SMS áreitni

Persónuvernd hefur borist tölvupóstur frá yður í tengslum við hönnunarverkefni sem ætlað er að taka á áreitni með sms-sendingum. Þar koma fram eftirfarandi spurningar:

1. Hver er réttur þess sem verður fyrir áreiti?

2. Hver er réttur þess sem sendir sms-ið sem flokkað var sem áreiti?

3. Er eitthvað í þessari hugmynd sem brýtur í bága við persónuverndarlög?

Í þessu bréfi verður leitast við að svara spurningum yðar, en það athugast þó að svörin fela í sér almenna greinargerð um þau ákvæði laga og reglna sem við eiga en ekki bindandi afstöðu Persónuverndar til ágreinings sem upp kann að koma.


1. Réttur þess sem fyrir áreitni verður
Hótanir um að fremja refsiverðan verknað, sem fallnar eru til þess að vekja hjá manni ótta um líf, heilbrigði eða velferð sína eða annarra, falla undir 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Ef um er að ræða kynferðislegt áreitni getur slíkt hugsanlega fallið undir 209. gr. almennra hegningarlaga og varðar þá fangelsi allt að fjórum árum, en fangelsi allt að sex mánuðum eða sektum ef brot eru smávægileg. Þessi brot má kæra til lögreglu. Annars konar áreitni kann að falla utan ramma refsilaga og verður því að kanna hvort önnur löggjöf veiti notanda eða áskrifanda símanúmers vernd gegn áreitni sem þessu.


Í tilefni af spurningum yðar sendi Persónuvernd Póst- og fjarskiptastofnun fyrirspurn um hvort til væru sérreglur sem gilda um hugmynd yðar. Í svarbréfi Póst- og fjarskiptastofnunar segir eftirfarandi:

,,Engar stjórnsýslureglur eða reglugerðir á sviði fjarskiptaréttar fjalla um umrætt málefni, en nokkur ákvæði laga um fjarskipti nr. 81/2003 gætu komið til skoðunar í þessu sambandi.


Í fjarskiptalögum er ekki fjallað um áreitni, að undanskyldu áreitni vegna beinnar markaðssetningar sem fjallað er um í 46. gr., þar sem bannað er að nota tilteknar fjarskiptaaðferðir til beinnar markaðssóknar án samþykkis viðtakanda.


Ekki er að finna reglur um lokun fyrir sendingar í símanúmer ákveðins viðtakanda, en ætla má að það sé heimilt að bjóða viðtakanda þjónustu. Hins vegar er tæpast heimilt að loka alfarið fyrir þjónustu við þann sem sendi skilaboðin á grundvelli einhliða óskar viðtakandans.


Samkvæmt almennum ákvæðum 1. og 2. mgr. 42. gr. er almennt ekki heimilt að geyma gögn um fjarskiptanotkun nema þau séu nauðsynleg vegna reikningagerðar. Sú breyting var gerð á 42. gr., með lögum sem samþykkt voru 11. maí sl., að fjarskiptafyrirtækjum ber að varðveita ákveðin gögn um fjarskiptanotkun í sex mánuði í þágu rannsókna opinberra mála og almannaöryggis. Slík gögn verða ekki afhent öðrum en lögreglu eða ákæruvaldi skv. dómsúrskurði. Telja verður að óheimilt sé að vinna úr slíkum gögnum nema fyrir liggi dómsúrskurður og að fjarskiptafyrirtæki sé ekki heimilt að framkvæma slíka vinnslu að beiðni viðskiptavinar."

Réttur þess notanda sem fyrir áreitni verður samkvæmt lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga er fyrst og fremst sá að ekki sé verið að vinna með upplýsingar um fjarskipti honum ætluð án þess að hann sjálfur hafi sannanlega samþykkt það, t.d. með því að leggja fram skriflega beiðni um slíkt. Þess má t.d. geta að samkvæmt b-lið 86. gr. og 87. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála þarf dómsúrskurð til að rekja símtöl við tiltekinn síma nema fyrir liggi samþykki umráðamanns og eiginlegs notanda hans. Einnig er eðlilegt að gera þá kröfu að notandanum sé veitt ákveðin lágmarksfræðsla áður en hann veitir slíkt samþykki þannig að hann geri sér fullkomlega grein fyrir því hvernig farið verður með umrædd gögn, t.d. hver fær aðgang að þeim, hvað þau verði geymd lengi o.þ.h.


2. Hver er réttur þess sem sendir sms-ið?
Réttur þess sem sendir sms-ið felst m.a. í því að ekki sé unnið með upplýsingar um fjarskipti hans, t.d. með því að óviðkomandi aðilar skoði þau eða miðli þeim, án þess að uppfyllt sé eitthvert skilyrða 1. mgr. 8. gr., og eftir atvikum eitthvert skilyrða 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000. Þau ákvæði eru svohljóðandi:

1. mgr. 8.gr.:

Vinnsla persónuupplýsinga er því aðeins heimil að einhverjir eftirfarandi þátta séu fyrir hendi:

1. hinn skráði hafi ótvírætt samþykkt vinnsluna eða veitt samþykki skv. 7. tölul. 2. gr.

