Skráning búðarhnupls ólögráða

Persónuvernd hefur svarað erindi Árborgar um viðbragðsáætlun vegna brota barna og ungmenna. Í áætluninni var gert ráð fyrir að búðir myndu skrá nöfn og kennitölur barna/ungmenna sem talin væru hnupla úr búðum, og um viðbrögð þeirra og framkomu. Persónuvernd taldi ekki vera heimilt að búðir gerðu skrár um þessi börn. Hins vegar gæti þeim verið lögskylt að senda tilkynningar til barnaverndarnefndar.

Efni: Fyrirætluð skráning búða á persónuupplýsingum um börn og ungmenni sem eru talin hnupla.
Almennt svar skv. 5. tölul. 3. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000.




1.
Persónuvernd vísar til erindis Árborgar, dags 28. febrúar 2012, um viðbragðsáætlun vegna brota barna og ungmenna. Hún gerir ráð fyrir að búðir muni skrá nöfn og kennitölur barna/ungmenna sem talin eru hnupla úr búðum - svo og upplýsingar um viðbrögð þeirra og framkomu. Eftir atvikum á að hafa samband við forráðamenn, barnavernd eða kæra barnið til lögreglu.

2.
Persónuvernd tekur ekki, í almennu áliti sem þessu, endanlega afstöðu til lögmætis þessa en berist henni einstakar kvartanir mun hún taka þær til efnislegrar meðferðar eftir því sem efni standa til. Við mat og umfjöllun slíkra mála ræðst lögmæti og gildi hvers tilviks af mati á aðstæðum hverju sinni.

Umrædd viðbragðsáætlun gerir ráð fyrir að öll þau tilvik, þar sem börn undir sakhæfisaldri eru grunuð um þjófnað í búðum, verði skráð. Í því sambandi verður að líta til þess að hér ræðir um börn sem njóta eiga sérstakrar verndar og ekki verða gerðar sambærilegar kröfur til þeirra og til þeirra sem orðnir fullorðnir. Hér á eftir verður farið yfir þau atriði laga nr. 77/2000, sem Persónuvernd hefur ákveðið að leiðbeina um að svo stöddu.

3.

3.1.

Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga en einnig um handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Persónuupplýsingar eru skilgreindar í 1. tölul. 2. gr. laganna sem sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi. Hugtakið vinnsla er skilgreint sem sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laganna. Þá er með skrá átt við sérhvert skipulagsbundið safn persónuupplýsinga þar sem finna má upplýsingar um einstaka menn, sbr. 3. tölul. sömu greinar. Af þessu leiðir að verði upplýsingar um börnin skráðar og varðveittar rafrænt, eða á skrá, þannig að þar megi auðveldlega finna upplýsingar um einstök börn, fellur vinnslan undir lög nr. 77/2000.

3.2.
Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 telst sá vera ábyrgðaraðili að vinnslu persónuupplýsinga sem ákveður tilgang hennar, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Sú búð, sem myndi skrá upplýsingar um meintan þjóf, myndi þá bera ábyrgð á þeirri vinnslu upplýsinga.

3.3.
Svo að ábyrgðaraðila sé heimilt að vinna með persónuupplýsingar þarf ávallt að vera fullnægt einhverju af skilyrðum 8. gr. laga nr. 77/2000. Þegar um ræðir viðkvæmar persónuupplýsingar þarf einnig að vera fullnægt einhverju af viðbótarskilyrðum 9. gr. sömu laga fyrir vinnslu slíkra upplýsinga. Samkvæmt b-lið 8. tölul. laganna teljast upplýsingar um það hvort maður hafi verið grunaður, kærður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað til viðkvæmra persónuupplýsinga.

Skráning á búðaþjófum, sem eru af barnsaldri, getur í vissum tilvikum verið heimil og samrýmst 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. og 7. tölu. 1. mgr. 9. gr. laganna. Það er þó alltaf háð því að það sé nauðsynlegt til að krafa verði afmörkuð, sett fram eða varin vegna dómsmáls eða annarra slíkra laganauðsynja. Um börn og aðra sem enn eru undir sakhæfisaldri gilda önnur sjónarmið. Í slíkum tilvikum getur verið lögskylt að senda tilkynningu til barnaverndarnefndar. Fellur það þá undir 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000, sbr. ákvæði 16. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Almennt er hins vegar ekki gert ráð fyrir því að börn séu kærð til lögreglu þótt í lögum sé gert ráð fyrir að lögregla geti fengið til meðferðar mál sem varða refsiverða háttsemi einstaklinga undir sakhæfisaldri, sbr. 1. mgr. 18. gr. barnaverndarlaga.



Var efnið hjálplegt? Nei