Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um vegabréf

Umsögn til allsherjarnefndar Alþingis

12.4.2006

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um vegabréf, nr. 136/1998

Persónuvernd vísar til bréfs allsherjarnefndar, dags. 27. mars sl., þar sem óskað er umsagnar Persónuverndar um frumvarp til laga um vegabréf, 615. mál, ný gerð vegabréf, nýr útgefandi o.fl. (þskj. 900, 132. löggjafarþing).

Persónuvernd gerir engar athugasemdir við breytingar sem snúa að ábyrgð á útgáfu vegabréfa.

Hvað varðar þá nýbreytni, að taka upp rafræn lífkenni í vegabréf, er ljóst að hún er til komin vegna alþjóðlegra krafna þar að lútandi. Í ljósi þess gerir Persónuvernd ekki athugasemdir við breytingu í þá átt, en vill þó koma eftirfarandi ábendingum á framfæri:

1.

Í 2. málsl. 2. mgr. 7. gr. frumvarpsins segir „Þjóðskrá og lögreglu er heimilt að nota skilríkjaskrá til að bera kennsl á mann eða staðreyna að hann sé sá sem hann kveðst vera."

Með vísan til þeirrar meginreglu persónuréttar, að persónuupplýsingar skuli unnar í skýrum, yfirlýstum og málefnalegum tilgangi, telur Persónuvernd æskilegt að í ákvæðinu verði tilgreint í hvaða tilvikum Þjóðskrá og lögreglu verði heimilt að nota skilríkjaskrána með þessum hætti, s.s. vegna afgreiðslu vegabréfsumsókna eða landamæraeftirlits.

2.

Með hliðsjón af ályktun 27. alþjóðaráðstefnu forstjóra persónuverndarstofnana um notkun lífkenna í vegabréf, skilríki og ferðaskilríki, dags. 16. september 2005, sem og með vísan þess hvaða afleiðingar það getur haft í för með sér ef lífkenni eru tengd röngum einstaklingi, leggur Persónuvernd áherslu á að frá upphafi verði fyllsta öryggis gætt. Gildir það bæði um aðgang óviðkomandi að upplýsingum um lífkenni í skilríkjaskrá og vegabréfum, og um gæði og áreiðanleika þeirra lífkenna sem unnið verður með. Því telur Persónuvernd mikilvægt að reglur þær sem vísað er til í a-lið 9. gr. frumvarpsins verði settar hið fyrsta.

Í þessu sambandi skal einnig bent á 1. mgr. 4. gr. reglugerðar 2004/2252/EB, sem kveður á um að handhafi útgefins vegabréfs eða ferðaskilríkja eigi rétt á að sannreyna þær persónuupplýsingar sem í vegabréfinu eða ferðaskilríkjunum eru og, eftir því sem við á, óska eftir leiðréttingu eða eyðingu. Í því frumvarpi sem hér er til umsagnar er ekki kveðið á um þennan rétt.





Var efnið hjálplegt? Nei