Viðbót við þegar veitt leyfi Persónuverndar til Landlæknisembættisins

Efni: Viðbót við þegar veitt leyfi Persónuverndar til Landlæknisembættisins

Persónuvernd vísar til erindis Landlæknisembættisins frá 29. apríl 2021 þar sem sótt er um leyfi til vinnslu persónuupplýsinga vegna svonefndrar hringbólusetningar. Kemur fram að gera eigi slíka bólusetningu til verndar einstaklingum sem ekki geta sjálfir fengið bólusetningu, þ.e. börnum og ákveðnum mjög viðkvæmum fullorðnum einstaklingum. Í þessu felist að fólk sem deili heimili með þessum einstaklingum, auk foreldra með sameiginlega forsjá sem ekki búi saman, sé bólusett óháð forgangsröð og því hvort það sé sjálft í aukinni áhættu vegna COVID-19. Þetta sé gert til að vernda einstaklinginn sem ekki geti fengið bólusetninguna sjálfur. Því er lýst að til að finna þá einstaklinga sem bólusetja eigi óháð forgangsröð í þessu skyni þurfi upplýsingar frá Þjóðskrá Íslands, þ.e. upplýsingar úr venslaskrá þar sem nær allir einstaklingar undir 21 árs aldri séu tengdir við lögforeldra sína, upplýsingar úr forsjárskrá þar sem nær öll börn undir 18 aldri séu tengd við forsjáraðila sína og upplýsingar úr skrá yfir einstaklinga og lögheimili, en þar sé verulegur fjöldi einstaklinga á öllum aldri tengdur íbúð sem viðkomandi búi í og hver íbúð tengd staðfangi. Tekið er fram í erindi Landlæknisembættisins að aðgangur að þessum skrám yrði aðeins tímabundinn, þ.e. á meðan á bólusetningum við COVID-19 standi, auk þess sem hann yrði bundinn við örfáa starfsmenn embættisins sem þegar séu bundnir trúnaði vegna starfs síns.

Framangreint felur í sér viðbót við leyfi Persónuverndar, dags. 16. desember 2020 (mál nr. 2020123030), sbr. einnig viðbætur við það leyfi. Þar eru heimilaðar samkeyrslur þar sem notast er við viðkvæmar persónuupplýsingar til að afmarka bólusetningar og er ljóst að til að unnt sé að framkvæma umrædda hringbólusetningu verður að samkeyra upplýsingar um þá einstaklinga sem henni er ætlað að vernda við fyrrnefndar skrár frá Þjóðskrá Íslands. Jafnframt er ljóst að upplýsingar um umrædda einstaklinga yrðu fengnar úr gagnagrunnum með heilbrigðisupplýsingum sem Landlæknisembættið heldur á grundvelli 8. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni og lýðheilsu. Samkvæmt þessu er um ræða samkeyrslur sem byggjast verða á leyfi frá Persónuvernd samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglna nr. 811/2019 um leyfisskylda vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 2. mgr. 31. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Með vísan til þessara ákvæða tilkynnist hér með að Landlæknisembættinu er veitt umbeðið leyfi til vinnslu persónuupplýsinga í þágu hringbólusetningar vegna einstaklinga sem ekki geta sjálfir fengið bólusetningu. Er gert að skilyrði að í einu og öllu sé fylgt því verklagi sem mælt er fyrir um í fyrrgreindu leyfi Persónuverndar, dags. 16. desember 2020, svo og viðbótum við það að því marki sem þær eiga við.

F.h. Persónuverndar,

Þórður Sveinsson                     Gyða Ragnheiður BergsdóttirVar efnið hjálplegt? Nei