Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan EES og lögum um atvinnuréttindi útlendinga

Umsögn til félagsmálanefndar Alþingis

26.4.2006

Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan EES og lögum um atvinnuréttindi útlendinga

Persónuvernd vísar til tölvubréfs félagsmálanefndar Alþingis frá 21. apríl 2006 þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, og lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga.

1.

Frumvarpið er samið af tilefni þess að frá 1. maí 2006 á reglugerð Evrópubandalagsins nr. 1612/68/EB, sem veitir launþegum frelsi til að flytja á milli landa EES, að taka gildi hvað varðar ríkisborgara frá hinum nýju Evrópusambandsríkjum Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Póllandi, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklandi og Ungverjalandi. Hins vegar er heimilt samkvæmt V. viðauka EES-samningsins og samningum um inngöngu framangreindra ríkja í ESB að fresta gildistöku umræddrar reglugerðar varðandi þau til 1. maí 2009. Samkvæmt frumvarpinu er fyrirhugað að nota þá heimild að hluta. Ekki verði sett takmörk við því að fólk frá umræddum ríkjum flytjist hingað, en hins vegar verði mælt fyrir um það í íslenskum lögum að atvinnurekandi skuli tilkynna um þetta fólk til Vinnumálastofnunar. Í tilkynningu skuli koma fram nafn atvinnurekanda, kennitala og heimilisfang ásamt nafni viðkomandi útlendings, kennitölu og aðsetri hér á landi. Enn fremur skuli fylgja tilkynningu ráðningarsamningur sem tryggi útlendingnum laun og önnur starfskjör samkvæmt íslenskum lögum og kjarasamningum. Haldin skuli skrá yfir viðkomandi einstaklinga. Stéttarfélagi í viðkomandi starfsgrein á svæði því sem útlendingur starfi á skuli afhent afrit af ráðningarsamningi óski það eftir því, enda liggi fyrir grunur um brot á gildandi kjarasamningi.

Í athugasemdum frumvarpsins við framangreind ákvæði, sem einkum koma fram í 3. gr. þess, er tilgangi skráningar lýst svo:

„Enn fremur er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun haldi skrá yfir þá ríkisborgara fyrrgreindra ríkja sem koma til þess að starfa hér á landi. Tilgangur þessarar tilkynningarskyldu atvinnurekanda er að gefa stjórnvöldum færi á að fylgjast með framvindu mála svo að unnt sé að hafa yfirsýn yfir hverjir koma hingað til landsins, m.a. til að gæta þess að þeir njóti þeirra réttinda er gilda á innlendum vinnumarkaði. Jafnframt er mikilvægt að meta áhrif stækkunar Evrópska efnahagssvæðisins á vinnumarkaðinn, sem og tryggja að unnt sé að bregðast í tíma við aðstæðum sem kunna að leiða til alvarlegrar röskunar á innlendum vinnumarkaði. Þá er litið til þess að slík skráning geri stjórnvöldum kleift að veita þessum útlendingum nauðsynlegar upplýsingar um lög og reglur er gilda um störf á innlendum vinnumarkaði. Er gert ráð fyrir að stjórn Vinnumálastofnunar semji verklagsreglur um skráningu stofnunarinnar."

Tilganginum með ákvæði um rétt stéttarfélaga til afrits af ráðningarsamningi er og lýst svo:

„Þá er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun afhendi stéttarfélagi í viðkomandi starfsgrein á svæði því sem útlendingur skv. 1. mgr. ákvæðisins starfar á afrit af ráðningarsamningi útlendingsins óski stéttarfélagið eftir því enda liggi fyrir grunur um brot á gildandi kjarasamningi. Þykir mikilvægt að viðhalda þeirri viðteknu venju að aðilar vinnumarkaðarins fylgist með að kjarasamningar séu haldnir hér á landi, en ástæða þykir til að styrkja það tímabundið með þessum hætti. Aðildarsamningur EES gerir og ráð fyrir sérstökum ráðstöfunum á aðlögunartímanum. Er hér einnig átt við að stéttarfélag geti óskað eftir ráðningarsamningum ótilgreindra útlendinga er starfa hjá tilteknum atvinnurekanda. Er þá miðað við að vísbendingar séu fyrir hendi er gefa tilefni til gruns um að ákvæði kjarasamninga séu virt að vettugi hjá hlutaðeigandi atvinnurekanda."

