Úrlausnir

Upplýsingar um greiðsluaðlögun við gerð lánshæfis-/greiðslumats

9.6.2015

Persónuvernd hefur úrskurðað að Creditinfo-Lánstrausti sé heimilt að nota upplýsingar, yngri en fjögurra ára, um greiðsluaðlögun einstaklinga, við gerð lánshæfis- og/eða greiðslumats, enda hafi einstaklingurinn veitt samþykki fyrir gerð slíks mats hjá lánveitanda.

Úrskurður

 

Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 29. maí 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2014/1524:

I.

Málavextir og bréfaskipti

1.

Tildrög máls

Þann 3. nóvember 2014 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir nefndur kvartandi), vegna vinnslu upplýsinga um hann við gerð greiðslu- og lánshæfismats hjá Creditinfo Lánstrausti hf. (hér eftir Creditinfo). Í kvörtuninni segir m.a. að kvartandi hafði gert upp sín skuldamál hjá umboðsmanni skuldara þann [X]. Var hann þá tekinn af vanskilaskrá Creditinfo. Hins vegar hafi upplýsingar verið varðveittar hjá Creditinfo um skuldir kvartanda eftir að hann fór í greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara og þær upplýsingar síðan notaðar við gerð greiðslumats og lánshæfismats um kvartanda hjá Creditinfo, á grundvelli laga nr. 33/2013 um neytendalán. Með öðrum orðum telji kvartandi að ekki sé unnt að varðveita og nota umræddar upplýsingar um vanskil hans þar sem hann gerði upp sín skuldamál hjá umboðsmanni skuldara fyrir gildistöku laga nr. 33/2013 um neytendalán.

2.

Bréfaskipti

Með bréfi, dags. 20. nóvember 2014, var Creditinfo boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Svarbréf Creditinfo, dags. 4. desember 2014, barst Persónuvernd sama dag.

Í bréfinu staðfestir Creditinfo það sem kom fram í kvörtuninni,  nánar tiltekið að félaginu bárust upplýsingar um staðfestan samning um greiðsluaðlögun og því hafi upplýsingar á vanskilaskrá kvartanda verið afskráðar í samræmi við efni samningsins. Hið sama sé gert þegar upplýsingar um uppgjör mála liggja fyrir, viðeigandi færslur á vanskilaskrá eru afskráðar og þar með ekki lengur sýnilegar viðskiptavinum Creditinfo. Í báðum tilvikum verða hins vegar til upplýsingar um viðskiptasögu hins skráða sem hægt er að nota í tölfræðilegum tilgangi líkt og gert er í lánshæfismati félagsins.

Einnig segir að viðskiptavinir Creditinfo hafi einungis heimild til að nota lánshæfismat félagsins ef hinn skráði hefur veitt samþykki sitt fyrir slíkri vinnslu. Creditinfo sendi hinum skráða tilkynningu um vinnslu lánshæfismatsins þar sem fram komi upplýsingar um þann aðila sem sótti matið og hvenær það var sótt. Breytur (upplýsingar) sem ráði niðurstöðu lánshæfismats séu ekki birtar þeim sem sækir lánshæfismatið á grundvelli upplýsts samþykkis, en hinn skráði hafi hins vegar rétt og heimild til að fá upplýsingar um þá þætti sem ráða mestu um niðurstöðu matsins.

Lánshæfismat Creditinfo sé tölfræðilegt spálíkan líkt og lánshæfismatslíkön víða um heim. Fullnægi lánshæfismat Creditinfo skilyrðum laga nr. 33/2013 um neytendalán enda byggir það á breytum sem eru tölfræðilega marktækar og niðurstaða matsins því áreiðanleg. Lánshæfismatið sé hins vegar einungis spá sem sé þó ekki óskeikul fremur en aðrar spár um atburði framtíðar.

