Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lagaákvæðum um fjármálaeftirlit

Umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis

11.4.2006

Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lagaákvæðum um fjármálaeftirlit

Persónuvernd vísar til bréfs efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, dags. 8. mars 2006, þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til laga um breytingar á lagaákvæðum um fjármálaeftirlit. Er í frumvarpinu m.a. kveðið á um ýmis eftirlitsúrræði til handa Fjármálaeftirlitinu svo að það geti framfylgt þeim lögum sem um fjármálastarfsemi gilda, s.s. lögum nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, lögum nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, lögum nr. 34/1998 um starfsemi kauphalla og skipulagslegra tilboðsmarkaða, lögum nr. 60/1994 um vátryggingarstarfsemi og lögum nr. 131/1997 um rafræna eignarskráningu verðbréfa.

Verði frumvarpið að lögum mun það hafa í för með sér vinnslu persónuupplýsinga, s.s. um einstaklinga, sem láta verða Fjármálaeftirlitinu í té gögn sem það telur nauðsynleg við mat á rekstri þeirra, en að undangengnum dómsúrskurði samkvæmt lögum nr. 19/1991 um meðferð opinberrra mála afhendi þeir þau ekki sjálfviljugir, sbr. 3. gr. frumvarpsins um breytingar á 9. gr. laga nr. 87/1998.

Fram kemur í 7. gr. frumvarpsins um breytingar á 13. gr. framangreindra laga að upplýsingar, sem háðar eru þagnarskyldu samkvæmt sérlögum eða öðrum lögum, verða háðar sambærilegri þagnarskyldu þegar þær hafa verið afhentar Fjármálaeftirlitinu. Þá kemur fram í sömu grein að eigi að veita upplýsingar um einstök mál, sem Fjármálaeftirlitið hefur til úrlausnar og þar sem framangreind þagnarskylda á við, skuli þær veittar í samandregnu formi þannig að einstakir aðilar séu ekki auðkenndir.

Eftir að hafa farið yfir frumvarpið telur Persónuvernd, m.a. í ljósi framangreindra ákvæða um þörf á dómsúrskurði og um þagnarskyldu, ekki ástæðu til athugasemda við efni þess.





Var efnið hjálplegt? Nei