónuvernd á 23. gr. samningsins um vernd persónuupplýsinga, m.a. 3. mgr. þeirrar greinar um að við sérstakar aðstæður í einstöku máli geti aðildarríki, sem veitir persónuupplýsingar, krafist þess að aðildarríkið, sem fékk persónuupplýsingarnar, veiti upplýsingar um notkun þeirra. Í 23. gr. samningsins felst réttarvernd sem Persónuvernd álítur mikilvægt að íslenska ríkið færi sér í nyt eins og kostur er.





Var efnið hjálplegt? Nei