Þá segir í bréfinu að samkvæmt lögum nr. 33/2013 um neytendalán séu lagðar skyldur á lánveitendur sem m.a. hafa það að markmiði að koma í veg fyrir lánveitingar til einstaklinga sem líklegir eru til að lenda í vanskilum -  svo kallaðar óábyrgar lánveitingar. Í því felist að lánveitendum beri að viðhafa ábyrga útlánastefnu og nýta áreiðanlegar upplýsingar til að fyrirbyggja yfirskuldsetningu einstaklinga en yfirskuldsetning endurspeglast í vanskilum og afskriftum krafna. Framangreind sjónarmið endurspeglist í 10. gr. laganna, en þar sé tiltekin sú meginregla að lánveitanda sé óheimilt að veita lán ef lánshæfis- og/eða greiðslumat benda til þess að lántaki hafi ekki fjárhagslega burði til að standa í skilum með lán. Í greinargerð með ákvæði 10. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 33/2013 er sérstaklega vikið að lánshæfismati, en þar er tiltekið að lánshæfismat geti m.a. byggt á skilvísi og greiðslusögu.

Bendir Creditinfo á að tölfræðileg spá um atburði í framtíðinni verði að byggja á sögulegum upplýsingum, s.s. skilvísi og greiðslusögu. Lánshæfismat sé að þessu leyti ekki frábrugðið öðrum spám þar sem lagt sé út af atburðum fortíðarinnar og tölfræðileg fylgni þeirra við fyrirfram skilgreinda útkomu greind. Alls staðar í heiminum þar sem lánveitendur nota lánshæfismat séu sögulegar upplýsingar nýttar í þeim tilgangi að auka áreiðanleika slíks mats.

Að auki segir eftirfarandi í bréfinu um gerð lánshæfismats um kvartanda:

„Creditinfo getur ekki fallist á að það með málshefjanda að upplýsingar um greiðslusögu í fortíðinni eigi ekki að hafa áhrif á lánshæfismat enda væri þá grundvellinum kippt undan gagnsemi lánshæfismats. Vissulega gætu einhverjir tekið því fagnandi að sleppa sögulegum upplýsingum sem hefðu neikvæð áhrif á lánshæfismat, en niðurstaða slíks mats gæfi ragna mynd af líkum á vanskilum og ofmæti lánshæfi, sem aftur væri ávísun á yfirskuldsetningu. Slíkt mat myndi augljóslega ekki fullnægja ákvæðum i. liðar 5. gr. laga nr. 33/2013 og færi þvert gegn ummælum 10. gr. lagafrumvarpsins þar sem tiltekið er að lánshæfismat geti m.a. byggt á skilvísi og greiðslusögu. [...]  

Creditinfo telur jafnframt að lögvarðir hagsmunir lánveitanda, sbr. 7. tl. 8. gr. laga nr. 77/2000 vegi hér þyngra en grundvallarréttindi og frelsi hins skráða. Þannig er áðurnefndri löggjöf ætlað að vernda hagsmuni neytenda á þann hátt að þeir skuldsetji sig ekki umfram greiðslugetu. Lánshæfismat Creditinfo styður slík markmið, en lánshæfismat sem augljóslega ofmæti lánshæfi einstaklings væri skaðlegt hagsmunum lántaka og lánveitanda og gengi þvert gegn markmiðum laga nr. 33/2013. Hér skal áréttað að tilgangur neytendalánslaganna er að vernda hagsmuni neytenda sem m.a. felst í því að fyrirbyggja yfirskuldsetningu.

Hér má einnig vísa til 2. tl. 8. gr. laga nr. 77/2000 sem heimilar lánveitanda að nýta persónuupplýsingar til að vernda hagsmuni sína í tengslum við gerð lánasamnings.

