Umsagnir

Umsögn um frumvarp til nýrrar stjórnarskrár

9.1.2013

Persónuvernd hefur veitt umsögn um frumvarp til nýrrar stjórnarskrár. Í umsögn sinni fjallar Persónuvernd aðeins um ákvæði um réttinn til friðhelgi einkalífs og takmarkanir á honum. Þá vekur hún athygli á 8. gr. mannréttindaskrár Evrópusambandsins, sem hafi megi hliðsjón af.
Reykjavík, 28. desember 2012

Umsögn um frumvarp til nýrrar stjórnarskrár


Persónuvernd vísar til erindis Alþingis frá 29. nóvember 2012 þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til nýrrar stjórnarskrár (þskj. 510, 415. mál á 141. löggjafarþingi). Frumvarpið byggist á tillögudrögum Stjórnlagaráðs en Persónuvernd veitti umsögn um þau með bréfi, dags. 17. ágúst 2011.

Í 11. gr. frumvarpsins er fjallað um réttinn til friðhelgi einkalífs. Ólíkt því sem er í núgildandi stjórnarskrá og framangreindum tillögudrögum er ekki fjallað um takmarkanir á þeim rétti í réttindaákvæðinu sjálfu. Þess í stað hefur frumvarpið að geyma almennt ákvæði um hvenær takmarka mætti réttindi samkvæmt mannréttindakafla þess, þ.e. í 9. gr. Þar kemur m.a. fram að mannréttindi, sem tryggð yrðu með ákvæðum þess, mætti því aðeins skerða að það væri gert með lagaheimild í þágu almannahagsmuna eða til verndar réttindum annarra svo sem samræmdist lýðræðishefðum. Gæta skyldi meðalhófs og þess að ekki væri með takmörkuninni vegið að kjarna þeirra réttinda sem um ræddi. Persónuvernd telur ekki tilefni til athugasemda við þessa breyttu nálgun hvað varðar ákvæðið um réttinn til friðhelgi einkalífs.

Auk framangreinds vill stofnunin koma eftirfarandi á framfæri: Bæði í núgildandi stjórnarskrá og frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár er að finna ákvæði um friðhelgi einkalífs en þar kemur m.a. fram að friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu skuli tryggð. Ákvæðið kom nýtt inn með 9. gr. laga nr. 97/1995 en í athugasemdum er fylgdu frumvarpi því er varð að þeim lögum kemur fram að hugtakið friðhelgi einkalífs geti náð til vinnslu persónuupplýsinga. Í þessu sambandi vekur Persónuvernd athygli á því að í nýrri mannréttindaskrám, s.s. 8. gr. mannréttindaskrár Evrópusambandsins, hefur sjálft ákvæðið um friðhelgi einkalífs verið gert skýrara að þessu leyti. Þar er tekið fram í textanum sjálfum að friðhelgin taki einnig til vinnslu persónuupplýsinga. Er lagt til að hér verði sambærileg breyting gerð.

Að öðru leyti gerir Persónuvernd ekki athugasemdir við frumvarpið að svo komnu máli.


Var efnið hjálplegt? Nei