Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 15/2005, um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað

28.9.2010

Þann 14. september sl., veitti Persónuvernd allsherjarnefnd Alþingis umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 15/2005, um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

Allsherjarnefnd Alþingis óskaði umsagnar Persónuverndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 15/2005, um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað (þskj. 1419, 658. mál á 138. löggjafarþingi). Í frumvarpinu er lagt til að stofnuð verði sérstök kröfuskrá sem dómsmálaráðherra starfræki. Hann geti hins vegar falið sýslumanni að annast rekstur skrárinnar, sbr. 2. gr. frumvarpsins þar sem lagðar eru til breytingar á 6. gr. laganna. Fram kemur að kröfuskrána á að nota til að gefa kröfuhöfum kost á að lýsa kröfum sínum vegna opinberra skipta o.þ.h. Fyrirhugað er að jafnframt því verði auglýsingar, sem birst hafa í því skyni í Lögbirtingablaði, dagblöðum eða með öðrum sambærilegum hætti, aflagðar.

Í umsögn Persónuverndar var m.a. bent á að umrædd breyting fæli sér að komið yrði á ákveðinni tegund af ríkisvæddri vanskilavakt.

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 15/2005, um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað


Persónuvernd vísar til tölvubréfs allsherjarnefndar Alþingis frá 15. júlí 2010 þar sem óskað er umsagnar stofnunarinnar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 15/2005, um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað (þskj. 1419, 658. mál á 138. löggjafarþingi). Í frumvarpinu er lagt til að stofnuð verði sérstök kröfuskrá sem dómsmálaráðherra starfræki. Hann geti hins vegar falið sýslumanni að annast rekstur skrárinnar, sbr. 2. gr. frumvarpsins þar sem lagðar eru til breytingar á 6. gr. laganna. Fram kemur að kröfuskrána á að nota til að gefa kröfuhöfum kost á að lýsa kröfum sínum vegna opinberra skipta o.þ.h. Fyrirhugað er að jafnframt því verði auglýsingar, sem birst hafa í því skyni í Lögbirtingablaði, dagblöðum eða með öðrum sambærilegum hætti, aflagðar.

Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins, þar sem lagðar eru til breytingar á 1. gr. laganna, á umrædd skrá að hafa að geyma kennitölur allra kröfuhafa og skuldara þeirra, auk heimilisfanga og netfanga kröfuhafa. Kröfuhafar skrái sjálfir þessar upplýsingar eftir að hafa sannað persónu sína fyrir sýslumanni og fengið aðgangsnúmer. Einnig segir að kröfuhafar geti afskráð kröfur sínar. Þá segir að þegar óskað sé upplýsinga um kröfur á hendur ákveðnum aðila sé leitað í skránni að kennitölum þeirra sem telja sig eiga kröfu á hann og þeim send ósk um kröfulýsingu rafrænt á netfang eða með pósti á heimilisfang. Kröfuhafi skuli greiða sekt ef í ljós komi að skuldari sé ranglega skráður nema krafa á hann hafi verið greidd upp síðustu 40 daga. Heimilt verði að veita einstaklingi eða fyrirtæki að fá uppgefið í gegnum öruggan þriðja aðila þá sem telji sig eiga kröfu á viðkomandi.

Í athugasemdum við frumvarpið er tekið fram að kröfuskrá muni hafa að geyma lágmarksupplýsingar sem tengi saman kröfuhafa og skuldara. Engar upplýsingar verði skráðar um fjölda krafna eða upphæð. Um tilgang frumvarpsins segir m.a. í athugasemdunum að kröfuskrá komi í veg fyrir þá opinberu niðurlægingu sem margir upplifi í núverandi kerfi þegar innköllun krafna á þá sé birt.

Persónuvernd telur ljóst að verði frumvarpið að lögum verður komið á viðamikilli skrá með persónuupplýsingum um flesta sem búsettir eru hér á landi sem notuð yrði til að miðla upplýsingum um vanskil manna.

Frumvarpið var rætt á fundi stjórnar Persónuverndar í dag. Var ákveðið að gera við það eftirfarandi athugasemdir:

Af frumvarpinu leiðir að komið yrði á ákveðinni tegund af ríkisvæddri vanskilavakt. Umfang vinnslu persónuupplýsinga í því sambandi yrði mjög víðtækt, en ætla má að á hverju ári verði til milljónir krafna á Íslandi. Þó svo að ekki kæmi fram fjárhæð og tilefni krafna gætu upplýsingar í umræddri skrá verið nærgöngular. Upplýsingar um að tiltekinn lögaðili eigi kröfu á tiltekinn einstakling gætu t.d. falið í sér viðkvæmar persónuupplýsingar, t.d. um heilsuhagi, sbr. c-lið 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000, ef um ræðir kröfuhafa sem veitir heilbrigðisþjónustu. Í ljósi framangreinds er rétt er að umfang vinnslunnar, kostnaður og fyrirhöfn af gerð umræddrar skrár, mögulegt, viðkvæmt eðli upplýsinga í skránni, auk tilhneigingar til þess að taka upplýsingar síðar meir til frekari nota en upphaflega voru fyrirhuguð, séu metin andspænis því samfélagslega hagræði sem af skránni getur hlotist og þeim hagsmunum sem henni er ætlað að tryggja.