Félagið áréttar að umrædd vinnsla grundvallaðist á upplýstu samþykki hins skráða. [...] Þá áréttar félagið að lánshæfismat staðfestir að hlutaðeigandi sé ekki í alvarlegum vanskilum heldur felur það í sér útreikning á líkindum þess að slíkt gerist. Það er síðan lánveitanda að meta hvort líkur á vanskilum séu með þeim hætti að óábyrgt og óheimilt væri að veita lán, en eðli máls samkvæmt horfa lánveitendur ekki einungis til lánshæfismats Creditinfo þegar slíkt er metið.“

Loks bendir félagið á að umræddar upplýsingar um greiðsluaðlögun kvartanda hafa birst í Lögbirtingarblaði og séu því öllum aðgengilegar. Hafi lánveitendur heimild til að safna slíkum upplýsingum og nýta í tengslum við útlánaákvarðanir, sbr. úrskurð Persónuverndar í máli nr. 2011/817.

Með bréfi, dags. 16. desember 2014, sem var ítrekað með bréfi, dags. 5. febrúar 2014, var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomnar skýringar Creditinfo til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Svar kvartanda barst Persónuvernd símleiðis þann 16. febrúar 2015.  Þar sagði kvartandi að honum fyndist ekki hægt að láta nýju lögin gilda afturvirkt.  

Með símtali þann 13. apríl 2015 óskaði Persónuvernd eftir frekari upplýsingum frá Creditinfo. Var þess í fyrsta lagi óskað að fram kæmi hvort greiðslumat og/eða lánshæfismat hefði verið framkvæmt um kvartanda. Staðfesti starfsmaður Creditinfo að bæði mötin hefðu verið framkvæmd um kvartanda. Í öðru lagi var óskað eftir upplýsingum um hvort Creditinfo hefði afrit af samþykki kvartanda fyrir framkvæmd framangreindra mata.

Með tölvupóstum mótteknum dagana 15. og 17. apríl 2015 frá Creditinfo bárust Persónuvernd frekari upplýsingar um þau svör sem félaginu hefðu borist frá lánveitendum varðandi samþykki kvartanda fyrir framkvæmd lánshæfis- og/eða greiðslumats. Bárust stofnuninni m.a. afrit af undirrituðum samþykkisyfirlýsingum kvartanda hjá Íslandsbanka og MP Banka. Í þeim segir m.a. að með undirritun skjalsins veiti viðkomandi bankanum umboð til þess að sækja upplýsingar um áhættumat (lánshæfismat) hans til Creditinfo.

Með tölvupósti þann 14. apríl 2015 óskaði Pesónuvernd jafnframt eftir upplýsingum frá Creditinfo um hvort upplýsingar um vanskil kvartanda, sem voru teknar af vanskilaskrá Creditinfo að loknu greiðsluaðlögunarferli kvartanda hjá umboðsmanni skuldara þann [XX], hefðu verið notaðar við gerð greiðslu- og lánshæfismats um kvartanda eftir [XX].

Með tölvupósti, mótteknum sama dag, veitti Creditinfo eftirfarandi skýringar um framangreint:

„Varðandi lánshæfismatið:

[...] Færslur sem hafa verið afskráðar á [A] eru sumar yngri en 4 ára og því hafa þær áhrif á lánshæfismatið hans, og skilningur Persónuverndar á því efni hér með staðfestur. Um leið er mikilvægt að koma á framfæri, að það kemur ekki fram hjá lánveitendum að lánshæfismat ([A] sem annarra) sé með þessum hætti eða hinum vegna sögulegra vanskila. Lánveitendur sjá m.ö.o. ekki hvaða tilteknu breytur eru lagðar til grundvallar lánshæfismati hjá tilteknum aðilum. Þeir sjá bara niðurstöðu á borð við A2, C3, E1, o.s.frv.

