Upplýsingar um Íslendinga sem hafa ætlað að gifta sig erlendis

Persónuvernd hefur veitt innanríkisráðuneytinu álit um heimild þess að afhenda Útlendingastofnun vottorð sem það hefur gefið íslenskum ríkisborgurum sem hafa ætlað utan til að gifta sig. Í álitinu segir m.a. að að því marki sem þessi vottorð séu Útlendingastofnun nauðsynleg til að geta framfylgt lögum um dvalarleyfi samrýmist miðlunin reglum persónuverndarlaga.

Efni: Álit Persónuverndar á heimild innanríkisráðuneytisins til að veita Útlendingastofnun upplýsingar um íslenska ríkisborgara sem farið hafa utan til að gifta sig

I.
Bréfaskipti
Persónuvernd vísar til erindis innanríkisráðuneytisins frá 16. ágúst 2012 þar sem óskað er álits Persónuverndar á því að ráðuneytið afhendi upplýsingar um íslenska ríkisborgara sem farið hafa utan til að gifta sig. Í erindi ráðuneytisins segir:

„Ráðuneytinu hefur borist neðangreind beiðni frá Útlendingastofnun um aðgang að upplýsingum í ráðuneytinu. Um er að ræða upplýsingar um íslenska ríkisborgara sem fara [utan] til þess að gifta sig, en í þeim tilvikum gefur ráðuneytið yfirlýsingu um að það sé ekkert því til fyrirstöðu að viðkomandi gangi í hjónaband í viðkomandi landi. Í þeim tilvikum athugar ráðuneytið hvort viðkomandi er í hjúskap (en viðkomandi þarf að leggja fram vottorð frá Þjóðskrá um hjúskaparstöðu) og hvort viðkomandi hafi verið sviptur lögræði. Á umsóknareyðublaði kemur fram nafn einstaklings, nafn þess lands sem um ræðir og upplýsingar um þann sem viðkomandi ætlar að giftast.

Ráðuneytið óskar eftir áliti Persónuverndar um hvort ráðuneytinu sé heimilt að afhenda Útlendingastofnun umbeðnar upplýsingar.“


Framangreind beiðni Útlendingastofnunar er skýrð í erindi hennar til ráðuneytisins frá 20. júlí 2012. Þar segir m.a.:

„Við þurfum umræddar upplýsingar til að sjá hvort umsækjendur um dvalarleyfi hafi áður ætlað að ganga í hjúskap með öðrum íslenskum ríkisborgara eða hvort íslenskur ríkisborgari hafi áður ætlað að ganga í hjúskap með öðrum aðila frá [...]. Við höfum fengið nokkrar svona yfirlýsingar frá ráðuneytinu áður og sýndu þær í einhverjum tilvikum fram á að [...]. Slíkar upplýsingar skipta máli ef grunur er uppi um að hjúskapur sé til málamynda og öflun dvalarleyfis á grundvelli hjúskaparins væri því brot á útlendingalögum.

Við hyggjumst fyrst og fremst nota upplýsingarnar vegna umsókna sem eru í vinnslu hjá okkur núna og þá aðallega vegna nýrra umsókna. Komi hins vegar í ljós við skoðun gagna að einhver sem þegar hefur fengið dvalarleyfi hefur gefið rangar upplýsingar við umsókn um dvalarleyfi og þær upplýsingar hefðu getað haft áhrif við veitingu leyfis þá munum við skoða það.“


Með bréfi, dags. 20. september 2012, ítrekaði ráðuneytið framangreint erindi sitt og skýrði það jafnframt nánar. Í bréfi ráðuneytisins segir m.a.:

„Óskar Útlendingastofnun eftir upplýsingum um nafn þeirra íslensku ríkisborgara sem fengið hafa slíka yfirlýsingu hjá ráðuneytinu til að fara [utan] að gifta sig, upplýsingar um þá aðila sem viðkomandi ætluðu að giftast, þ.e. nafn og þjóðerni, auk upplýsinga um það land þar sem hjónavígsla átti að fara fram.

