Úrlausnir

Úrskurður um rétt einstaklings til upplýsinga um uppflettingar í málaskrárkerfi ríkislögreglustjóra (LÖKE)

Mál nr. 2020010665

30.11.2020

Persónuvernd hefur úrskurðað í máli þar sem reyndi á synjun ríkislögreglustjóra á að veita einstaklingi tilteknar upplýsingar um uppflettingar á persónuupplýsingum hennar í málaskrárkerfi embættisins (LÖKE). Komst Persónuvernd að þeirri niðurstöðu að ríkislögreglustjóra hefði verið heimilt að synja kvartanda um upplýsingar um það hvaða starfsmenn flettu henni upp í málaskrárkerfinu og hvenær uppflettingarnar voru gerðar.

Úrskurður


Hinn 24. nóvember 2020 kvað Persónuvernd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2020010665 (áður 2019081546):

I.

Málsmeðferð

1.

Tildrög máls og málsmeðferð

Hinn 20. ágúst 2019 barst Persónuvernd kvörtun [A] (hér eftir nefnd kvartandi) yfir afgreiðslu ríkislögreglustjóra á beiðni hennar um upplýsingar um það hvaða starfsmenn hefðu flett upp persónuupplýsingum hennar í málaskrárkerfi lögreglu, LÖKE, varðandi tiltekin mál og hvenær uppflettingar hefðu verið gerðar. Með kvörtuninni fylgdi meðal annars afrit af beiðni kvartanda til ríkislögreglustjóra, dags. 9. júní 2019, og afrit af ákvörðun ríkislögreglustjóra, dags. 19. s.m., um að synja henni um þennan aðgang.

Með bréfi, dags. 3. september 2019, var ríkislögreglustjóra tilkynnt um kvörtunina og boðið að tjá sig um hana. Svarað var með bréfi, dags. 4. október s.á. Með bréfi, dags. 31. s.m., var svarbréf ríkislögreglustjóra kynnt kvartanda og henni boðið að koma á framfæri athugasemdum. Svarað var með bréfi, dags. 28. nóvember s.á. Með bréfi, dags. 27. mars 2020, óskaði Persónuvernd eftir frekari upplýsingum frá ríkislögreglustjóra. Svarað var með bréfi, dags. 20. apríl s.á. Með bréfi, dags. 22. s.m., var svarbréf ríkislögreglustjóra kynnt kvartanda og henni boðið að koma á framfæri athugasemdum. Svarað var með bréfi, dags. 17. júní s.á.

Við úrlausn málsins hefur verið tekið tillit til allra framangreindra gagna þótt ekki sé sérstaklega gerð grein fyrir þeim öllum í eftirfarandi úrskurði.

Meðferð málsins hefur dregist vegna verulegra anna hjá Persónuvernd.

2.

Sjónarmið kvartanda

Í kvörtun segir meðal annars að kvartandi hafi þann 9. júní 2019 sett fram beiðni hjá ríkislögreglustjóra um það hverjir hefðu flett persónuupplýsingum hennar upp í rafrænu málaskrárkerfi embættisins, svo og hvenær uppflettingar hefðu verið framkvæmdar. Þeirri beiðni hafi ríkislögreglustjóri synjað þann 19. s.m. með vísan til þess að starfsmenn teljist ekki viðtakendur og að 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 322/2001, um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu, hafi ekki tekið til starfsmanna sem aðgang hafi að málaskrá. Á hinn bóginn telji kvartandi starfsmenn lögreglu falla undir skilgreiningu ákvæðisins.

Þá kemur meðal annars fram í bréfi kvartanda, dags. 28. nóvember 2019, að hún líti svo á að ríkislögreglustjóri geti ekki takmarkað upplýsingarétt hennar með vísan til laga nr. 75/2019, um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, þar sem þau hafi tekið gildi eftir að beiðni kvartanda barst embættinu. Þá segir í bréfinu að kvartandi óski ekki eftir yfirliti yfir uppflettingar á vegum lögregluembætta heldur þá starfsmenn sem flett hafi upp upplýsingum um hana, óháð því hvaða embætti þeir starfi fyrir.

