Umsagnir

Umsögn um frumvarp til æskulýðslaga

Umsögn til menntamálanefndar Alþingis

9.3.2006

Umsögn um frumvarp til laga um æskulýðsmál

Persónuvernd vísar til bréfs menntamálanefndar Alþingis, dags. 28. febrúar 2006, þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til nýrra æskulýðslaga (434. mál, 132. löggjafarþing). Af ákvæðum þess varðar einkum eitt vinnslu persónuupplýsinga, þ.e. 3. mgr. 10. gr. Þar segir:

„Óheimilt er að ráða til starfa samkvæmt lögum þessum, hvort sem er hjá ríki, sveitarfélagi eða öðrum aðilum, einstaklinga sem hlotið hafa refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga um kynferðisbrot eða vegna brota á ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni."

1.

Í athugasemdum við þetta ákvæði kemur fram að fyrirmynd þess sé að finna í 36. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Þar kemur fram, í 2. mgr., að óheimilt sé að ráða til starfa hjá barnaverndaryfirvöldum, eða heimilum og stofnunum samkvæmt lögunum, menn sem dæmdir hafa verið fyrir brot gegn umræddum kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í 3. mgr. er og kveðið á um að yfirmenn skóla, leikskóla, sumardvalarheimila, íþrótta- og tómstundamiðstöðva og annarra slíkra stofnana eða staða, þar sem börn koma saman eða dveljast um lengri eða skemmri tíma, eigi rétt til upplýsinga úr sakaskrá um það hvort tiltekinn maður, sem sótt hefur um störf á þeirra vegum, hefur hlotið dóm vegna þessara brota. Gert er að skilyrði að viðkomandi hafi samþykkt þá upplýsingaöflun.

Þetta ákvæði barnaverndarlaga nr. 80/2002 á ekki við um marga þá einstaklinga sem falla undir undir gildissvið 3. mgr. 10. gr. frumvarpsins, t.d. formenn ungliðahreyfinga í stjórnmálaflokkum. Sambærileg regla og fram kemur í lagaákvæðinu gildir engu að síður um þessa einstaklinga. Það stafar m.a. af ákvæði 9. gr. reglugerðar nr. 569/1999 um sakaskrá ríkisins, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, um að sakavottorð sé ekki afhent nema viðkomandi einstaklingur sjálfur sanni á sér deili með skilríkjum eða tryggt sé að hann hafi veitt öðrum heimild til að veita því viðtöku. Í IV. kafla reglugerðarinnar, sem fjallar um þá gerð sakavottorða, sem afhent er tilteknum yfirvöldum, er þó ekki kveðið á um að afla þurfi samþykkis. Hins vegar verður ekki talið að þær stofnanir, sem koma að æskulýðsmálum, falli undir þennan kafla, sbr. 10. gr. reglugerðarinnar þar sem skýrt kemur fram sú meginregla að aðeins dómstólar, dómsmálaráðuneytið, umboðsmaður Alþingis, lögregla, fangelsismálastofnun og útlendingaeftirlitið hafi þennan rétt.

Auk þess ber að líta hér til laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að fullnægja einhverju af skilyrðum 8. gr. þeirra laga, auk þess sem öll vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga verður að auki að fullnægja einhverju af skilyrðum 9. gr. laganna. Upplýsingar eins og þær sem hér um ræðir, þ.e. um sakaferil, eru viðkvæmar persónuupplýsingar, sbr. b-lið 8. tölul. 2. gr. laganna. Þarf því bæði að vera fullnægt einhverju af skilyrðum 8. og 9. gr. Af þessum skilyrðum má ætla að alla jafna komi aðeins samþykki til greina, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. og 1. tölul. 1. mgr. 9. gr.

Með vísan til framangreinds vekur Persónuvernd athygli menntamálanefndar á að áfram verður óheimilt að afla upplýsinga úr sakaskrá um brot gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga nema að fengnu samþykki umsækjenda um umrædd störf. Skiptir þá ekki máli hvort þeir falla undir gildissvið 36. gr. barnaverndarlaga eður ei.

2.

Sömu sjónarmið og rakin hafa verið hér um öflun upplýsinga um dóma fyrir kynferðisbrot gilda um öflun slíkra upplýsinga varðandi brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Verður þannig að ætla að alla jafna – jafnvel ávallt – verði að gera kröfu um samþykki fyrir öflun upplýsinga um starfsumsækjanda þar að lútandi úr sakaskrá.

Annað, sem Persónuvernd telur rétt að benda á varðandi reglu frumvarpsins um öflun upplýsinga um fíkniefnabrot, er hversu víðtæk hún er. Nær hún þannig til allra brota gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Er þar enginn greinarmunur gerður á því m.a. hvort um dóma fyrir vörslu ávana- og fíkniefna annars vegar eða innflutning, dreifingu eða sölu slíkra efna hins vegar er að ræða. Að því leyti gengur ákvæði frumvarpsins lengra heldur en gert ráð fyrir í athugasemdum við það í greinargerð, en þar ræðir aðeins um síðarnefndu upplýsingarnar.

Auk þessa telur Persónuvernd rétt að benda á að með umræddu ákvæði er verið að lögfesta framkvæmd sem ætla má að gangi mun lengra en nú tíðkast án þess að rökstutt sé að jafnvíðtæk regla og hér um ræðir sé í raun málefnaleg. Af þessu tilefni bendir Persónuvernd á þá grundvallarreglu í persónuupplýsingalöggjöf að við vinnslu persónuupplýsinga skuli þess gætt að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar, sbr. c-lið 1. mgr. 6. gr. persónuverndartilskipunarinnar nr. 95/46/EB. Einnig bendir Persónuvernd á grundvallarregluna um friðhelgi einkalífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Í ljósi framangreinds telur Persónuvernd að með samþykkt umrædds ákvæðis kunni að verða leitt í lög verklag við afgreiðslu umsókna um störf á sviði æskulýðsmála sem fer fram úr því sem málefnalegt getur talist í ljósi sjónarmiða um vernd persónuupplýsinga og friðhelgi einkalís. Álítur stofnunin því að kanna verði betur hvort raunverulega sé nauðsyn á slíku ákvæði sem hér um ræðir.

3.

Persónuvernd telur ekki tilefni til frekari athugasemda við frumvarpið að því undanskildu að í það vantar ákvæði sem fellir eldri lög um æskulýðsmál, nr. 24/1970, úr gildi





Var efnið hjálplegt? Nei