Umsagnir

Umsögn um skýrslu Ríkisendurskoðunar um bótasvik

19.2.2013

Af tilefni frétta um bótasvik einstaklinga, sem eigi sér stað í skjóli Persónuverndar og laga um persónuvernd, vill stofnunin árétta eftirfarandi: Athafnir stjórnvalda verða að styðjast við lög, en skort hefur skýra sérlöggjöf til að taka á framangreindu. Verði slík lög sett þurfa þau að samrýmast ákvæðum stjórnarskrár. Persónuvernd hefur bent á þetta í umsögn um skýrslu Ríkisendurskoðunar.


Reykjavík, 12. febrúar 2013

Athugasemdir við kafla í drögum að skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Tryggingastofnunar ríkisins með bótagreiðslum


Persónuvernd vísar til bréfs Ríkisendurskoðunar, dags. 29. janúar 2013, þar sem henni er veittur kostur á að tjá sig efnislega um tiltekinn kafla í drögum að skýrslunni „Eftirlit Tryggingastofnunar með bótagreiðslum“. Í kaflanum er fjallað um heimildir til miðlunar upplýsinga milli stjórnvalda og hvort þær séu nægar. Þá kemur fram að áhrif persónuverndarlaga á ríkisrekstur séu oft talin íþyngjandi og fela í sér óhagræði þar sem þau hamli upplýsingamiðlun milli stjórnvalda. Ráða má af kaflanum að ýmis stjórnvöld telji sig ekki hafa nægt svigrúm til slíkrar miðlunar.

Í tengslum við framangreint vill Persónuvernd minna á lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, þ.e. að athafnir stjórnvalda skulu eiga sér stoð í lögum. Af því leiðir m.a. að stjórnvald, sem bundið er þagnarskyldu um hagi þeirra sem þangað leita, á ekki að miðla upplýsingum um viðkomandi einstaklinga til annarra stjórnvalda umfram það sem lög heimila. Það hversu skýr slík lagaheimild þarf að vera ræðst af eðli upplýsinga hverju sinni. Í lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga er mælt fyrir um heimild til að vinna með persónuupplýsingar sé það nauðsynlegt til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila, vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna eða við beitingu opinbers valds, sbr. 3., 5. og 6. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna. Vinnsla stjórnvalda á persónuupplýsingum getur oft talist heimil samkvæmt þessum ákvæðum, þ. á m. miðlun – en þó ávallt að því gefnu að hún samrýmist hlutverki viðkomandi stjórnvalds eins og það er skilgreint í lögum og fari ekki gegn ákvæðum um þagnarskyldu. Þá er til þess að líta að þegar um ræðir viðkvæmar persónuupplýsingar, s.s. um refsiverða háttsemi eða heilsuhagi, sbr. b- og c-liði 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000, geta heimildir 8. gr. laganna ekki rennt stoðum undir vinnsluna einar og sér heldur verður að auki að vera fullnægt einhverju viðbótarskilyrða 9. gr. fyrir vinnslu slíkra upplýsinga. Þegar um ræðir miðlun milli stjórnvalda reynir þá einkum á hvort til staðar sé sérstök lagaheimild, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 9. gr.

Framangreind ákvæði laga nr. 77/2000 fela í sér áréttingu á fyrrnefndri lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins. Mikilvægt er að það sé fyrirsjáanlegt gagnvart borgurunum hvernig farið sé með upplýsingar um þá sem stjórnvöldum er trúað fyrir. Það á m.a. við um hvernig aðgangi að slíkum upplýsingum sé háttað og hvert þeim sé miðlað. Þegar um ræðir upplýsingar viðkvæms eðlis er þessi fyrirsjáanleiki sérlega brýnn og verður þá að gera kröfu um skýr lagaákvæði. Í umræddum kafla í skýrsludrögum Ríkisendurskoðunar er vikið að löggjöf í öðrum ríkjum og afstöðu hennar lýst til þess í stuttu máli hvernig breyta megi íslenskum lögum til að auka möguleika stjórnvalda á að skiptast á upplýsingum. Að svo komnu máli er ekki tekin afstaða til slíkra tillagna en minnt á að við lagasetningu verður að gæta að skýrleika, fyrirsjáanleika og meðalhófi þannig að ekki sé gengið lengra heldur en nauðsyn krefur til að ná lögmætu markmiði, sbr. þær grunnreglur sem felast í 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.





Var efnið hjálplegt? Nei