Úrlausnir

Uppfletting í afskriftalista

9.2.2015

Persónuvernd hefur úrskurðað að fjármálastofnun hafi verið óheimilt að fletta upp nafni manns í afskriftalista þegar sambýliskona hans sótti um yfirtöku á bílaláni.

Úrskurður

Á fundi stjórnar Persónuverndar hinn 2. febrúar 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2014/999:

 

I.

Málavextir og bréfaskipti

Persónuvernd hefur borist kvörtun frá [A], dags. 2. júlí 2014, yfir að Ergo – fjármögnunarþjónusta Íslandsbanka hafi flett upp nafni hans í afskriftalista Glitnis vegna umsóknar sambýliskonu hans um yfirtöku á bílaláni. Telur hann uppflettinguna hafa verið tilefnislausa, enda hafi ekki staðið til að hann tæki á sig fjárhagslegar skuldbindingar. Í kvörtuninni segir:

„Konan mín sótti um yfirtöku á bílaláni föstudaginn [...]. Umsóknin var gerð af [X] og lánafyrirtækið var Ergo.

Umsókninni er hafnað. Ég undirritaður [A] kt: [...] var víst ástæða þess að yfirtökunni á þessum lánasamningi var hafnað.

Ástæðan sem mér var tjáð í samtali við [B] hjá Ergo fjármögnunarfyrirtækinu er sú að ég sé á afskriftalista hjá Glitni. Mitt nafn kom hvergi fram á umsókninni.

Ég óskaði ekki eftir því að yfirtaka samninginn, sé því ekki ástæðu þess að minni sambýliskonu sé hafnað sökum þess að ég sé á afskriftalista hjá móðurfélagi Ergó.

Reyndar hef ég aldrei fengið eitt né neitt lánað hjá þessari kennitölu sem Glitnir er á í dag. Heldur aldrei samþykkt að skulda þeim. Því beinist mín kvörtun þess vegna að því að mér sé flett upp að tilefnislausu með öllu. Við erum skráð í sambúð. Ekki gift. Tel því með öllu óeðlilegt að mér sé flett upp.“

Með bréfi, dags. 15. júlí 2014, ítrekuðu með bréfi, dags. 11. september s.á., var Ergo – fjármögnunarþjónusta Íslandsbanka veitt færi á að tjá sig um þessa kvörtun. Íslandsbanki hf. svaraði með bréfi, dags. 24. september 2014. Þar segir:

„Íslandsbanki hf. starfar eftir ýmsum lagabálkum sem settir hafa verið af löggjafanum fyrir og eftir efnahagshrun Íslenska þjóðarbúsins á árinu 2009, sem leiddi m.a. til skiptameðferðar á forvera Íslandsbanka hf., Glitni Banka hf. og fleiri viðskiptabönkum á Íslandi og lánastofnunum. Stór hluti af viðskiptavinum þessara aðila lenti í mjög alvarlegum fjárhagsvandræðum vegna fjárhagslegra gerninga sem gerðir voru fyrir hrunið. Verulegur hluti þessara viðskiptavina voru almennir neytendur eins og þeir eru skilgreindir í núgildandi lögum um neytendalán nr. 33/2013.

Megintilgangur hinn nýju laga um neytendalán sem leystu af hólmi eldri lög um sama efni nr. 121/1991 var að sporna gegn ábyrgðarlausum lánveitingum til neytenda og auka þar með neytendavernd. Á undanförnum áratugum hafa lagst á aðila sem stunda lánveitingar og fjármagnanir í atvinnuskyni síauknar kröfur um fagleg vinnubrögð og hafa dómstólar og löggjafarvaldið aukið verulega á gildi sérfræðiábyrgðar þessara aðila til hagsbóta fyrir neytendur. Þessarar þróunar má t.d. finna stað í samkomulagi sem gert var á árinu 2002 á milli samtaka fjármálafyrirtækja, ráðuneyta og fleiri aðila um notkun sjálfskuldarábyrgða. Í samkomulaginu var gerð sú krafa að lántaki yrði lánshæfis- og greiðslumetinn og niðurstaða hvoru tveggja skyldi kynnt ábyrgðarmanni lántakans. Í núgildandi lögum um neytendalán er þeta skref tekið enn lengra en samkvæmt 10. gr. laganna skal ætíð framkvæmt lánshæfismat og að uppfylltum tilteknum skilyrðum sem greind eru í lögunum skal framkvæmt greiðslumat.

