Breyting á þegar veittu leyfi Persónuverndar vegna hringbólusetningar
Hinn 18. maí sl. samþykkti Persónuvernd beiðni um breytingu á þegar veittu leyfi til embættis landlæknis til vinnslu persónuupplýsinga vegna svonefndrar hringbólusetningar til að verjast COVID-19, þ.e. bólusetningar á þeim sem umgangast viðkvæma einstaklinga sem ekki geta sjálfir fengið bólusetningu eða talið er að svari henni síður en aðrir. Byggðist leyfið á þeirri forsendu að vinnsla upplýsinga, sem afla átti hjá Þjóðskrá Íslands í umræddu skyni, færi fram með tilteknum hætti, en síðar kom í ljós að tilteknar vefþjónustur hjá Þjóðskrá, sem nota átti við vinnsluna, voru ekki að fullu tilbúnar. Var því umrædd beiðni send Persónuvernd sem í kjölfarið féllst á hana eins og fyrr segir.
Embætti landlæknis
Katrínartúni 2
105 Reykjavík
Reykjavík, 18. maí 2021
Tilvísun: 2021041007/PHH
Efni: Viðbót við þegar veitt leyfi Persónuverndar til embættis landlæknis
Persónuvernd vísar til fyrri samskipta í framhaldi af erindi embættis landlæknis frá 29. apríl 2021 þar sem sótt var um leyfi til vinnslu persónuupplýsinga vegna svonefndrar hringbólusetningar til að verjast COVID-19, þ.e. bólusetninga á þeim sem umgangast einstaklinga sem ekki geta sjálfir fengið bólusetningu. Hinn 5. maí s.á. veitti Persónuvernd umbeðið leyfi, en í því fólst að fallist var á samkeyrslu heilbrigðisupplýsinga hjá embætti landlæknis við tilteknar skrár hjá Þjóðskrá Íslands. Þá var tekið fram að fylgja skyldi því verklagi sem mælt er fyrir um í leyfi Persónuverndar, dags. 16. desember 2020, til samkeyrslna skráa vegna bólusetninga við COVID-19 almennt.
Í gær, 17. maí 2021, barst Persónuvernd erindi frá embætti landlæknis þar sem því er lýst að móta þurfi sérstakt verklag vegna öflunar upplýsinga frá Þjóðskrá Íslands. Komið hafi í ljós að vefþjónustur hjá Þjóðskrá, sem fyrirhugað var að nota til uppflettinga í vensla-, forsjár- og búsetuskrám, séu ekki að fullu tilbúnar. Fyrirsjáanlegt sé að einhverjar vikur líði áður en uppflettiaðgangur að skránum fáist. Þurfi því að nálgast þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu með því að senda kennitölulista til Þjóðskrár sem svo sendi til baka lista yfir þá einstaklinga sem boða þurfi í bólusetningu. Þjóðskrá muni eingöngu fá sendar kennitölur en engar aðrar upplýsingar um einstaklingana. Eftir móttöku lista frá Þjóðskrá muni embætti landlæknis bæta við þá upplýsingum um skráningu einstaklinga á heilsugæslustöð, í samræmi við áður veitt leyfi Persónuverndar, svo að hægt verði að setja einstaklinga á bólusetningarlista í réttu heilbrigðisumdæmi.
Einnig segir í erindi embættis landlæknis að við fyrirhugaða miðlun upplýsinga til embættisins verði notast við hugbúnaðinn Signet-transfer eða öruggt gagnaskilasvæði embættisins. Jafnframt hefur verið upplýst að allar fyrirspurnir muni verða skráðar þannig að upplýsingar um þær kennitölur sem flett verði upp muni vistast hjá Þjóðskrá Íslands.
Með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglna nr. 811/2019 um leyfisskylda vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 2. mgr. 31. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, tilkynnist hér með að ekki eru gerðar athugasemdir við framangreint verklag í þágu hringbólusetningar vegna einstaklinga sem ekki geta sjálfir fengið bólusetningu við COVID-19. Jafnframt er gert að skilyrði að fylgt sé því verklagi að öðru leyti sem mælt er fyrir um í fyrrgreindu leyfi Persónuverndar, dags. 16. desember 2020, svo og viðbótum við það að því marki sem þær eiga við.
F.h. Persónuverndar,
Þórður Sveinsson Páll Heiðar Halldórsson