Viðbót við þegar veitt leyfi Persónuverndar til embættis landlæknis og sóttvarnalæknis

Efni: Viðbót við þegar veitt leyfi Persónuverndar til embættis landlæknis og sóttvarnalæknis

Persónuvernd vísar til erindis, sem barst stofnuninni frá embætti landlæknis og sóttvarnalækni þann 19. mars 2021, varðandi bólusetningar við COVID-19. Í erindinu er óskað afstöðu Persónuverndar til þess að aflað verði upplýsinga úr vistunarskrá heilbrigðisstofnana og samskiptaskrá heilsugæslustöðva í því skyni að fylgjast með tíðni atvika sem hugsanlegt er að geti komið upp í tengslum við bólusetningarnar. Skrárnar sé fyrirhugað að samkeyra við bólusetningagrunn í þessu skyni að undangenginni samkeyrslu þeirra innbyrðis til þess að koma í veg fyrir tvítalningar.

Með leyfi, dags. 16. desember 2020 (mál nr. 2020123030), heimilaði Persónuvernd embætti landlæknis og sóttvarnalækni tilteknar samkeyrslur vegna umræddra bólusetninga, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglna nr. 811/2019 um leyfisskylda vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 2. mgr. 31. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þá hefur Persónuvernd fjallað um heimild til öflunar símanúmera vegna samkeyrslnanna í bréfi, dags. 29. desember 2020, gefið út viðbót við leyfið, dags. 2. febrúar 2021, auk þess sem gefið var út viðbótarleyfi vegna öflunar upplýsinga um hjá hvaða heilsugæslustöð einstaklingar eru skráðir sbr. bréf, dags. 19. mars 2021.

Hér með tilkynnist, með vísan til framangreinds ákvæðis í reglum nr. 811/2019, svo og m.a. 9. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2018 og 3. mgr. 12. gr. og 2. mgr. 11. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997, að heimilt er að afla upplýsinga úr vistunarskrá heilbrigðisstofnana og samskiptaskrá heilsugæslustöðva og samkeyra þær innbyrðis, sem og við bólusetningagrunn, í þeim tilgangi sem fyrr er nefndur. Gert er að skilyrði að fylgt sé öllum þeim skilmálum sem fram koma í framangreindu leyfi, dags. 16. desember 2020.

F.h. Persónuverndar,

Þórður Sveinsson                               Páll Heiðar HalldórssonVar efnið hjálplegt? Nei