Varðandi greiðslumat:

[...] Að því leyti sem greiðslumat lítur til lánshæfismats [A], þá hafa söguleg vanskil áhrif á greiðslumat [A], þó án þess að lánveitandi átti sig á því með nokkrum hætti að einmitt sú breyta hefur áhrif á lánshæfismat hans. Færslur sem voru afskráðar á [A] hafa þó ekki áhrif á skuldastöðuyfirlit hans og kemur hvergi fram í því yfirliti að þessi eða hin krafan hafi á sínum tíma verið á vanskilaskrá. En þar eð greiðslumat lánveitenda nær til fleiri þátta en eingöngu skuldastöðuyfirlits og lánshæfismats er ekki útilokað að lánveitandi – sér í lagi lánveitandi hefur vitneskju um að hafa sjálfur sent mál til skráningar á vanskilaskrá lánsumsækjanda – taki tillit til þeirra upplýsinga í greiðslumati sínu á lánsumsækjanda.“

Með bréfi, dags. 17. apríl 2015, var kvartanda upplýst um framangreind samskipti og honum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við framkomnar skýringar Creditinfo. Var svarfrestur veittur til 4. maí 2015, en engin svör bárust frá kvartanda.

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Gildissvið laga nr. 77/2000

Lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga, sem og um handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Með hugtakinu „persónuupplýsingar“ er átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Með hugtakinu „vinnsla“ er átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000.

Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 77/2000 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna er þar átt við þann sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Eins og hér háttar til telst Creditinfo Lánstraust hf. vera ábyrgaraðili að umræddri vinnslu.

Af framangreindu er ljóst að vinnsla persónuupplýsinga um vanskil kvartanda við gerð lánshæfis- eða greiðslumats fellur undir gildissvið laga nr. 77/2000.

2.

Lögmæti vinnslu

2.1.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 246/2001, sbr. 45. gr. laga nr. 77/2000, sbr. einnig 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 712/2008 um tilkynningarskylda og leyfisskylda vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 33. gr. laganna, er söfnun og skráning upplýsinga um fjárhagsmálefni einstaklinga, í því skyni að miðla þeim til annarra, óheimil án starfsleyfis Persónuverndar.

Hefur Creditinfo haft með höndum vinnslu persónuupplýsinga á grundvelli slíkra starfsleyfa Persónuverndar. Starfar félagið nú á grundvelli starfsleyfis, dags. 29. desember 2014 (mál nr. 2014/1640). Í 2.1. gr. leyfisins er talið upp hvaða upplýsingar handhafi slíks leyfis, þ.e. svonefnd fjárhagsupplýsingastofa, megi vinna með, en sú upptalning byggist á 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 246/2001 þar sem segir að fjárhagsupplýsingastofu sé einungis heimilt að vinna með upplýsingar sem eðli sínu samkvæmt hafa afgerandi þýðingu við mat á fjárhag og lánstrausti hins skráða. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins er fjárhagsupplýsingastofu heimilt að vinna með upplýsingar um nafn manns eða lögaðila, heimilisfang, kennitölu, félagsform, stöðu og atvinnu eða aðrar upplýsingar sem hægt er að fá úr opinberum skrám.

Þá segir einnig í 2.1. gr. starfsleyfisins að heimil sé vinnsla upplýsinga sem hafa verið löglega birtar í opinberum auglýsingum, þó ekki um greiðsluaðlögun þegar greiðsluaðlögunartímabili er lokið. Ef upplýsingar, sem mæla gegn lánshæfi hins skráða, eru orðnar fjögurra ára gamlar, má ekki miðla þeim. Að öðru leyti er vísað til ákvæðis 3. gr. reglugerðar nr. 246/2001.

2.2.

Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að samrýmast einhverri af kröfum 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, eins og einnig er áréttað í 2.1. gr. starfsleyfis Creditinfo. Litið hefur verið svo á að vinnsla upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust geti m.a. átt sér stoð í 1. tölul. 1. mgr. 8. gr., þ.e. á þeim grundvelli að hinn skráði hafi ótvírætt samþykkt vinnsluna, eða 7. tölul. 1. mgr. 8. gr., þ.e. á þeim grundvelli að vinnsla sé nauðsynleg í þágu lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra.

