Fréttir

Svar við fyrirspurn Neytendasamtakanna og VR um heimildir fjárhagsupplýsingastofa

6.12.2023

Persónuvernd hefur svarað fyrirspurn Neytendasamtakanna og VR um heimildir fjárhagsupplýsingastofa samkvæmt nýrri reglugerð nr. 606/2023 um vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust. Nánar tiltekið var óskað eftir upplýsingum um það hvort ákvæði reglugerðar 606/2023 veiti fjárhagsupplýsingastofum heimild til að sækja eldri vanskilagögn en áður við útreikning á lánshæfismati.

Persónuvernd bendir á að núgildandi starfsleyfi Persónuverndar til handa Creditinfo Lánstrausts hf. var gefið út í gildistíð reglugerðar nr. 246/2001 um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust, sem nú hefur verið felld úr gildi. Í nýrri reglugerð nr. 606/2023 er ekki mælt fyrir um sérstök tímamörk við vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust með sama hætti og gert var í þeirri eldri. Hins vegar vísar Persónuvernd til þess að við túlkun á ákvæðum reglugerðarinnar verði ávallt að horfa til persónuverndarlaga og bendir á að fjárhagsupplýsingastofur eru bundnar af ákvæðum reglugerðarinnar, sem og ákvæðum persónuverndarlaga, um skyldur þeirra sem ábyrgðaraðila vinnslu persónuupplýsinga til að gæta meðal annars að réttindum einstaklinga.

Í svarbréfi Persónuverndar vísar stofnunin jafnframt til þess að hún telji það ekki falla undir starfssvið hennar að ákveða nákvæmlega hvernig mat á lánshæfi skuli gert og hvert vægi einstakra þátta skuli þar vera. Persónuvernd álítur það fremur falla í sinn hlut að huga að hinni almennu umgjörð um vinnslu persónuupplýsinga og hvort til staðar séu ferlar til að tryggja gæði og áreiðanleika við vinnsluna. Þegar um ræðir slík sérfræðileg atriði telur Persónuvernd hins vegar mikilvægt að gerð verði óháð úttekt á því hvernig gerð skýrslna um lánshæfismat getur verið sem áreiðanlegust og þannig gagnast viðskiptalífinu sem best samhliða því að réttindi einstaklinga séu virt.

Að lokum er á það bent í svarbréfi Persónuverndar að stofnunin vinnur að nýju starfsleyfi þar sem útfærðar verða þær skyldur sem lagðar eru á Creditinfo Lánstraust hf. með nýrri reglugerð, sem tók gildi 1. september 2023.

Svar Persónuverndar til Neytendasamtakanna og VR.



Var efnið hjálplegt? Nei