Niðurstöður vinnuhóps um upplýsingasöfnun Bandaríkjastjórnar á Netinu

Persónuvernd og systurstofnanir hennar í öðrum Evrópuríkjum eiga með sér náið samstarf á ýmsum sviðum, einkum á vettvangi svonefnds 29. gr. starfshóps. Í kjölfar frétta af ýmsum verkefnum Bandaríkjastjórnar sem lúta að söfnun og vinnslu persónuupplýsinga af Netinu, úr fjarskiptakerfum, greiðslumiðlunarkerfum og öðrum kerfum var í júlí sl. komið á fót vinnuhópi ESB og Bandaríkjanna og var formaður 29. gr. starfshópsins meðal meðlima vinnuhópsins, sbr. http://www.personuvernd.is/efst-a-baugi/ymislegt-frettnaemt/2013/nr/1660. Hefur Persónuvernd eftir bestu getu fylgst náið með framþróun málsins á vettvangi starfshópsins.
 
Hinum sameiginlega vinnuhópi ESB og Bandaríkjanna var ætlað að afla upplýsinga um hvert sé eðli, umfang og lagagrundvöllur nánar tiltekinnar vinnslu bandarískra stjórnvalda, einkum bandarísku þjóðaröryggisstofnunarinnar, á persónuupplýsingum um almenning í ríkjum á EES, einkum upplýsingum sem aflað er hjá eða frá fjarskiptafyrirtækjum, t.d. í svonefndu PRISM verkefni þjóðaröryggisstofnunarinnar.
 
Vinnuhópurinn hefur nú lokið störfum og skilað niðurstöðum sínum. Framkvæmdastjórn ESB hefur í kjölfarið, með hliðsjón af skýrslunni, kallað eftir aðgerðum í sex liðum sem ætlað er að auka traust í samskiptum ESB og Bandaríkjanna á þessu sviði:
1. Að fyrirliggjandi drög að nýrri reglugerð ESB um persónuvernd verði samþykkt án tafar.
2. Að reglur um svonefndar „öruggar hafnir“ í Bandaríkjunum verði hertar.
3. Að persónuvernd í samstarfi lögregluyfirvalda verði efld.
4. Að upplýsingaöflun bandarískra stjórnvalda um evrópska borgara fari ekki fram beint frá þeim fyrirtækjum sem búa yfir þeim upplýsingum heldur í samræmi við ákvæði milliríkjasamninga við ESB.
5. Að sú rannsókn sem forseti Bandaríkjanna hefur boðað á starfsemi þjóðaröryggisstofnana taki einnig til upplýsingavinnslu um evrópska borgara.
6. Að Bandaríkin ættu að gerast aðilar að samningi Evrópusráðsins um vernd einstaklinga varðandi vélræna vinnslu persónuupplýsinga (ETS 108/1981).

Loks hefur framkvæmdastjórnin lýst því yfir að réttarreglur ESB um persónuvernd séu ekki meðal þess sem verði ráðstafað með þeim viðskiptasamningi ESB og Bandaríkjanna sem nú er unnið að.
 
Skýrslu vinnuhópsins, ásamt fréttatilkynningu framkvæmdastjórnar ESB og umfjöllun um ýmis önnur samskipti ESB og Bandaríkjanna um vinnslu persónuupplýsinga, má finna hér: http://ec.europa.eu/justice/newsroom/data-protection/news/131127_en.htm.


Var efnið hjálplegt? Nei