Loks verður það meðal annars ráðið af bréfi kvartanda, dags. 17. júní 2020, að hún telji sig eiga rétt á umbeðnum upplýsingum, óháð því hvort uppflettingar hafi verið gerðar eftir kennitölu eða tilteknum málsnúmerum. Þá segir í bréfinu varðandi þá staðhæfingu ríkislögreglustjóra að kvartandi geti óskað eftir upplýsingum um uppflettingar í málaskrárkerfinu frá einstökum lögregluembættum að hún hafi óskað eftir upplýsingum um uppflettingar í málaskrárkerfinu frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu sem hafi bent henni á að leita til ríkislögreglustjóra með beiðnina. Kvartandi hafnar því jafnframt að veiting upplýsinga um uppflettingar starfsmanna á persónuupplýsingum hennar í kerfinu leiði til órökstudds gruns um trúnaðarbrest ef dagsetning og eðlilegur og útskýranlegur tilgangur uppflettingar liggur fyrir.

3.

Sjónarmið ríkislögreglustjóra

Í bréfi ríkislögreglustjóra, dags. 4. október 2019, eru meðal annars raktar athugasemdir við ákvæði 25. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 75/2019, en í ákvæðinu er fjallað um skyldu til að nota aðgerðaskráningarkerfi til að tryggja rekjanleika aðgerða í þeim upplýsingakerfum sem lögbær yfirvöld halda í löggæslutilgangi. Er þar einnig lýst þeirri afstöðu að ákvæðið kveði á um með tæmandi hætti í hvaða tilgangi heimilt sé að nota upplýsingar úr aðgerðaskráningu en beiðni kvartanda falli ekki þar undir.

Kvartandi geti þó óskað eftir yfirliti yfir uppflettingar einstakra embætta á kennitölu hennar í málaskrárkerfinu þar sem slík uppfletting varði hana eina. Yfirlit yfir uppflettingar embætta á málsnúmerum geti hins vegar varðað aðra, auk þess sem slíkar uppflettingar þurfi ekki að tengjast ákveðnum einstaklingum sem skráðir hafa verið á mál. Því séu slíkar upplýsingar kvartanda óviðkomandi. Þar sem enginn af stafliðum 1. mgr. 25. gr. laga nr. 75/2019, þar sem talið er upp í hvaða tilgangi nota má upplýsingar úr aðgerðaskráningarkerfi, eigi við beri að synja kvartanda um yfirlit yfir þau embætti sem hafi flett upp því málsnúmeri sem hún hafi tiltekið.

Í bréfi ríkislögreglustjóra, dags. 20. apríl 2020, er meðal annars lýst þeirri afstöðu embættisins að þegar starfsmenn annarra embætta vinna með persónuupplýsingar kvartanda sem skráðar hafa verið í málaskrárkerfið teljist þau ábyrgðaraðilar að þeirri vinnslu þrátt fyrir að ríkislögreglustjóri sjái um rekstur kerfisins. Þá segir í bréfinu að órökstuddur grunur um trúnaðarbrest geti fallið á starfsmenn sem nota þurfi málaskrárkerfið vegna starfa sinna ef veittar verði upplýsingar um nöfn og kennitölur þeirra, svo og hvenær þeir framkvæmdu uppflettingar í kerfinu. Upplýsingaréttur kvartanda sé því takmarkaður með vísan til þess að það sé nauðsynlegt til að vernda réttindi og hagsmuni starfsmanna lögreglu og annarra stofnana sem aðgang hafi að málaskrárkerfinu, sbr. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 322/2001 og c-lið 3. mgr. 13. gr. laga nr. 75/2019.

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Afmörkun máls

Mál þetta lýtur að beiðni kvartanda um tilteknar upplýsingar úr aðgerðaskrá um uppflettingar á upplýsingum um hana sem skráðar hafa verið rafrænt í málaskrárkerfi ríkislögreglustjóra. Eins og beiðni kvartanda var sett fram gagnvart ríkislögreglustjóra, svo og hvernig umkvörtunarefni er afmarkað í bréfi kvartanda til Persónuverndar, dags. 28. nóvember 2019, þykir verða að líta svo á að beiðni kvartanda hafi lotið að upplýsingum um uppflettingar einstakra starfsmanna lögreglu í málaskrárkerfinu en að ekki hafi verið óskað eftir upplýsingum um uppflettingar á persónuupplýsingum kvartanda af hálfu annarra lögregluembætta eða stofnana sem aðgang hafa að því.

