Vinnsla persónuupplýsinga um einstaklinga í greiðsluaðlögun.

Með bréfi dags.26. ágúst 2009 beindi Persónuvernd fyrirspurn til Lánstrausts hf. (LT) um hvort félagið hefði safnað og miðlað upplýsingum um einstaklinga sem fengið hefðu svonefnda greiðsluaðlögun.

Svar hefur borist frá LT, dags. 1. september sl. Samkvæmt því eru engar upplýsingar birtar varðandi tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðlána samkvæmt lögum nr. 50/2009. Upplýsingar um greiðsluaðlögun til nauðasamnings á grundvelli. gjaldþrotalaga nr. 21/1991 munu hins vegar vera birtar.

Í gildandi starfsleyfi LT, varðandi upplýsingar um einstaklinga, er talið upp hvaða upplýsingum LT má safna. Að því er varðar upplýsingar úr opinberum gögnum segir í 5. tl. b-liðs 2. gr. að safna megi upplýsingum um nauðasamningsumleitanir, innkallanir og skiptalok - þ.e. upplýsingum sem birtar hafa verið í Lögbirtingablaðinu, skv. 5. mgr. 85. gr. og 2. mgr. 162. gr. laga nr. 21/1991. Í starfsleyfinu er hins vegar hvergi vikið að heimild til að birta upplýsingar um greiðsluaðlögun, hvorki samkvæmt lögum nr. 50/2009 né lögum nr. 21/1991 eins og þeim var breytt með lögum nr. 24/2009.

Með framangreindum lögum nr. 24/2009 voru gerðar breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 þar sem opnað var fyrir nýjan möguleika fyrir skuldara til að endurskipuleggja fjárhag sinn vegna greiðsluerfiðleika. Með lögunum var settur inn nýr kafli í lög um gjaldþrotaskipti sem ber heitið ,,greiðsluaðlögun". Þótt greiðsluaðlögun til nauðasamninga hafi sambærileg réttaráhrif fyrir kröfuhafa og hefðbundnar nauðasamningsumleitanir, byggja ákvæðin um þetta úrræði á öðrum sjónarmiðum. Af þeim sökum er ljóst að LT hefur ekki heimild til að safna og birta upplýsingar um greiðsluaðlögun sem fer fram á grundvelli laga nr. 21/1991 eins og þeim var breytt með lögum nr. 24/2009. Vilji LT birta slíkar upplýsingar þarf félagið að óska eftir breytingum á núgildandi starfsleyfi að því er varðar einstaklinga. Persónuvernd mun þá taka afstöðu til þess hvort unnt sé að fallast á slíka breytingu á starfsleyfi.




Var efnið hjálplegt? Nei