Að auki verður öll vinnsla persónuupplýsinga að fullnægja grunnkröfum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um gæði gagna og vinnslu. Þar er mælt fyrir um að persónuupplýsingar skuli unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga (1. tölul.); að þær skuli fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.); að þær skuli vera nægilegar og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.); að þær skuli vera áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum, en persónuupplýsingar, sem séu óáreiðanlegar eða ófullkomnar, miðað við tilgang vinnslu þeirra, skuli afmá eða leiðrétta (4. tölul.); og að þær skuli varðveittar í því formi að ekki sé unnt að bera kennsl á hina skráðu lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslu (5. tölul.).

2.3.

Um framkvæmd lánshæfis- og greiðslumata er fjallað í lögum nr. 33/2013 um neytendalán. Samkvæmt d-lið 5. gr. laganna er hugtakið greiðlumat skilgreint sem útreikningur á greiðslugetu lántaka miðað við eignir, skuldir, gjöld og tekjur, sem m.a. byggjast á opinberum neysluviðmiðum. Þá er hugtakið lánshæfismat skilgreint sem mat lánveitanda á lánshæfi lántaka byggt á upplýsingum sem eru til þess fallnar að veita áreiðanlegar vísbendingar um líkindi þess hvort lántaki geti efnt lánssamning, sbr. i-lið sama ákvæðis. Þar segir einnig að lánshæfismat skuli byggt á viðskiptasögu aðila á milli og/eða upplýsingum úr gagnagrunnum um fjárhagsmálefni og lánstraust. Þá feli lánshæfismat ekki í sér greiðslumat nema slíkt sé áskilið sérstaklega. Eins og segir í frumvarpi því er varð að lögum nr. 33/2013, nánar tiltekið um ákvæði 10. gr., er með lánshæfismati leitast við að staðreyna greiðsluviljann en greiðslugetu með greiðslumati.

Þá er í ákvæði 10. gr. sömu laga fjallað um í hvaða tilvikum beri að framkvæma lánshæfis- og/eða greiðslumat. Þá segir í 5. mgr. ákvæðisins að nánar skuli fjalla um framkvæmd slíkra mata, þ.m.t. um hvaða gagna skuli líta til, í reglugerð. Hefur slík reglugerð verið sett, nánar tiltekið reglugerð nr. 920/2013 um lánshæfis- og greiðslumat. Samkvæmt ákvæði 5. gr. þeirrar reglugerðar skal lánshæfismat byggt á viðskiptasögu milli lánveitanda og lántaka og/eða upplýsingum úr gagnagrunni um fjárhagsmálefni og lánstraust. Í þeim tilvikum þar sem engri viðskiptasögu er til að dreifa á milli lánveitanda og lántaka er lánveitanda heimilt að fengnu samþykki lántaka, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, að byggja mat sitt eingöngu á upplýsingum úr gagnagrunni þriðja aðila um fjárhagsmálefni og lánstraust. 

Samkvæmt ákvæði 6. gr. sömu reglugerðar skal lánveitandi, eftir því sem við á, afla tiltekinna upplýsinga við framkvæmd greiðslumats sem nánar eru tilgreindar í ákvæðinu. Hvergi er þar vikið sérstaklega að því að afla skuli upplýsinga um hvort viðkomandi lántaki hafi verið í greiðsluaðlögun, en þó segir í 9. tölul. að afla skuli annarra gagna sem varpað geta ljósi á fjárhagsstöðu lántaka. Þá segir einnig í 3. mgr. ákvæðisins að þeirra upplýsinga, sem lánveitandi þarf til framkvæmdar greiðslumats og hann hefur ekki þegar yfir að ráða á grundvelli viðskiptasambands við lántaka, skuli hann afla frá lántaka eða frá þriðja aðila að fengnu samþykki lántaka, sbr. 1. og 2. tölul. 8. gr. laga nr. 77/2000.

3.