Þá telur Persónuvernd ekki verða annað ráðið af gögnum málsins en að beiðni kvartanda hafi auk framangreinds aðeins lotið að upplýsingum um tímasetningar uppflettinga á persónuupplýsingum hennar í málaskrárkerfi lögreglu. Á hinn bóginn verður ekki ráðið af gögnum málsins að kvartandi hafi óskað eftir öðrum upplýsingum frá ríkislögreglustjóra um umrædda vinnslu, þrátt fyrir að sjónarmið þess efnis hafi verið höfð uppi af hálfu kvartanda við rannsókn þessa máls. Verður því ekki leyst úr þeim þætti málsins í úrskurði þessum. Í því sambandi, og í samræmi við það sem er rakið í kafla II.3. hér að neðan um afmörkun ábyrgðar, bendir Persónuvernd jafnframt á að ekkert er fram komið í málinu um að starfsmenn ríkislögreglustjóra hafi flett persónuupplýsingum kvartanda upp í málaskrárkerfi embættisins.

2.

Gildissvið – Lagaskil

Gildissvið laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og reglugerðar (ESB) 2016/679, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. mgr. 39. gr. laganna, nær til vinnslu persónuupplýsinga sem er sjálfvirk að hluta eða í heild og vinnslu með öðrum aðferðum en sjálfvirkum á persónuupplýsingum sem eru eða eiga að verða hluti af skrá.

Til persónuupplýsinga teljast upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling og telst einstaklingur persónugreinanlegur ef unnt er að persónugreina hann, beint eða óbeint, með tilvísun í auðkenni hans eða einn eða fleiri þætti sem eru einkennandi fyrir hann, sbr. 2. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2018 og 1. tölul. 4. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt 6. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2018 gilda lögin og reglugerð (ESB) 2016/679 ekki um vinnslu persónuupplýsinga af hálfu ríkisins við það að koma í veg fyrir, rannsaka, koma upp um eða saksækja fyrir refsiverð brot eða fullnægja refsiviðurlögum. Til þess er hins vegar að líta að þegar beiðni kvartanda barst ríkislögreglustjóra, þann 9. júní 2019, giltu þó tiltekin ákvæði laganna um vinnslu persónuupplýsinga sem vörðuðu starfsemi ríkisins á sviði refsivörslu, sbr. ákvæði til bráðabirgða III, þ.m.t. 3. og 39. gr. og 42. gr. þeirra. Ákvæði 17. gr. laganna, sem kveður á um aðgangs- og upplýsingarétt einstaklinga, var á hinn bóginn ekki á meðal þeirra ákvæða sem giltu um slíka vinnslu.

Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 90/2018 halda reglugerðir, sem ráðherra hefur gefið út á grundvelli eldri laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gildi sínu fari þær ekki í bága við lög nr. 90/2018 eða reglugerð (ESB) 2016/679. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 90/2018 segir að um sé að ræða nokkurt safn reglna sem sumar hverjar hafi mikla þýðingu og þar megi nefna sem dæmi reglugerð nr. 322/2001.

Af framangreindu leiðir að þegar beiðni kvartanda var sett fram hjá ríkislögreglustjóra fór um upplýsingarétt hennar samkvæmt reglugerð nr. 322/2001, sem gilti um rafræna vinnslu persónuupplýsinga hjá lögreglu, sbr. 1. gr. hennar. Samkvæmt 1. mgr. 39. gr. laga nr. 90/2018 annast Persónuvernd eftirlit með framkvæmd þeirra laga, reglugerðar (ESB) 2016/679, sérákvæða í lögum sem fjalla um vinnslu persónuupplýsinga og annarra reglna um efnið. Af þessu ákvæði leiðir að Persónuvernd annaðist framkvæmd reglugerðar nr. 322/2001.

Til þess er jafnframt að líta að þann 25. júní 2019 tóku gildi lög nr. 75/2019 um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, sem gilda um vinnslu persónuupplýsinga hjá lögbærum yfirvöldum sem fram fer í löggæslutilgangi, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna, en hugtakið persónuupplýsingar er skilgreint í 1. tölul. 2. gr. laga nr. 75/2019 með sama hætti og gert er í lögum nr. 90/2018.