Að því gefnu að metið hafi verið hvort ekki verði hjá því komist að halda framangreinda skrá yfir ríkisborgara frá umræddum löndum, sem starfa hér á landi, til að sinna umræddri stjórnsýslu, gerir Persónuvernd ekki athugasemdir við það. Hvað rétt stéttarfélaga til að fá afhent afrit kjarasamnings gerir Persónuvernd ekki athugasemdir, enda má ætla að slíkt sé í samræmi við hið lögboðna hlutverk stéttarfélaga að hafa eftirlit með því að farið sé að kjarasamningum, sbr. einkum 9. og 11. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

2.

Auk framangreinds hefur frumvarpið að geyma svohljóðandi ákvæði, þ.e. í 2. gr. þar sem lagt er til að þau verði í nýrri grein í lögum nr. 97/2002, n.t.t. 16. gr. a:

„Fái Vinnumálastofnun upplýsingar sem gefa til kynna að brotið sé gegn íslenskum lögum og reglum er stofnuninni heimilt að afhenda hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvaldi eða lögreglu, eftir atvikum, upplýsingarnar.

Heimilt er við vinnslu upplýsinga að samkeyra upplýsingar Vinnumálastofnunar, Útlendingastofnunar, lögreglu og skattyfirvalda. Að öðru leyti fer um meðferð persónuupplýsinga samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga."

Við þá reglu að Vinnumálastofnun megi afhenda hlutaðeigandi stjórnvaldi eða lögreglu gögn vegna gruns um brot gerir Persónuvernd ekki athugasemdir. Varðandi framangreinda samkeyrsluheimild vill Persónuvernd hins vekja athygli á eftirfarandi: Heimildin er mjög víðtæk og gerir samkvæmt orðalagi sínu ráð fyrir að samkeyra megi allar skrár hjá þeim stjórnvöldum, sem hér um ræðir, og án þess að sérstakt tilefni þurfi til. Er þannig ekki kveðið á um efnislegar heimildir sem fullnægja þarf til að samkeyra megi skrárnar. Þá virðist heimildin gera ráð fyrir að ávallt megi samkeyra allar þær skrár sem umrædd stjórnvöld búa yfir. Í ljósi þessa telur Persónuvernd vafa leika á um hvort umrætt ákvæði sé þannig úr garði gert að gætt sé meðalhófs, sbr. a–c-liði 1. mgr. 6. persónuverndartilskipunarinnar nr. 95/46/EB, sbr. og 1.–3. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Í þessu sambandi bendir Persónuvernd á að tilskipun 95/46/EB gerir miklar kröfur til lagaheimilda til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga, s.s. um hvort maður hafi verið grunaður, kærður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, sbr. b-lið 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Í 4. mgr. 8. gr. tilskipunarinnar, sbr. og 34. gr. formálsorða, er þannig mælt fyrir um að við setningu slíkra ákvæða verði að sýna fram á brýna almannahagsmuni og að setja verði viðeigandi öryggisákvæði.

Einnig skal bent á athugasemdir við 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 um heimild til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga á grundvelli sérstakrar lagaheimildar. Í athugasemdunum segir m.a.:

„Það ræðst af túlkun viðkomandi lagaákvæðis hvort skilyrðinu er fullnægt. Mat á því hvort lagastoð er fyrir hendi ræðst hverju sinni af skýringu viðkomandi sérlagaákvæðis, en því meiri íhlutun í einkalíf einstaklingsins sem umrædd vinnsla hefur í för með sér þeim mun ótvíræðari þarf lagaheimildin að vera. Skýring slíks ákvæðis ræðst þá m.a. af því hvort löggjafinn hafi í raun tekið tillit til þeirra almennu persónuverndarsjónarmiða sem á reynir við meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga. Verður skilyrði 2. tölul. tæplega talið uppfyllt nema fyrir liggi að löggjafinn hafi skoðað slík sjónarmið en engu síður talið vinnsluna nauðsynlega vegna almannahagsmuna."





Var efnið hjálplegt? Nei