Úrlausnir

Vinnsla persónuupplýsinga einvörðungu til persónulegra nota

Mál nr. 2018/1261

11.3.2019

Kvartað var yfir myndatökum nágranna á myndavél í glugga húsnæðis hans og á síma. Í ákvörðun Persónuverndar segir að stofnunin hafi ekki talið tilefni til að nýta sér valdheimildir sínar samkvæmt persónuverndarlögum til að fá aðgang að húsnæði þess sem kvartað var yfir í því skyni að fá úr því skorið hvort hann tæki myndir af kvartanda og sambýlismanni hennar og hvert myndsvið myndavélar í glugga húsnæðis hans væri. Byggði það mat á því að hefði viðkomandi unnið einhverjar persónuupplýsingar um kvartanda og sambýlismann hennar hefði ekkert komið fram í málinu sem benti til þess að hann hefði unnið þær í öðrum tilgangi en einvörðungu til persónulegra nota. Með hliðsjón af 2. mgr. 4. gr. persónuverndarlaga voru lögin því ekki talin gilda um mögulega vinnslu persónuupplýsinga þess sem kvartað var yfir. Var málið því fellt niður.

Ákvörðun

 

Á skrifstofu Persónuverndar 1. mars 2019 var tekin eftirfarandi ákvörðun í máli nr. 2018/1261:

I.

Málsmeðferð

 

1.

Tildrög máls

Hinn 23. júlí 2018 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir nefnd kvartandi) yfir myndatökum af henni og sambýlismanni hennar af hálfu nágranna þeirra, [B]. Í kvörtuninni segir meðal annars að hann hafi myndavél í glugga sínum og að hann taki myndir af þeim á síma sinn. Þá segir að þau hafi þurft að kalla til lögreglu vegna hótana af hálfu [B].

2.

Bréfaskipti

Með bréfi, dagsettu 27. ágúst 2018, var [B] boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar. Var hann inntur eftir svörum um hvort hann hefði myndavél í glugga húsnæðis hans sem vísaði út fyrir lóð hússins og ef svo væri, hvort myndavélin tæki myndir eða myndefni viðvarandi eða reglulega með fjarstýrðum eða sjálfvirkum búnaði. Ef svo væri, var hann spurður að því hver væri tilgangur vöktunarinnar og hvað væri gert við myndefnið sem safnaðist. Loks var hann spurður að því í hvaða tilgangi hann tæki myndir af kvartanda og sambýlismanni hennar á síma sinn eða aðrar myndavélar og hvað hann gerði við myndefni af þeim sem þannig safnaðist.

Í svarbréfi lögmanns [B], dagsettu 6. september 2018, segir að kvartandi og sambýlismaður hennar búi í íbúð við hlið [B]. Sambýlismaður kvartanda eigi stóran […] jeppa á 44" dekkjum sem hann leggi á bílastæði [B] eða þannig að hann geti nánast ekki notað það. Sambýlismaður kvartanda sé einnig gjarn á að hafa kveikt á bílnum og þenja hann þannig að mikill hávaði verði af og reykjarmökkur umljúki allt hverfið. [B] hafi margoft kvartað til heilbrigðisyfirvalda og lögreglu en ekkert hafi komið út úr því.

Í svarbréfinu segir að það sé rétt að [B] sé með myndavél í glugga húsnæðis síns sem taki mynd af bílastæði hans. Myndavélin vísi ekki út fyrir lóð hússins heldur taki eingöngu mynd af bílastæði hans. Myndavélin taki ekki upp myndir, myndefni eða myndskeið, hvorki viðvarandi né reglulega eða með fjarstýrðum eða sjálfvirkum búnaði. [B] geti hins vegar séð myndefni myndavélarinnar í símanum sínum. Þá taki [B] ekki myndir af kvartanda eða sambýlismanni hennar og safni engum myndum af þeim. Einu myndirnar sem hann hafi tekið séu af fyrrgreindum bíl, þegar honum hafi verið lagt þannig að nánast ómögulegt sé fyrir [B] að komast í burtu.

Með bréfi, dagsettu 21. september 2018, var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomnar skýringar [B]. Vísað var í ákvæði persónuverndarlaga sem kveður á um að lögin gildi ekki um meðferð einstaklings á persónuupplýsingum sem einvörðungu eru ætlaðar til persónulegra nota. Var kvartandi sérstaklega spurð að því hvort hún teldi málið varða vinnslu persónuupplýsinga sem heyrði undir valdsvið Persónuverndar. Sambýlismaður kvartanda hringdi í starfsmann Persónuverndar 22. október 2018. Farið var yfir gildissvið persónuverndarlaga og honum leiðbeint um að kvartanda væri heimilt að fá úr því skorið hvort mál þetta heyrði undir gildissvið laganna og þar með valdsvið Persónuverndar. Með bréfi Persónuverndar, dagsettu 16. nóvember 2018, var enn á ný óskað eftir afstöðu kvartanda til þess hvort hún vildi fá úr því skorið hvort málið heyrði undir gildissvið persónuverndarlaga. Var í því sambandi vísað til 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, þess efnis að lögin og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 gildi ekki um meðferð einstaklings á persónuupplýsingum sem eingöngu varða einkahagi hans eða fjölskyldu hans eða eru einvörðungu ætlaðar til persónulegra nota.

