Upplýsingar um leiguverð og nákvæm hnit fasteigna

1.

Persónuvernd vísar til beiðni Íbúðalánasjóðs, dags. 12. apríl 2012, um leyfi fyrir afhendingu á persónuupplýsingum frá Þjóðskrá Íslands til sjóðsins. N.t.t. vill sjóðurinn fá upplýsingar um leiguverð samkvæmt þinglýstum leigusamningum þar sem fram komi fastanúmer og nákvæm hnit viðkomandi fasteigna. Segir að Þjóðskrá hafi ekki fallist á að veita svo ítarlegar persónuupplýsingar sem sjóðurinn vill fá.

 

2.

Með lögum nr.  77/2010 var Þjóðskrá Íslands falin framkvæmd laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Af erindi Íbúðalánasjóðs verður ráðið að hann vilji fá í hendur upplýsingar sem skráðar eru með vísan til þeirra laga. Um tilganginn með því segir í bréfi sjóðsins:

„Notkun þessara gagna er með með tvennum hætti. Annars vegar hefur Íbúðalánasjóður það hlutverk að stuðla að upplýsingaöflun/miðlun af húsnæðismarkaði. Íbúðalánasjóður er að undirbúa útgáfu greiningarefnis um leigumarkaðinn og Þjóðskrá Íslands hefur þegar hafið útgáfu á slíkum gögnum[…]. Hins vegar er íbúðalánasjóður einn helsti lánveitandi til leigufélaga íbúðarhúsnæðis á Íslandi auk þess sem Íbúðalánasjóður á í dag um 1.800 fasteignir og um 800 þeirra í útleigu. Til að starfrækja þessi tvö hlutverk með fullnægjandi hætti þarf Íbúðalánasjóður að eiga upplýsingar um þróun leiguverðs um allt land.“

Einnig segir í bréfi sjóðsins að ef hann fái í hendur þær upplýsingar sem að framan greinir verði mjög auðvelt að búa til sjálfvirka keyrslu til að finna póstnúmer og einnig að búa til verðupplýsingar eftir hnitastaðsetningu. Nú þurfi að vinna upplýsingar handvirk, en það auki hættuna á villum og sé til óhagræðis við að koma gögnum á vinnsluhæft form.

Með vísan til framangreinds óskar sjóðurinn eftir leyfi Persónuverndar til vinnslu umræddra upplýsinga þannig að fastanúmer eignar og óbjagað landfræðilegt hnit sé hluti af þeirri gagnaskrá sem Íbúðalánasjóður fái afhenta frá Þjóðskrá. Um hvernig ráðgert sé að nota gögnin segir:

„Íbúðalánasjóður mun aðeins nota fastanúmer til að finna póstnúmer. Hnit verða aðeins notuð til að finna sambærilegar eignir m.v. ákveðinn radíus frá tiltekinni eign sem hafa sambærilega eiginleika. Íbúðalánasjóður mun ekki tengja þetta á neinn hátt við einstaklinga eða birta neinar persónugreinanlegar upplýsingar.“

3.

Það er skilningur Persónuverndar að  Þjóðskrá Íslands sé ábyrgðaraðili þeirra persónuupplýsinga sem mál þetta varðar og Íbúðarlánasjóður vill fá. Það er hlutverk ábyrgðaraðila að ákveða tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Við ráðstöfun ber ábyrgðaraðila að ganga úr skugga um að uppfyllt séu skilyrði laga nr. 77/2000. Meðan ekki liggur fyrir að ábyrgðaraðili vilji ekki ráðstafa persónuupplýsingum með tilteknum hætti eru ekki efni til að Persónuvernd gefi honum leyfi til þess. Að svo stöddu eru því ekki skilyrði til frekari umfjöllunar af hálfu Persónuverndar um ósk sjóðsins.

Að lokum er leiðbeint um verksvið úrskurðarnefndar um upplýsingamál samkvæmt upplýsingalögum nr. 50/1996, en hún fjallar um það hvort lögmætt hafi verið að synja um aðgang að gögnum sem falla undir gildissvið laganna.



Var efnið hjálplegt? Nei