Með 37. gr. laga nr. 75/2019 var ákvæði til bráðabirgða III í lögum nr. 90/2018 breytt á þá leið að ákvæði þeirra laga voru ekki látin ná til vinnslu persónuupplýsinga sem vörðuðu starfsemi ríkisins á sviði refsivörslu. Þá er og til þess að líta að reglugerð nr. 322/2001 hefur nú verið felld á brott, sbr. 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 577/2020 um skrár lögreglu og vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, sem tók gildi 12. júní 2020. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 75/2019 gilda þau um vinnslu persónuupplýsinga sem er sjálfvirk að hluta eða í heild og um vinnslu með öðrum aðferðum en sjálfvirkum á persónuupplýsingum sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/2019 annast Persónuvernd eftirlit með framkvæmd þeirra laga en af ákvæðinu og fyrrnefndu ákvæði 1. mgr. 39. gr. laga nr. 90/2018 leiðir að Persónuvernd annast jafnframt eftirlit með framkvæmd reglugerðar nr. 577/2020. Telur Persónuvernd að meðal þess sem taka verði til skoðunar í máli þessu sé hvort kvartandi geti átt ríkari rétt til upplýsinga um vinnslu persónuupplýsinga sinna í málaskrárkerfi lögreglu samkvæmt núgildandi rétti.

Persónuvernd telur rétt að líta svo á að í málaskrárkerfi ríkislögreglustjóra séu skráðar persónuupplýsingar um kvartanda í skilningi 2. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2018, 1. tölul. 4. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679 og 1. tölul. 2. gr. laga nr. 75/2019. Að því virtu og með hliðsjón af framangreindu varðar mál þetta vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.

3.

Ábyrgðaraðili

Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 90/2018 og nr. 75/2019 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 6. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2018 er þar átt við einstakling, lögaðila, stjórnvald eða annan aðila sem ákveður einn eða í samvinnu við aðra tilgang og aðferðir við vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 7. tölul. 4. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laga nr. 75/2019 telst ábyrgðaraðili vera lögbært yfirvald sem ákvarðar, eitt eða í samvinnu við aðra, tilgang og aðferðir við vinnslu persónuupplýsinga.

Eins og hér háttar til telst ríkislögreglustjóri vera ábyrgðaraðili að þeirri vinnslu sem felst í að halda þær skrár lögreglu sem kveðið er á um í 2. gr. reglugerðar nr. 577/2020, sbr. áður 2. gr. reglugerðar nr. 322/2001, og því að varðveita og gera öðrum notendum aðgengilegar persónuupplýsingar kvartanda í rafrænu málaskrárkerfi. Að auki telst ríkislögreglustjóri vera ábyrgðaraðili vegna vinnslu eigin starfsmanna á persónuupplýsingum kvartanda í málaskrárkerfinu, þ.m.t. uppflettingum þeirra. Á hinn bóginn verður ríkislögreglustjóri ekki talinn bera ábyrgð á vinnslu umræddra persónuupplýsinga af hálfu starfsmanna annarra embætta og stofnana, svo sem vegna uppflettinga eða skráninga, samkvæmt áðurgreindum lögum. Með hliðsjón af framangreindu, svo og því að kvörtunin beinist aðeins að ríkislögreglustjóra, tekur úrskurður þessi ekki til réttar kvartanda til upplýsinga um vinnslu annarra en ríkislögreglustjóra á persónuupplýsingum kvartanda sem skráðar eru í málaskrárkerfið.

4.

Lagaumhverfi og niðurstaða

Í máli þessu er til úrlausnar krafa kvartanda um að fá upplýsingar um uppflettingar einstakra starfsmanna lögreglu í rafrænu málaskrárkerfi ríkislögreglustjóra, svo og um tímasetningu þeirra.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 322/2001 átti skráður einstaklingur rétt á að fá frá lögreglu vitneskju um hvaða upplýsingar um hann var eða hafði verið unnið með (1. tölul.), tilgang vinnslunnar (2. tölul.) og hver fékk, hefði fengið eða myndi fá upplýsingar um hann (3. tölul.). Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skyldi lögregla veita vitneskju skriflega væri þess óskað. Bar að afgreiða erindi svo fljótt sem verða mátti og eigi síðar en innan eins mánaðar frá móttöku þess.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 75/2019 á skráður einstaklingur rétt til staðfestingar frá ábyrgðaraðila á því hvort unnar séu persónuupplýsingar um hann og, ef svo er, rétt til aðgangs að persónuupplýsingunum. Að auki á skráður einstaklingur meðal annars rétt á að fá upplýsingar um tilgang með vinnslunni og lagagrundvöll hennar (sbr. a-lið ákvæðisins) og viðtakendur upplýsinganna (sbr. c-lið þess). Samkvæmt c-lið 3. mgr. sömu greinar má synja aðgangsbeiðni að hluta eða öllu leyti að teknu tilliti til lögmætra hagsmuna og réttinda hins skráða til að vernda hagsmuni annars en hans.

