Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu og lögum um almannatryggingar

Umsögn til heilbrigðis- og trygginganefndar Alþingis, dags. 27. nóvember 2001

27.11.2001

Vísað er til bréfs heilbr. og trygginganefndar Alþingis, dags. 22. nóvember 2001, þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til laga um heilbrigðisþjónustu og almannatryggingar, 169. mál, þskj. 170.

Persónuvernd hefur skoðað frumvarpið og ákveðið að koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum við 8. gr. þess.


Í 1. mgr. 71. gr. íslensku stjórnarskrárinnar nr. 19/1944, eins og henni var breytt með stjórnskipunarlögum nr. 97/1995, segir að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Í friðhelgi einkalífs felst m.a. réttur til að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi. Í skýringum með stjórnarskrárákvæðinu er lögð á það sérstök áhersla að raunhæft svið þar sem álitaefni kunni að vakna um hvort brotið hafi verið gegn friðhelgi einkalífs sé notkun persónuupplýsinga. Ein af forsendum þess að rétturinn til einkalífs sé ekki aðeins orðin tóm, er að ákvarðanir löggjafans virði þetta ákvæði og uppfylli þær skyldur sem þar eru lagðar á ríkið til lagasetningar.


Við því hefur löggjafinn þegar brugðist. Má þar til dæmis benda á lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og lög um réttindi sjúklinga nr. 74/1997. Í 12. gr. þeirra laga segir að starfsmaður í heilbrigðisþjónustu skuli gæta fyllstu þagmælsku um allt það sem hann kemst að í starfi sínu um heilsufar sjúklings, ástand, sjúkdómsgreiningu, horfur og meðferð ásamt öðrum persónulegum upplýsingum. Þagnarskyldan helst þó að sjúklingur andist og þó að starfmaður láti af störfum. Samkvæmt 14. gr. skal varðveita sjúkraskrá á heilbrigðisstofnun þar sem hún er færð eða hjá lækni eða öðrum heilbrigðisstarfsmanni sem hana færir á eigin starfsstofu. Þá segir í 15. gr. sömu laga að þess skuli gætt við aðgang að sjúkraskrám að þær hafa að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar og að upplýsingar í þeim eru trúnaðarmál.


Að áliti Persónuverndar er sá aðgangur sem 8. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir að Tryggingastofnun ríkisins fái að sjúkraskrám of víðtækur, og er þar ekki síst litið til þess réttar sem borgunum er þegar tryggður í framngreindum stjórnarskrár- og lagaákvæðum. Þótt ljóst sé að stemma verður stigu við ofgreiðslum og hindra að "svindlað verði á kerfinu" er að sama skapi mikilvægt að það verði gert á skynsamlegan hátt og sú þörf ekki notuð sem afsökun fyrir því að skerða einkalífsrétt manna. Sýna verður sérstaka aðgát og gæta þess að svo víðtæk réttarskerðing sem 8. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir verði ekki gerð nema fyrir liggi að ótvíræð nauðsyn sem ekki verði fullnægt með öðrum hætti.


Rétt er að benda á Tryggingastofnun ríkisins hefur nú þegar ýmis úrræði sem hún getur beitt ef grunur vaknar að um óeðlilega reikninga sé að ræða. Má þar til dæmis benda á 12. gr. læknalaga 53/1988: "Lækni er skylt að láta hinu opinbera í té vottorð um sjúklinga er hann annast þegar slíkra vottorða er krafist vegna viðskipta sjúklinga við hið opinbera." Í öðru lagi má, s.s. ef afstaða Tryggingastofnunar er sú að viðkomandi lækni sé ekki treystandi, benda á að þá má leita til þess sjúklings sem í hlut á og bera málið undir hann. T.d. mætti hugsa sér að tannlæknir Tryggingastofnunar ætti viðtal við mann sem reikningar frá tannlækni bera með sér að hafi fengið óeðlilega dýra tannviðgerð. Í þriðja lagi má benda á að Tryggingastofnun ríkisins hefur hvorki rannsóknar-, eftirlits- né lögregluhlutverk. Telji hún vafa leika á um réttmæti reikninga getur hún leitað til aðila sem slík hlutverk hafa, s.s. til Ríkisendurskoðunar, með sama hætti og gert hefur verið til þessa með ágætum árangri. Er þá mikilvægt að gætt sé hófs og ekki farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 3. tl. 7. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.


Persónuvernd leggur til að 8. gr. verði felld brott úr frumvarpinu og þau úrræði sem Tryggingastofnun hefur nú þegar verði látin duga.


Til vara er lagt til að 8. gr. verði felld brott úr frumvarpinu en 3. mgr. 15. gr. laga um réttindi sjúklinga verði breytt þannig að hún hljóði svo:
"Persónuvernd er heimilt samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga að veita aðgang að upplýsingum úr sjúkraskrám, þar með töldum lífsýnum, vegna vísindarannsókna, enda uppfylli rannsókn skilyrði vísidarannsóknar, sbr. 4. mgr. 2. gr. laga þessara. Þá getur hún heimilað Tryggingastofnun ríkisins að fá tilteknar upplýsingar úr sjúkraskrám sem hún telur vera stofnuninni nauðsynlegar vegna ákvörðunar um greiðslu bóta eða endurgreiðslur reikninga. Skal þess þá gætt að veita ekki öðrum starfsmönnum Tryggingastofnunar slíkan aðgang en læknum eða tannlæknum þegar það á við. Leyfi sem veitt eru samkvæmt þessu ákvæði má binda þeim skilyrðum sem Persónuvernd metur nauðsynleg hverju sinni."


Til þrautavara er lagt til að umræddu frumvarpsákvæði verði breytt þannig að það hljóði svo: "Þeim heilbrigðisstarfsmönnum, sem ábyrgð bera á vörslu sjúkraskráa, er skylt að veita læknum, eða eftir atvikum tannlæknum, Tryggingastofnunar ríkisins þær upplýsingar sem henni eru nauðsynlegar vegna ákvörðunar um greiðslu bóta eða endurgreiðslu reikninga, enda hafi þess verið gætt að uppfylla skilyrði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga."





Var efnið hjálplegt? Nei