2. vinnslan sé nauðsynleg til að efna samning sem hinn skráði er aðili að eða til að gera ráðstafanir að beiðni hins skráða áður en samningur er gerður;

3. vinnslan sé nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila;

4. vinnslan sé nauðsynleg til að vernda brýna hagsmuni hins skráða;

5. vinnslan sé nauðsynleg vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna;

6. vinnslan sé nauðsynleg við beitingu opinbers valds sem ábyrgðaraðili, eða þriðji maður sem upplýsingum er miðlað til, fer með;

7. vinnslan sé nauðsynleg til að ábyrgðaraðili, eða þriðji maður eða aðilar sem upplýsingum er miðlað til, geti gætt lögmætra hagsmuna nema
grundvallarréttindi og frelsi hins skráða sem vernda ber samkvæmt lögum vegi þyngra


1. mgr. 9. gr.:

Vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga er óheimil nema uppfyllt sé eitthvert af skilyrðum 1. mgr. 8. gr. og enn fremur eitthvert af eftirfarandi skilyrðum:

1. hinn skráði samþykki vinnsluna;

2. sérstök heimild standi til vinnslunnar samkvæmt öðrum lögum;

3. ábyrgðaraðila beri skylda til vinnslunnar samkvæmt samningi aðila vinnumarkaðarins;

4. vinnslan sé nauðsynleg til að verja verulega hagsmuni hins skráða eða annars aðila sem ekki er sjálfur fær um að gefa samþykki sitt skv. 1. tölul.;

5. vinnslan sé framkvæmd af samtökum sem hafa stéttarfélagsleg markmið eða af öðrum samtökum sem ekki starfa í hagnaðarskyni, svo sem menningar-, líknar-, félagsmála- eða hugsjónasamtökum, enda sé vinnslan liður í lögmætri starfsemi samtakanna og taki aðeins til félagsmanna þeirra eða einstaklinga sem samkvæmt markmiðum samtakanna eru, eða hafa verið, í reglubundnum tengslum við þau; slíkum persónuupplýsingum má þó ekki miðla áfram án samþykkis hins skráða;

6. vinnslan taki einungis til upplýsinga sem hinn skráði hefur sjálfur gert opinberar;

7. vinnslan sé nauðsynleg til að krafa verði afmörkuð, sett fram eða varin vegna dómsmáls eða annarra slíkra laganauðsynja;

8. vinnslan sé nauðsynleg vegna læknismeðferðar eða vegna venjubundinnar stjórnsýslu á sviði heilbrigðisþjónustu, enda sé hún framkvæmd af starfsmanni heilbrigðisþjónustunnar sem bundinn er þagnarskyldu;

9. vinnslan sé nauðsynleg vegna tölfræði- eða vísindarannsókna, enda sé persónuvernd tryggð með tilteknum ráðstöfunum eftir því sem við á.

Einnig þarf að gæta í hvívetna ákvæða 7. gr. laga nr. 77/2000 þar sem kveðið er á um að persónuupplýsingar skuli unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga (1. tölul.), að þær séu fengnar í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.), að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.), að þær séu áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum (4. tölul.) og ekki varðveittar á persónugreinanlegu formi lengur en þörf krefur (5. tölul.).


Auk þessa á hinn skráði rétt á vitneskju um það að fylgst sé með fjarskiptum hans, sbr. 21. gr. laga nr. 77/2000.


3. Er eitthvað í þessari hugmynd sem brýtur í bága við persónuverndarlög?
Persónuvernd úrskurðar í ágreiningsmálum um vinnslu persónuupplýsinga. Af því leiðir að stofnunin má ekki, í almennu svari eins og þessu, hafa tekið bindandi afstöðu til álitaefnis sem þessa, þar sem hún kynni að verða vanhæf við afgreiðslu ágreiningsmáls sem upp kann að koma síðar meir. Þar sem Persónuvernd hefur ekki leyst úr ágreiningi sem varðar sambærilegt álitamál verður því miður að láta þessari spurningu ósvarað. Það verðið þér sjálfar að meta út frá ákvæðum laganna og því sem fram kemur hér að ofan. Hins vegar þykir rétt að benda á niðurlag tilvitnaðs bréfs Póst- og fjarskiptastofnunar þar sem fram kemur að samkvæmt fjarskiptalögum nr. 81/2003 verði fjarskiptagögn einungis afhent lögreglu og ákæruvaldi í tengslum við rannsókn opinberra mála og að óheimilt er að vinna úr þeim nema fyrir liggi dómsúrskurður. Þetta ber að hafa í huga þegar metið hvort skilyrði 7.-9. gr. laga nr. 77/2000 eru uppfyllt.



Var efnið hjálplegt? Nei