Samkvæmt ofangreindum lögum um neytendalán skal hafa að leiðarljósi við lánveitingar að tryggja að lántakinn hafi fjárhagslega getu til að endurgreiða lánið. Hjúskaparlög nr. 31/1993 VII. kafli ganga út frá því að það sé fjárfélag með hjónum og við lánveitingu er haft í huga að framfærsla aðila í hjónabandi og í sambúð sé í samræmi við neysluviðmið, skuldir og tekjur aðila. Ætla má að sömu rök og liggja að baki hjúskaparlögum um ábyrgð hjóna á framfærslu fjölskyldu sinnar gildi um fólk í óvígðri sambúð. Við mat á hæfi aðila eru lögð til grundvallar m.a. fyrri viðskipta þessara aðila við lánveitanda en ljóst er að fjárhagsleg staða annars hjóna eða sambýlisaðila hefur áhrif á getu hins til að takast á við nýjar fjárskuldbindingar.

Við lánaákvörðun er lagt mat á líkur þess að lánið fáist endurgreitt til að unnt verði að koma í veg fyrir tjón bæði fyrir lánveitandann og neytandann og aðra viðskiptavini lánveitandans, þar sem að afskriftir hafa áhrif á þau almennu kjör sem hann getur boðið viðskiptavinum sínum. Í ljósi samfélagslegrar ábyrgðar lánveitandans og þeirra faglegu krafna sem gerðar eru til hans er ekki unnt að líta fram hjá þáttum þ.m.t. eigin viðskiptasögu og þeim upplýsingum sen hann hefur yfir að búa, sem telja verður að geti falið í sér líkur á fyrirsjáanlegum greiðsluerfiðleikum þ.m.t. afskriftir á skuldbindingum gagnvart viðskiptavinum hans.“

Með bréfi, dags. 7. október 2014, var kvartanda veitt færi á að tjá sig um framangreint bréf Íslandsbanka hf. Hann svaraði með tölvubréfi hinn 24. s.m. Þar segir:

„Ég geri að sjálfsögðu athugasemdir við bréf bankans.

Fyrir það fyrsta hef ég undirritaður aldrei skuldsett mig eða átt í neinum viðskiptum við núverandi kennitölu þessa fyrirtækis. 

Í öðru lagi þá var [C] aldrei gefinn kostur á því að koma með frekari gögn í þessu máli. Henni var einfaldlega hafnað um þetta lán eingöngu á þeirri forsendu að ég væri á afskriftalista bankans. Einnig var umsóknin upp á 580.000 kr (að mig minnir og yfirtaka á láni). En greiðslumat þarf ekki að fara fram ef lán er undir 2.000.000 kr, samkvæmt núgildandi reglum.

Í þriðja lagi þá erum við eingöngu sambúðarfólk með aðskilinn fjárhag, það er ekki það sama.“

 

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Í athugasemdum við það ákvæði í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu. Af þessu öllu er ljóst að hér ræðir um meðferð persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.

Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 77/2000 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna er þar átt við þann sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Eins og hér háttar til telst Ergo – fjármögnunarþjónusta Íslandsbanka vera ábyrgðaraðili að umræddri vinnslu.

 

2.

Í 8. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga er mælt fyrir um hvenær vinna má með persónuupplýsingar. Þarf einhverri af kröfum þess ákvæðis ávallt að vera fullnægt við slíka vinnslu. Eins og hér háttar til getur einkum átt við 7. tölul. 1. mgr. 8. gr., þess efnis að vinna má með persónuupplýsingar sé það nauðsynlegt til að gæta lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra. Við mat á því hvort umrædd uppfletting í afskriftalista Glitnis falli undir það ákvæði ber að líta til þess hver sé lagaleg staða sambýlismaka hvors gagnvart öðrum. Nánar tiltekið hefur sú meginregla í íslenskum rétti hér sérstakt vægi að maður ber einn ábyrgð á sínum fjárhagslegu skuldbindingum, enda þótt hann hafi tekið upp óvígða sambúð með öðrum einstaklingi, nema sérstakur löggerningur leiði til annars. Ekkert liggur fyrir í máli þessu um að gerður hafi verið einhver slíkur löggerningur. Þá má geta þess að þær reglur um gagnkvæma framfærsluskyldu og takmarkanir á eignarréttindum sem gilda í hjúskap, sbr. m.a. VII. og IX. kafla hjúskaparlaga nr. 31/1993, gilda ekki í óvígðri sambúð.

Þegar litið er til framangreinds telur Persónuvernd 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. ekki hafa átt við um umrædda uppflettingu. Þá verður ekki séð að hún hafi fallið undir önnur ákvæði þeirrar greinar og fór hún því í bága við lög nr. 77/2000.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

 Uppfletting Ergo – fjármögnunarþjónustu Íslandsbanka á [A] í afskriftalista Glitnis, þ.e. af tilefni óskar sambýliskonu hans um yfirtöku á bílaláni, fór í bága við lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.



Var efnið hjálplegt? Nei