Kvartandi svaraði með bréfi, dagsettu 23. nóvember 2018. Í bréfinu óskar kvartandi þess að fá úr því skorið hvort [B] sé heimilt að taka ítrekað myndir á símann sinn af henni og sambýlismanni hennar, elta þau um bílaplan þeirra og taka myndir og beina upptökuvél úr þvottahúsglugga hans að þeim. Miðað við stöðu upptökuvélarinnar telji þau ekki möguleika á því að myndsvið hennar nái eingöngu til eigna [B].

II.

Forsendur og niðurstaða

Í fyrrgreindu bréfi Persónuverndar til kvartanda, dagsettu 21. september 2018, segir ranglega að kvörtun þessa máls hafi borist í gildistíð eldri laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Hið rétta er að kvörtunin, sem dagsett er 19. júlí 2018, barst Persónuvernd 23. sama mánaðar, sem er eftir að ný lög nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, tóku gildi 15. júlí 2018.

Gildissvið laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og reglugerðar (ESB) 2016/679, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. mgr. 39. gr. laganna, nær til vinnslu persónuupplýsinga sem er sjálfvirk að hluta eða í heild og vinnslu með öðrum aðferðum en sjálfvirkum á persónuupplýsingum sem eru eða eiga að verða hluti af skrá.

Til persónuupplýsinga teljast upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling og telst einstaklingur persónugreinanlegur ef unnt er að persónugreina hann, beint eða óbeint, s.s. með tilvísun í auðkenni, eins og nafn, kennitölu, staðsetningargögn, netauðkenni eða einn eða fleiri þætti sem einkenna hann í líkamlegu, lífeðlisfræðilegu, erfðafræðilegu, andlegu, efnalegu, menningarlegu eða félagslegu tilliti, sbr. 2. tölulið 3. gr. laganna og 1. tölulið 4. gr. reglugerðarinnar.

Með vinnslu er átt við aðgerð eða röð aðgerða þar sem persónuupplýsingar eru unnar, hvort heldur vinnslan er sjálfvirk eða ekki, s.s. söfnun, skráningu, flokkun, kerfisbindingu, varðveislu, aðlögun eða breytingu, heimt, skoðun, notkun, miðlun með framsendingu, dreifingu eða aðrar aðferðir til að gera upplýsingarnar tiltækar, samtengingu eða samkeyrslu, aðgangstakmörkun, eyðingu eða eyðileggingu, sbr. 4. tölulið 3. gr. laganna og 2. tölulið 4. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna gilda lögin og reglugerðin ekki um meðferð einstaklings á persónuupplýsingum sem eingöngu varða einkahagi hans eða fjölskyldu hans eða eru einvörðungu ætlaðar til persónulegra nota.

Í máli þessu greinir aðila á um hvort annar aðila, [B], taki myndir af kvartanda og sambýlismanni hennar eða aðeins af bifreið þeirra. Þá deila þau um myndsvið myndavélar sem er í glugga í húsnæði [B], þ.e. hvort það nái eingöngu til hans eigna eða ekki. Í svarbréfi [B] segir að framangreind myndavél taki ekki upp myndir, myndefni eða myndskeið, hvorki viðvarandi né reglulega né með fjarstýrðum eða sjálfvirkum búnaði. Jafnframt segir að [B] safni engum myndum af kvartanda og sambýlismanni hennar.

Persónuvernd hefur í þessu máli ekki talið tilefni til að nýta sér þær valdheimildir, sem henni eru veittar samkvæmt 6. tölulið 1. mgr. 41. gr. laga nr. 90/2018, og fá þannig aðgang að húsnæði [B] til þess að fá úr framangreindu skorið. Byggir það mat á því að hafi [B] unnið einhverjar persónuupplýsingar um kvartanda og sambýlismann hennar, samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum laga nr. 90/2018, þá hafi ekkert komið fram í málinu sem bendi til þess að [B] hafi unnið persónuupplýsingar um þau í öðrum tilgangi en einvörðungu til persónulegra nota. Jafnframt bendir svar [B] til þess að umrædd myndavél í glugga húsnæðis hans sé ekki notuð til rafrænnar vöktunar, eins og hún er skilgreind í 9. tölulið 3. gr. laga nr. 90/2018, en samkvæmt athugasemdum við það ákvæði í frumvarpi að lögunum nær hugtakið ekki til vöktunar þegar hljóð eða mynd er aðeins flutt í hátalara eða á skjá en eru ekki varðveitt.

Að því virtu, og með hliðsjón af 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2018, verða lögin ekki talin gilda um mögulega vinnslu [B] á persónuupplýsingum um kvartanda og sambýlismann hennar. Af þeim sökum eru ekki forsendur til frekari umfjöllunar um málið af hálfu Persónuverndar og verður málið af þeirri ástæðu fellt niður. Komi fram frekari upplýsingar síðar sem benda til þess að [B] vinni persónuupplýsingar um kvartanda og sambýlismann hennar í öðrum tilgangi en eingöngu til persónulegra nota er þeim heimilt að senda inn nýja kvörtun til Persónuverndar þess efnis.



Var efnið hjálplegt? Nei