Útlendingastofnun telur sig þurfa umræddar upplýsingar til að sjá hvort umsækjendur um dvalarleyfi hafi áður ætlað að ganga í hjúskap með öðrum íslenskum ríkisborgara eða hvort íslenskur ríkisborgari hafi áður ætlað að ganga í hjúskap með öðrum aðila frá tilteknu landi. Að mati stofnunarinnar skipta slíkar upplýsingar máli ef grunur er uppi um að hjúskapur sé til málamynda, en öflun dvalarleyfis á grundvelli hjúskaparins væri því brot á útlendingalögum. Útlendingastofnunin hyggst fyrst og fremst nota upplýsingarnar vegna umsókna sem eru í vinnslu hjá stofnuninni núna og þá aðallega vegna nýrra umsókna. Komi hins vegar í ljós við skoðun gagna að einhver, sem þegar hefur fengið dvalarleyfi, hafi gefið rangar upplýsingar við umsókn um dvalarleyfi og þær upplýsingar hefðu getað haft áhrif við veitingu leyfis þá mun stofnunin skoða það sérstaklega.“


II.
Álit Persónuverndar
Samkvæmt lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga verður vinnsla slíkra upplýsinga ávallt að falla undir einhverja af heimildum 8. gr. laganna. Þegar um ræðir vinnslu persónuupplýsinga, sem fram fer á vegum stjórnvalda, geta einkum átt við 3., 5. og 6. tölul. 1. mgr., þess efnis að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil sé hún nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu, vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna eða við beitingu opinbers valds. Þá getur ákvæði 7. tölul. 1. mgr. átt við, þess efnis að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil sé hún nauðsynleg til að gæta lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra.

Útlendingastofnun vill a) fá upplýsingar um hvort umsækjendur um dvalarleyfi hafi áður ætlað að ganga í hjúskap með öðrum íslenskum ríkisborgara eða b) hvort íslenskur ríkisborgari hafi áður ætlað að ganga í hjúskap erlendis með erlendum aðila. Við mat á því hvort innanríkisráðuneytinu sé það heimilt þarf að líta til þess hvert hlutverk Útlendingastofnunar er að lögum.  Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. laga fjallað í lögum nr. 96/2002 um útlendinga, stofnast réttur til dvalarleyfis ekki ef rökstuddur grunur er um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis og ekki er sýnt fram á annað með óyggjandi hætti. Þá er í 40. gr. mælt fyrir um að Útlendingastofnun svipti útlending dvalarleyfi þegar um málamyndagerninga samkvæmt framangreindu ákvæði 13. gr. er að ræða, sem og m.a. þegar útlendingur hefur vísvitandi veitt rangar upplýsingar í tengslum við umsókn.

Um vinnslu persónuupplýsinga á vegum Útlendingastofnunar er fjallað í 55. gr. laga um útlendinga. Segir þar m.a. að Útlendingastofnun sé heimil vinnsla persónuupplýsinga að því marki sem hún teljist nauðsynleg við framkvæmd laganna. Að því marki sem nauðsynlegt sé til að tryggja að útlendingar dvelji og starfi löglega hér á landi sé heimilt við vinnslu persónuupplýsinga að samkeyra upplýsingar Útlendingastofnunar, Vinnumálastofnunar, lögreglu, skattyfirvalda og Þjóðskrár.

Auk framangreindra lagaákvæða ber að líta grunnkrafna 7. gr. laga nr. 77/2000, en þeim verður ávallt að vera fullnægt við vinnslu persónuupplýsinga. Þar er m.a. mælt fyrir um að þess skuli gætt við vinnslu persónuupplýsinga að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga (1. tölul.); að þær skuli fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.); og að þær skuli vera nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.).

Á grundvelli framangreindra ákvæða 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000, sem og 55. gr. laga um útlendinga, er Útlendingastofnun heimil sú vinnsla persónuupplýsinga sem henni er nauðsynleg til að framfylgja ákvæðum um bann við málamyndahjónaböndum og sviptingu dvalarleyfa á þeim grundvelli. Að því marki, sem umrædd vottorð eru stofnuninni nauðsynleg í þessu skyni, eru því ekki gerðar athugasemdir við að innanríkisráðuneytið afhendi henni vottorðin, enda samrýmist meðferð þeirra öllum kröfum 7. gr. laga nr. 77/2000.

Framangreint svar er leiðbeinandi, veitt í samræmi við 5. tölul. 3. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000, og felur ekki í sér bindandi úrlausn. Berist Persónuvernd kvörtun kann það mál að koma til úrskurðar.

Að lokum er tekið fram að svör sem þetta eru almennt birt á heimasíðu stofnunarinnar.



Var efnið hjálplegt? Nei