Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu

Umsögn til allsherjarnefndar Alþingis

11.4.2006

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, með síðari breytingum

Persónuvernd vísar til bréfs allsherjarnefndar, dags. 27. mars sl., þar sem óskað er umsagnar Persónuverndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu, 566. mál, flutningur Þjóðskrár til dómsmálaráðuneytisins (þskj. 821, 132. löggjafarþing).

Persónuvernd gerir ekki athugasemdir við flutning þjóðskrár frá Hagstofu Íslands til dómsmálaráðuneytisins en vill koma eftirfarandi ábendingum á framfæri:

1.

Samkvæmt d-lið 4. gr. frumvarpsins mun 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 54/1962 um þjóðskrá og almannaskráningu eftirleiðis hljóða svo:

„Almannaskráning byggist á þeim gögnum, sem hér eru talin:

. . .

6. Sérstakar upplýsingar sveitarstjórna, presta þjóðkirkjunnar, forstöðumanna eða presta skráðra trúfélaga, Útlendingastofnunar og annarra opinberra aðila um menn."

Samkvæmt þessu er ekki fyrirhugað að gera aðrar breytingar á framangreindu ákvæði en að „sérstakar upplýsingar um menn" séu fengnar frá prestum þjóðkirkjunnar og forstöðumönnum eða prestum skráðra trúfélaga, í stað sóknarpresta áður.

Persónuvernd bendir á að frá og með gildistöku laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga hafa verið gerðar mun strangari kröfur til skýrleika lagaheimilda fyrir vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga en áður. Því meiri íhlutun í einkalíf einstaklingsins sem slíka vinnsla hefur í för með sér, þeim mun ótvíræðari þarf lagaheimildin að vera og ræðst skýring hennar þá m.a. af því hvort löggjafinn hafi í raun tekið tillit til þeirra almennu persónuverndarsjónarmiða sem á reynir við vinnsluna.

Framangreint ákvæði er í fyrsta lagi óskýrt um það hvaða persónuupplýsinga má afla um menn á grundvelli þess,t.a.m. frá Útlendingastofnun. Í öðru lagi er ákvæðið óskýrt um það frá hvaða aðilumupplýsingarnar skulu fengnar, en í því er talað um „aðra opinbera aðila" án nánari afmörkunar. Ákvæðið er því mjög opið, en skýringin er væntanlega sú að það er gamalt að stofni til.

Með vísan til framangreinds má draga í efa, miðað við kröfur sem gerðar eru til lagasetningar í dag, að ákvæði d-liðar 4. gr. frumvarpsins geti staðið eitt og sér sem sjálfstæð heimild til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000. Það athugast að með viðkvæmum persónuupplýsingum er átt við þá flokka persónuupplýsinga sem taldir eru í 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000, s.s. uppruna, litarhátt, kynþátt, trúar- og lífsskoðanir, kynhegðan, heilsuhagi o.fl.

Persónuvernd telur því æskilegt að ákvæði þetta sé gert skýrara, sé því ætlað að standa sem sjálfstæð heimild til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga.

2.

Í 12. gr. frumvarpsins er kveðið á um að 1. mgr. 19. gr. laga nr. 54/1962 orðist svo:

„Þjóðskrá veitir upplýsingar um aðsetur manna og önnur atriði sem samkvæmt skrám sínum og gögnum, eftir reglum sem dómsmálaráðherra setur."

Persónuvernd bendir á að í sérstökum tilvikum getur skapast þörf fyrir einstaklinga, s.s. þá sem sæta ofsóknum, á að njóta heimilisfangaleyndar í Þjóðskrá, þ.e. að upplýsingum um heimilisfang þeirra sé ekki miðlað út úr skrifstofunni eða þær birtar á Netinu.

Til upplýsingar má geta þess að í 3. gr. reglna nr. 112/1958 um útgáfu vottorða og veitingu upplýsinga úr þjóðskrá og almannaskráningu, sem sett er með stoð í núgildandi 19. gr. laga nr. 54/1962, er kveðið á um að þjóðskrá geti orðið við tilmælum manns um að tilteknum einkaaðila sé ekki veitt vitneskja um aðsetur hans, hafi hann, að mati þjóðskrár, réttmæta og eðlilega ástæðu til að aðsetri hans sé haldið leyndum gagnvart þeim aðila. Þetta ákvæði er haldið þeim galla að sú vernd sem það veitir er takmörkuð að því leyti að einstaklingurinn verður að nefna tiltekna aðila sem ekki mega fá aðgang að upplýsingum um aðsetur hans. Eins og aðgengi er nú háttað að þjóðskrá er ekki raunhæft að unnt sé að framfylgja því.

Til að leysa úr þessum vanda hafa fyrirsvarsmenn Hagstofu Íslands lýst því yfir, á fundi með Persónuvernd, að mögulegt sé að dylja fullt heimilisfang manns í þjóðskrá með sérstökum hætti, ef stofnunin teldi að undangenginni rannsókn að til þess stæðu veigamiklir og lögvarðir hagsmunir. Slík skráning gæti þó einungis verið tímabundin.

Með vísan til framangreinds telur Persónuvernd nauðsynlegt að í lögum, eða a.m.k. í reglum þeim sem dómsmálaráðherra setur skv. 1. mgr. 12. gr. frumvarpsins, verði kveðið á um rétt til heimilisfangaleyndar í sérstökum tilvikum.

Að öðru leyti verða ekki gerðar athugasemdir við frumvarp þetta.





Var efnið hjálplegt? Nei