Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um útlendinga (skráning á gestum gististaða)

Umsögn til allsherjarnefndar Alþingis, dags. 29. janúar 2001

29.1.2001

Hinn 25. janúar 2001, sendi Persónuvernd yður umsögn sína um breyting á lögum um eftirlit með útlendingum, 284. mál, beiðni um hæli, auk þess sem yður var greint frá því að vegna anna hefði stofnunin ekki haft færi á að skoða og fara yfir efni frumvarps til laga um útlendinga, 344. mál, heildarlög, en reynt yrði að gefa umsögn um frumvarpið eins fljótt og auðið væri.


Persónuvernd hefur nú kynnt sér umrædd drög en tekið skal fram að athugun hennar var einungis gerð út frá sjónarmiðum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífs. Tjáir stofnunin sig ekki um efni frumvarpsdraganna að öðru leyti.


Í 54. gr. umræddra frumvarpsdraga er ákvæði sem ætlað er veita dómsmálaráðherra vald til að setja reglur um að hver sá sem rekur gististað, hvers konar sem er, eða tjaldsvæði, skuli halda skrá yfir alla þá sem þar gista (íslenska og erlenda) og tilkynna lögreglu. Að mati Persónuverndar þurfa afar veigamikil rök að standa til svo víðtæks eftirlits með ferðum fólks en hvorki verður af umræddu ákvæði né greinargerð með því ráðið hver þau séu. Í sömu málsgrein er síðan ákvæði um að allir aðrir sem hýsa fólk (þ.e. aðrir en þeir sem reka gistihús og tjaldstæði) skuli veita Útlendingastofnun upplýsingar um útlendinga sem hjá þeim gista þyki ástæða til vegna öryggissjónarmiða eða sérstaks viðbúnaðar. Í greinargerð kemur fram að tilkynningaskyldan geti náð til íslenskra ríkisborgara. Til slíkrar skráningar þurfa að standa veigamikil rök en ekkert kemur fram um hver skuli meta hvenær gild ástæða sé til slíkrar tilkynningar né dæmi tekin um gildar ástæður. Virðist mega ráða að lagt sé til að hverjum manni geti orðið skylt að senda Útlendingastofnun tilkynningu í hvert sinn sem hann skýtur skjólshúsi yfir vini sína og ættingja, erlenda og íslenska. Hér er þörf gleggri afmörkunar um markmið ákvæðisins og framkvæmd með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem hér hafa verið rakin. Að minnsta kosti er þörf á að skýra mun nánar og skilgreina hvað falli undir öryggissjónarmið eða sérstakan viðbúnað.


Persónuvernd vill enn fremur ítreka orð sín í bréfi dags. 25. janúar 2001, um nauðsyn þess að löggjafinn kveði skýrt á og með ótvíræðum hætti, að hvaða marki Útlendingastofnun skuli hafa heimildir til skráningar og vinnslu persónuupplýsinga í samræmi við lög nr. 77/2000.





Var efnið hjálplegt? Nei