Niðurstaða

Af framangreindum ákvæðum reglugerðar nr. 920/2013 leiðir að þegar Creditinfo framkvæmir lánshæfis- og/eða greiðslumat fyrir lánveitanda verður að liggja fyrir samþykki lántaka, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Í því tilviki sem hér um ræðir liggur fyrir að Creditinfo framkvæmdi bæði lánshæfis- og greiðslumat um kvartanda. Þegar af þeirri ástæðu verður að liggja fyrir samþykki frá kvartanda fyrir framkvæmd þeirra beggja. Hefur Creditinfo, með tölvupóstum mótteknum 15. og 17. apríl 2015, staðfest að slík samþykki lágu fyrir hjá lánveitendum í tilviki kvartanda. Í ljósi framangreinds verður fallist á það með Creditinfo að því hafi verið heimilt að framkvæma greiðslu- og lánshæfismat um kvartanda á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, sbr. einnig  2.1. gr. starfsleyfis Creditinfo.

Að því er varðar þær upplýsingar sem kvörtunin lýtur að, og Creditinfo notaði til að framkvæma greiðslu- og lánshæfismat, ber að líta til ákvæða áðurnefndrar reglugerðar nr. 920/2013, þ.e. 5. og 6. gr., starfsleyfis Persónuverndar sem og laga nr. 77/2000. Samkvæmt ákvæði 5. gr. reglugerðarinnar og 2.1. gr. starfsleyfisins er Creditinfo heimilt við gerð lánshæfismats að nota upplýsingar sem geta haft þýðingu við mat á fjárhag og lánstrausti hins skráða og sem hafa verið löglega birtar í opinberum auglýsingum. Af 6. gr. reglugerðarinnar og 2.1. gr. starfsleyfisins verður ráðið að við gerðgreiðslumats megi Creditinfo vinna með m.a. upplýsingar sem hafa verið birtar í opinberum auglýsingum og geta varpað ljósi á fjárhagsstöðu lántaka. Af ákvæði 3. gr. reglugerðar nr. 246/2001 um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust leiðir að Creditinfo megi notast við upplýsingar sem hægt er að fá úr opinberum skrám.

Í skýringum Creditinfo hefur m.a. komið fram að þær upplýsingar sem kvörtunin lýtur að séu hluti af greiðslusögu kvartanda, nánar tiltekið. „sögulegum vanskilum“ hans, og því skipti þær máli við gerð lánshæfismats, meðal annars m.t.t. þeirra athugasemda sem fram koma um 10. gr. í skýringum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 33/2013 um neytendalán. Þá notar Creditinfo einungis upplýsingar um afskráðar færslur á vanskilaskrá sem eru yngri en 4 ára, en upplýsingum um einstakar breytur sem notaðar voru við gerð lánshæfismatsins sé aldrei miðlað til lánveitanda. Staðfestir því félagið að það hafi notað upplýsingar um vanskil kvartanda sem hafa verið afskráðar af vanskilaskrá og eru yngri en 4 ára. Þá eigi hið sama við í þeim tilvikum þar sem greiðslumat líti til lánshæfismats kvartanda.

Með vísun til alls framangreinds telur Persónuvernd að sú notkun á upplýsingum um vanskil kvartanda sem hér um ræðir samræmist ákvæði 2.1. gr. starfsleyfis Creditinfo, enda samþykkti kvartandi framkvæmd matanna, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Þá telur Persónuvernd einnig að slík notkun á upplýsingum sé málefnaleg og sanngjörn þegar litið er til tilgangs lánshæfis- og greiðslumata og laga nr. 33/2013, sbr. 7. gr. laga nr. 77/2000.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Notkun Creditinfo Lánstrausts hf. á upplýsingum um vanskil [A]við gerð lánshæfis- og greiðslumats var í samræmi við lög nr. 77/2000 og starfsleyfi Creditinfo, dags. 29. desember 2014.



Var efnið hjálplegt? Nei