Úrlausnir

Úrskurður um miðlun gagna um hælisleitanda

2.3.2015

Persónuvernd hefur kveðið upp úrskurð í máli um kvartanir vegna miðlunar persónuupplýsinga  um málefni hælisleitandans [A] og málefni [D] frá Lögreglunni á Suðurnesjum til aðstoðarmanns innanríkisráðherra 20. nóvember 2013. Miðlað var skýrsludrögum um rannsókn sakamáls þar sem A hafði réttarstöðu grunaðs manns, en einnig var í drögunum að finna upplýsingar um [D] og fleiri einstaklinga.  Þá er í málinu fjallað um tiltekin atriði varðandi framburðarskýrslu Útlendingastofnunar yfir umræddum hælisleitanda sem miðlað var til ráðuneytisins sama dag.

Niðurstaða Persónuverndar er sú að miðlun Lögreglunnar á Suðurnesjum á skýrsludrögunum, sem og öflun ráðuneytisins á þeim, hafi ekki stuðst við viðhlítandi heimild. Þá kemur fram að skortur á skráningu umræddra samskipta hjá bæði lögreglunni og ráðuneytinu hafi farið í bága við kröfur um upplýsingaöryggi, en hið sama á við um skort á skráningu ráðuneytisins á fyrrnefndri framburðarskýrslu. Loks kemur fram að við miðlun skýrsludraganna frá Lögreglunni á Suðurnesjum, sem og við miðlun framburðarskýrslunnar frá Útlendingastofnun, hafi ekki verið gætt viðunandi öryggis, s.s. með dulkóðun eða læsingu með sterku lykilorði.
Útdráttur:

Persónuvernd hefur kveðið upp úrskurð í máli um kvartanir vegna miðlunar persónuupplýsinga  um málefni hælisleitandans A og málefni D frá Lögreglunni á Suðurnesjum til aðstoðarmanns innanríkisráðherra hinn 20. nóvember 2013. Miðlað var skýrsludrögum um rannsókn sakamáls þar sem A hafði réttarstöðu grunaðs manns, en einnig var í drögunum að finna upplýsingar um D og fleiri einstaklinga. Fyrir lá að aðstoðarmaðurinn óskaði eftir upplýsingunum í símtali við þáverandi lögreglustjóra. Leitað var skýringa frá Lögreglunni á Suðurnesjum á því hvaða heimildir hefðu staðið til umræddrar miðlunar. Var því svarað til að í ljósi yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda ráðuneytisins samkvæmt 14. gr. laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands hefði embættið talið skylt að verða við beiðni ráðuneytisins um umrædd skýrsludrög. Þá hefði lögreglan talið að mál varðandi hælisleitandann væri til meðferðar í ráðuneytinu, þ.e. kæra á ákvörðun um brottvísun.

Persónuvernd tók fram að miðlun vegna rannsóknar ráðuneytisins á kærumáli félli ekki undir yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðuneytisins. Hins vegar gæti reynt á hvort um ræddi gagnaöflun ráðuneytisins vegna meðferðar stjórnsýslumáls samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. heimildir til vinnslu persónuupplýsinga í 3., 5. og 6. tölul. 1. mgr. 8. gr. og 7. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Persónuvernd benti á að þegar aðila, sem vinnur með persónuupplýsingar, berst beiðni um slíkar upplýsingar ber honum að kanna á hvaða lagagrundvelli beiðnin er sett fram og taka afstöðu til hennar í því ljósi. Þá benti Persónuvernd á nauðsyn skráningar á samskiptum þar sem unnið er með persónuupplýsingar, m.a. til að tryggja að fullnægjandi heimildir hafi staðið til vinnslu og til að fyrirbyggja miðlun án gildrar ástæðu. Kom fram af hálfu Persónuverndar að slíkt verklag væri þáttur í að gæta upplýsingaöryggis, sbr. 11. og 12. gr. laga nr. 77/2000.

Í skýringum, sem Persónuvernd aflaði frá ráðuneytinu, kom fram að ekki var til meðferðar mál varðandi umræddan hælisleitanda þegar fyrrgreindum skýrsludrögum var miðlað til þess. Þegar af þeirri ástæðu var miðlunin ekki talin geta stuðst við fyrrnefndar vinnsluheimildir í ljósi þess að nauðsyn hafi staðið til vinnslu vegna meðferðar stjórnsýslumáls. Þá lá ekki fyrir að hún félli undir vinnsluheimildir á öðrum grundvelli, enda ekki við gögn að styðjast í þeim efnum, m.a. þar sem miðlunin var ekki skráð í málaskrá, hvorki hjá Lögreglunni á Suðurnesjum né ráðuneytinu.

Með vísan til framangreinds varð niðurstaða Persónuverndar sú að miðlun Lögreglunnar á Suðurnesjum á umræddum skýrsludrögum til ráðuneytisins hefði ekki stuðst við fullnægjandi heimild. Þá taldi stofnunin hið sama eiga við um öflun ráðuneytisins á drögunum. Skort á skráningu umræddra samskipta hjá Lögreglunni á Suðurnesjum og ráðuneytinu taldi Persónuvernd auk þess fara í bága við kröfur um upplýsingaöryggi, sbr. fyrrnefnd ákvæði laga nr. 77/2000 þar að lútandi. Þá lá fyrir að við miðlun skýrsludraganna var ekki beitt sérstökum ráðstöfunum á borð við dulkóðun eða læsingu með sterku lykilorði. Taldi Persónuvernd það einnig fara í bága við kröfur um upplýsingaöryggi.

Persónuvernd fjallaði einnig um tiltekin atriði varðandi miðlun framburðarskýrslu yfir umræddum hælisleitanda frá Útlendingastofnun til innanríkisráðuneytisins. Ekki var þar heldur beitt sérstökum ráðstöfunum til að tryggja öryggi, en auk þess var móttaka skýrslunnar ekki skráð í málaskrá ráðuneytisins. Taldi Persónuvernd framangreint einnig hafa farið í bága við kröfur um upplýsingaöryggi.

 

Úrskurð Persónuverndar í máli nr. 2014/1779, frá 25. febrúar 2015, má nálgast í heild sinni hér.



Var efnið hjálplegt? Nei