Umsagnir

Umsögn um frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum, lögum um meðferð opinberra mála og lögum um fjarskipti vegna samnings Evrópuráðsins um tölvubrot

Umsögn til allsherjarnefndar Alþingis

12.4.2006

Umsögn Persónuverndar um frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum, lögum um meðferð opinberra mála og lögum um fjarskipti vegna samnings Evrópuráðsins um tölvubrot

Persónuvernd vísar til bréfs allsherjarnefndar Alþingis, dags. 27. mars 2006, þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum nr. 19/1940, lögum um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 og lögum um fjarskipti nr. 81/2003 (þskj. 905, 619. mál á 132. löggjafarþingi). Er tilgangur þeirra breytinga, sem lagðar eru til, að fullnægja ákvæðum Evrópuráðssamnings frá 23. nóvember 2001 um tölvubrot. Þau ákvæði frumvarpsins, sem einna helst varða vinnslu persónuupplýsinga, birtast í fyrsta lagi í 5. gr. þar sem lagðar eru til breytingar á lögum nr. 19/1991. Er þar lagt til að við lögin bætist ný grein, 87. gr. a, svohljóðandi:

„1. Í þágu rannsóknar máls þar sem rafræn gögn geta haft sönnunargildi er lögreglu heimilt að leggja fyrir þann sem rekur fjarskiptaþjónustu eða fjarskiptanet að varðveita þegar í stað tölvugögn, þar með talin gögn um tölvusamskipti.

2. Fyrirmæli lögreglu skv. 1. mgr. geta eingöngu tekið til gagna sem þegar eru fyrir hendi. Þar skal koma fram hvaða gögn eigi að varðveita og hve lengi. Fyrirmælin skulu ekki ná til annarra gagna en nauðsynleg eru fyrir rannsóknina, auk þess sem varðveisluskyldu skal markaður svo skammur tími sem unnt er og ekki lengri en 90 dagar."

Eins og fram kemur í 4. kafla almennra athugasemda við frumvarpið byggjast ofanrakin ákvæði á 16. gr. samningsins. Þar er m.a. að finna reglu um skyldu aðila til að varðveita gögn „sem hann hefur í fórum sínum eða umráð yfir". Í frumvarpinu er þetta orðalag útfært svo að fyrirmæli lögreglu geti „eingöngu tekið til gagna sem þegar eru fyrir hendi". Persónuvernd telur að með því orðalagi yrði framangreind regla samningsins innleidd með skýrum hætti og þannig að ekki fari á milli mála að lögregla geti ekki lagt þá skyldu á fjarskiptafyrirtæki að varðveita fjarskiptagögn sem enn hafa ekki orðið til. Telur Persónuvernd þá reglu mikilvæga í ljósi friðhelgi einkalífsins, enda er hún til þess fallin að koma í veg fyrir óþarfa söfnun persónuupplýsinga. Þegar litið er til þessarar reglu, sem og annarra fyrirvara ákvæðisins, s.s. um að fyrirmæli um varðveislu skuli ekki ná til annarra gagna en nauðsynleg eru og að varðveislutími skuli vera svo skammur sem unnt er, gerir Persónuvernd ekki athugasemdir við þessi ákvæði.

Í öðru lagi birtast þau ákvæði frumvarpsins, sem einna helst varða vinnslu persónuupplýsinga, í 6. gr. þess. Er þar lagt til að við 47. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti bætist tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

„Þeim sem rekur fjarskiptaþjónustu eða fjarskiptanet er skylt að verða við tilmælum lögreglu um aðstoð við rannsókn sakamáls, enda styðjist þau tilmæli við dómsúrskurð eða lagaheimild.

Starfsmenn fjarskiptafyrirtækis bera þagnarskyldu um allar aðgerðir sem gripið er til skv. 6. mgr."

Persónuvernd telur framangreint þagnarskylduákvæði vera mikilvægt. Þegar litið er til þess gerir Persónuvernd ekki athugasemdir við ákvæðið að eftirfarandi undanskildu: Fram kemur að skylt á að verða að hlíta fyrirmælum um varðveislu fjarskiptagagna sem byggjast á lagaheimild. Af tilefni þessa tekur Persónuvernd fram að hún telur mikilvægt að ekki sé skert sú grundvallarregla að íslenskum rétti að dómsúrskurð þurfi til aðgerða í þágu rannsóknar opinberra mála sem skerða friðhelgi einkalífsins.





Var efnið hjálplegt? Nei