Eins og að framan er lýst er fyrirhugað að nota upplýsingar í kröfuskrá til að hafa samband við kröfuhafa vegna opinberra skipta o.þ.h. Jafnframt er fyrirhugað að afnema þær auglýsingar þar að lútandi sem nú tíðkast. Ef starfræksla kröfuskrár verður lögfest er nauðsynlegt að tekið verði skýrt fram í lögum að skráin sé starfrækt í umræddum tilgangi og að hún skuli ekki höfð til annarra nota.

Ef af umræddri lagabreytingu verður er einnig nauðsynlegt að í lögum komi afdráttarlaust fram að ekki skuli skráðar í kröfuskrá aðrar upplýsingar en kennitölur kröfuhafa og skuldara, auk heimilisfanga og netfanga kröfuhafa. Það mætti gera með upptalningu á þessum upplýsingum auk ákvæðis þar sem segir að aðrar upplýsingar skuli ekki skráðar. Þá væri rétt að sérstaklega væri tekið fram að aðgangur skuli ekki veittur að upplýsingum í kröfuskrá nema í þeim tilgangi sem tilgreindur er í ákvæðum frumvarpsins.

Í frumvarpinu kemur fram að kröfuhafi eigi að geta afmáð upplýsingar um þá sem ekki skulda honum lengur. Einnig væri rétt að tekið væri sérstaklega fram að hann skuli eyða upplýsingum þegar krafa fellur niður. Slíkt kemur raunar óbeint fram í því ákvæði sem fjallað er um í 6. tölul. hér á eftir, en ákvæði sem beinlínis mælir fyrir um þetta atriði myndi gera texta frumvarpsins skýrari.

Ekki kemur skýrt fram í frumvarpinu hvort kröfuhöfum verði skylt að skrá kröfur sínar í umrædda skrá ef taka eigi tillit til þeirra við opinber skipti, nauðasamninga, greiðsluaðlögun o.s.frv. Ef ekki verður um slíkt að ræða má ætla að skráin geti ekki þjónað tilgangi sínum og að því verði ekki til staðar skilyrði til að afnema núverandi fyrirkomulag þar sem birtar eru auglýsingar vegna opinberra skipta o.þ.h. Á hinn bóginn er ljóst að verði slík skylda lögð á kröfuhafa getur orðið um töluvert íþyngjandi skyldu að ræða fyrir þá sem hafa með höndum rekstur þar sem mikið af kröfum verður til sem e.t.v. hafa að jafnaði ekki langan líftíma. Tilfinnanlega vantar í frumvarpið mat á því um hversu umfangsmikla skráningu er að ræða og kostnað henni samfara bæði fyrir einkaaðila og hið opinbera.

Í frumvarpinu segir að greiða skuli sekt ef krafa sé ranglega skráð á tiltekinn skuldara. Ætla má að í ákveðnum tilvikum geti réttaróvissa ríkt um það hvort tiltekinn aðili eigi kröfu á annan aðila og að því geti verið lögmætir hagsmunir af því að hafa kröfu skráða þar til leyst hefur verið úr þeirri óvissu. Í ljósi þessa má ætla að í stað almenns sektarákvæðis mætti telja upp þau tilvik þar sem aðstæður eru með þeim hætti að þær réttlæti að beitt sé sektum – eða að t.d. sé gert að skilyrði sektar að krafa sé ranglega skráð af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.

Verði frumvarpið samþykkt þarf að breyta lagaákvæðum um auglýsingar vegna opinberra skipta o.þ.h. þannig að í stað þeirra sé vísað til kröfuskrár. Hér má nefna 8. gr. laga nr. 90/1989 um aðför; 2. mgr. 53. gr., 1. mgr. 55. gr., 2. mgr. 59. gr., 2. mgr. 63. gr. g, 3. mgr. 79. gr., 2. og 3. mgr. 86. gr., 2. mgr. 153. gr., 1. mgr. 159. gr., 2. mgr. 161. gr., 2. mgr. 162. gr., 2. mgr. 163. gr. og 1. mgr. 164. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.; 3. mgr. 12. gr. laga nr. 50/2009 um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði; og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Tekið skal fram að þessi upptalning er sett fram í dæmaskyni og er ekki tæmandi.

Í 59. og 60. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum og fleira, sem og í 119. og 120. gr. laga nr. 21/1991, ræðir um skrár sem nefndar eru kröfuskrár. Bent er á þetta með hliðsjón af því að heppilegt gæti verið að finna annað heiti en kröfuskrá á þá skrá sem frumvarpið lýtur að – eða finna þeim skrám sem um ræðir í framangreindum ákvæðum laga nr. 20 og 21/1991 nýtt heiti. Með því móti væri girt fyrir misskilning sem hlotist gæti af því að sama heitið væri notað yfir umræddar skrár.





Var efnið hjálplegt? Nei