Fréttir

Ábending frá Persónuvernd vegna misskilnings í skólasamfélaginu um gildissvið nýrra persónuverndarlaga

24.10.2018

Að gefnu tilefni vill Persónuvernd vekja athygli á því að stofnuninni hefur borist fjöldi ábendinga, bæði frá foreldrum barna og starfsmönnum skóla og leikskóla, um breytta starfshætti vegna nýrra persónuverndarlaga. Svo virðist sem misskilnings gæti víða í skólasamfélaginu um til hvaða aðgerða þurfi að grípa til þess að skólastarf samrýmist nýjum persónuverndarlögum. Persónuvernd hefur af því tilefni sent ábendingu til persónuverndarfulltrúa sveitarfélaga, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Heimilis og skóla og annarra hagsmunaaðila.

Persónuvernd bendir á að gera þarf skýran greinarmun á því hvort um sé að ræða breytingar sem eru tilkomnar vegna persónuverndarlaga og falla undir gildissvið þeirra eða hvort um sé að ræða breytt verklag af öðrum ástæðum sem ekki varða persónuverndarlögin.

Ábendingar Persónuverndar varða meðal annars breytta aðgangsstýringu að skólum, trúnaðaryfirlýsingar, myndatökur og afhendingu á nafnalistum. Vill Persónuvernd því koma eftirfarandi atriðum á framfæri:

Sú framkvæmd skólanna að taka upp aðgangsstýringu að skólum, þar sem foreldrum er meinaður aðgangur inn í skólastofur, á sér ekki stoð í persónuverndarlögum. Bendir stofnunin á að það geti hins vegar talist eðlilegt að skólar, líkt og aðrar stofnanir, setji sér ákveðnar verklagsreglur og viðhafi aðgangsstýringar þar sem það á við, með öryggissjónarmið að leiðarljósi.

Krafa skólanna um að foreldrar og forráðamenn undirriti trúnaðaryfirlýsingu um að allt sem þeir verði vitni að innan veggja skólanna sé trúnaðarmál á sér heldur enga stoð í persónuverndarlögum. Persónuvernd telur það vart standast landslög að skólar geti, sem opinberar stofnanir, krafist þess að einstaklingar, svo sem foreldrar og forráðamenn barna sem eru gestkomandi í skólum, afsali sér rétti til að ræða þau mál sem tengjast skólastarfinu sín í milli eða við aðra, þar á meðal með því að leita til viðeigandi stofnana telji þeir þörf á því vegna mála eða atburða sem þeir verða vitni að. Þá verður ekki séð að skólar geti haft eftirlit með því að slíkum trúnaðaryfirlýsingum sé framfylgt.

Hvað myndatökur og notkun samfélagsmiðla varðar er ítrekuð nauðsyn þess að fá samþykki foreldris/forráðamanns fyrir myndatöku og/eða miðlun ljósmynda af börnum. Réttur barna til friðhelgi einkalífs er tryggður í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, stjórnarskrá og persónuverndarlögum og því mjög mikilvægt að foreldrar/forráðamenn, starfsmenn skóla og aðrir sem koma að starfi með börnum séu meðvitaðir um réttindi barna til persónuverndar og gæti meðalhófs þegar kemur að myndatökum og myndbirtingum. Börn geta þurft að samþykkja að rætt sé um þau á samfélagsmiðlum eða að birtar séu af þeim myndir opinberlega, að teknu tilliti til aldurs þeirra og þroska. Þau eiga rétt á að hafa skoðun á umfjöllun um þau eða birtingu mynda af þeim á Netinu og taka þarf tillit til skoðana þeirra, jafnvel þó að þau séu ung. Almennt verður hins vegar ekki gerð athugasemd við að birtar séu myndir af opnum viðburðum á vegum skóla og félaga sem ekki sýna neinar aðstæður viðkvæms eðlis. Það sama getur átt við um bekkjarmyndir árganga. Það er hlutverk hvers skóla að meta hvað teljist til opinna viðburða á hans vegum, en það mat getur þó sætt endurskoðun Persónuverndar berist henni kvörtun frá einstaklingi vegna myndbirtingar.

Varðandi afhendingu nemenda- og/eða foreldralista til foreldrafélaga bendir Persónuvernd á að foreldrafélög geta haft lögmæta hagsmuni af því að fá afhentar tilteknar persónuupplýsingar til þess að rækja lögbundið hlutverk sitt og hvatt foreldra til þátttöku í skólastarfinu með eflingu samstarfs heimilis og skóla. Því telur Persónuvernd að miðlun upplýsinga til foreldrafélaga, í þeim tilgangi að tryggja að þau geti rækt lögbundið hlutverk sitt, fari ekki í bága við persónuverndarlög, sé gætt meðalhófs og ekki afhentar ítarlegri upplýsingar en nauðsynlegar eru.

Þá telur stofnunin að afhending bekkjarlista til foreldra geti talist eðlilegur hluti af starfsemi skóla, sé gætt meðalhófs og ekki afhentar ítarlegri upplýsingar en nauðsynlegar eru. Þá þarf jafnframt að gæta þess að einstaklingar geti nýtt andmælarétt sinn og óskað eftir að láta fjarlægja upplýsingar um sig af listanum, hvort sem er í heild eða að hluta. Sem viðmið mætti telja að nægjanlegt væri að nafn barns, nöfn foreldra, heimilisfang, símanúmer, netfang og jafnvel afmælisdagur barnsins kæmu fram á tilteknum lista. Eðlilegt er að takmarka slíka lista við tiltekinn bekk eða árgang.

Á leikskólum er oft og tíðum spjald við fatahólf hvers barns merkt með nafni barnsins og mynd af því og í sumum tilfellum einnig með nöfnum foreldra. Í einhverjum tilvikum hafa leikskólar þegar tekið niður slíkar upplýsingar eða boðað að slíkt verði gert. Persónuvernd telur að upplýsingar um nöfn barna og foreldra á fatahólfum leikskóla geti talist eðlilegur hluti af starfsemi leikskóla, sé gætt meðalhófs og ekki birtar ítarlegri upplýsingar en þörf þykir á.

Persónuvernd áréttar að hér er um að ræða grundvallarréttindi barna og ítrekar stofnunin mikilvægi þess að viðfangsefnið sé nálgast með það í huga að ástæður þess að ríkari kröfur eru gerðar til vinnslu persónuupplýsinga barna eru fyrst og fremst þær að tryggja þarf réttindi þeirra - fremur en að áherslan sé á skyldur ábyrgðaraðila í þessum efnum.

Réttur barna til friðhelgi einkalífs er tryggður í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, stjórnarskránni og persónuverndarlögum og því er mjög mikilvægt að foreldrar, starfsmenn skóla og aðrir sem koma að starfi með börnum séu meðvitaðir um réttindi barna til persónuverndar.

Ítarefni: Ábending Persónuverndar til hagsmunaaðila vegna misskilnings í skólasamfélaginu um gildissvið nýrra persónuverndarlaga.



Var efnið hjálplegt? Nei