Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum og lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði (skipulag löggæslunnar, greiningardeildir)

Umsögn til allsherjarnefndar Alþingis

10.3.2005

Umsögn Persónuverndar um 520, þingskjal nr. 759.

Persónuvernd vísar til bréfs allsherjarnefndar Alþingis, dags. 23. febrúar sl., þar sem óskað er umsagnar stofnunarinnar um frumvarp til laga um breyting á lögreglulögum nr. 90/1996 og lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði nr. 92/1989, 520. mál, skipulag löggæslunnar, greiningardeildir.

Í frumvarpinu felst ekki breyting á gildandi reglum um meðferð og vinnslu persónuupplýsinga hjá lögreglu. Athygli vekur þó að a-liður 1. gr. frumvarpsins gerir þá breytingu á b-lið 2. mgr. 5. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 að sú rannsóknardeild sem rannsakar landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess skuli jafnframt vera greiningardeild sem leggur mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Þá er, í 5. mgr. 3. gr. frumvarpsins, gert ráð fyrir að ráðherra sé heimilt ákveða að slíkar greiningardeildir skuli starfa við einstök lögreglustjóraembætti.

Í athugsemdum í greinargerð með frumvarpinu segir um þetta:

„Sú ógn sem stafar af alþjóðlegri og skipulagðri glæpastarfsemi hefur vaxið hratt á undanförnum árum auk þess sem ógn af völdum hryðjuverka er sýnileg eins og nýlegar hryðjuverkaárásir bera með sér. Mikilvægt er að lögreglan, sem gegnir því hlutverki að gæta að öryggi ríkisins og borgara þess, afli og vinni úr upplýsingum og greini hættu sem tengjast fíkniefnabrotum, skipulagðri glæpastarfsemi og hryðjuverkum eða öðru varðandi öryggi ríkisins. Um rannsóknaraðferðir og starfsheimildir greiningardeilda fer samkvæmt lögum um meðferð sakamála."

Í ljósi þess að ákvæðin fela ekki í sér sérstakar heimildir til vinnslu persónuupplýsinga og hrófla ekki við þeim reglum sem gilda um meðferð slíkra upplýsinga hjá löggæsluyfirvöldum gerir Persónuvernd ekki efnislegar athugasemdir við þau. Hins vegar er lögð rík áhersla á að ríkislögreglustjóri og, eftir því sem við á, lögreglustjórar viðhafi og skipuleggi viðvarandi innra eftirlit með þeirri upplýsingavinnslu sem fram fer af hálfu greiningardeildanna í samræmi við 4. gr. reglugerðar nr. 322/2001 um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu og tryggi öryggi upplýsinganna. Þá ber, eins og endranær, að sjá til þess að röngum og villandi upplýsingum og þeim upplýsingum sem ekki eru lengur nauðsynlegar verði eytt eða þær leiðréttar, sbr. 12. og 13. gr. rgl. nr. 322/2001. Verður að telja þetta sérstaklega brýnt sé litið til eðlis upplýsinganna, tilgangs upplýsingasöfnunarinnar og þess að fyrirsjáanlegt er að upplýsingaréttur hinna skráðu verði oft takmörkunum háður og þeim því óhægara um vik að gæta réttar sín en ella.

Þá þykir rétt, í ljósi meginreglna 1. og 2. tölul. 7. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sem kveða á um að persónuupplýsingar skuli unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti, og að þær skuli fengnar í skýrum, yfirlýstum og málefnalegum tilgangi, að áhættumat það sem kveðið er á um í frumvarpinu verði unnið eftir skýrum verklagsreglum, sem m.a. mælir fyrir um hvaða persónuupplýsingar skuli hafa vægi og ástæður þess.

Að öðru leyti verða ekki gerðar athugasemdir við efni frumvarpsins.





Var efnið hjálplegt? Nei