Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lagaákvæðum um fjármálaeftirlit

Umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í tengslum við athugasemdir LMFÍ

26.4.2006

Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lagaákvæðum um fjármálaeftirlit

Á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í dag var þess óskað að gerðar yrðu skriflegar athugasemdir í tengslum við umsögn Lögmannafélags Íslands (LMFÍ), dags. 10. apríl 2006, við frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lagaákvæðum um fjármálaeftirlit. Sá þáttur umsagnarinnar, sem snýr að starfssviði Persónuverndar, þ.e. vinnslu persónuupplýsinga, varðar þagnarskyldu lögmanna. Er þar 3. gr. frumvarpsins gagnrýnd, en þar er m.a. lagt til að í 9. gr. laga nr. 87/1998 um eftirlit með fjármálastarfsemi verði ákvæði um skyldu til að láta Fjármálaeftirlitinu í té allar upplýsingar og gögn sem það telur nauðsynleg. Kemur fram að lagaákvæði um þagnarskyldu eigi ekki að takmarka skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum.

Í umsögn LMFÍ er lögð áhersla á mikilvægi grundvallarreglunnar um þagnarskyldu lögmanna. Þá kemur fram sú afstaða að ekki eigi að vera unnt að þrengja þá reglu með almennt orðuðum ákvæðum. Segir að til þess þyrfti skýra og nánar skilgreinda lagaheimild sem afmörkuð væri við tilvik þar sem brýn nauðsyn gerir kröfu um að vikið sé frá þagnarskyldunni.

Ljóst er að þessi nálgun LMFÍ er mjög í anda grundvallarreglna persónuupplýsingalöggjafar, sbr. einkum 1.–3. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þar er kveðið á um að við meðferð persónuupplýsinga skuli þess gætt að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga; að þær séu fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi; og að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar. Byggjast þessar reglur á ákvæðum a–c-liða 1. mgr. 6. gr. persónuverndartilskipunarinnar nr. 95/46/EB.

Mikilvægt er að þessar grundvallarreglur séu virtar við útfærslu umrædds ákvæðis frumvarpsins. Við töku ákvörðunar um þá útfærslu þarf því að skoða hvort kröfum þessara reglna sé fullnægt.





Var efnið hjálplegt? Nei