4.1.

Upplýsingar um hverjir stóðu að uppflettingum

Í máli þessu reynir meðal annars á hvort kvartandi hafi átt eða eigi rétt á upplýsingum frá ríkislögreglustjóra um það hvaða starfsmenn lögreglu hafi flett upp upplýsingum hans í rafrænu málaskrárkerfi embættisins. Í samræmi við kafla II.3. að framan tekur eftirfarandi umfjöllun til upplýsinga um uppflettingar starfsmanna ríkislögreglustjóra á persónuupplýsingum kvartanda í málaskrárkerfi embættisins en ekki upplýsinga um uppflettingar starfsmanna annarra embætta eða stofnanna.

Ákvæði 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 322/2001 var samhljóða 1.-3. tölul. 1. mgr. 18. gr. eldri laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Ber samkvæmt því að leggja til grundvallar að á sömu sjónarmið reyni við skýringu ákvæðanna. Telur Persónuvernd ekki hafa sérstaka þýðingu í því sambandi að reglugerðarákvæðið lúti að rétti til upplýsinga vegna vinnslu persónuupplýsinga af hálfu lögreglu.

Að mati Persónuverndar verður ekki lagt til grundvallar að í ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 322/2001 hafi falist réttur einstaklinga til að fá vitneskju um það þegar upplýsingar berast á milli einstakra starfsmanna ábyrgðaraðila, heldur hafi ákvæðið aðeins tekið til réttar einstaklinga til að fá vitneskju um miðlun persónuupplýsinga til annarra ábyrgðaraðila. Með vísan til þess verður kvartandi ekki talin hafa átt rétt á að fá upplýsingar úr aðgerðaskráningu málaskrárkerfis ríkislögreglustjóra um uppflettingar einstakra starfsmanna embættisins á upplýsingum um hana sem skráðar voru í kerfið, á grundvelli tilvitnaðs ákvæðis. Er sú skýring í samræmi við úrskurði Persónuverndar frá 28. febrúar 2005 í máli nr. 2004/144 og frá 8. mars 2017 í máli nr. 2016/835 þar sem reyndi á rétt einstaklinga samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 77/2000, sem var samhljóða tilvitnuðu ákvæði reglugerðar nr. 322/2001. Í fyrri úrskurðinum sagði meðal annars að upplýsingar af þessum toga úr atburðaskrá hefðu að geyma persónuupplýsingar um starfsmenn og miðlun slíkra upplýsinga til utanaðkomandi aðila kynni að hafa ýmsar afleiðingar gagnvart umræddum starfsmönnum, svo sem að á þá félli órökstuddur grunur um trúnaðarbrest. Persónuvernd telur sömu sjónarmið eiga hér við, auk þess sem slík upplýsingagjöf til hins skráða á grundvelli ákvæðisins hefði að mati stofnunarinnar getað orðið til þess að torvelda ríkislögreglustjóra að rækja lögbundið hlutverk sitt í þágu löggæslu. Að auki er þessi skýring í samræmi við úrskurð Persónuverndar frá 29. september 2020 í máli nr. 2020010601 þar sem reyndi á aðgang einstaklings að upplýsingum um uppflettingar starfsmanna lögreglu á persónuupplýsingum hans sem skráðar höfðu verið í málaskrárkerfi lögreglu.

Kemur þá til skoðunar hvort kvartandi geti nú átt ríkari rétt til upplýsinga um uppflettingar starfsmanna ríkislögreglustjóra á upplýsingum um kvartanda í málaskrárkerfi embættisins á grundvelli ákvæðis 2. mgr. 13. gr. núgildandi laga nr. 75/2019.

Samkvæmt athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 75/2019 er því ætlað að innleiða ákvæði 13.-15. gr. tilskipunar (ESB) 2016/680. Ákvæði 14. gr. tilskipunarinnar lýtur að rétti skráðra einstaklinga til aðgangs en meðal annars er í c-lið þess kveðið á um rétt einstaklings til upplýsinga um viðtakendur eða flokka viðtakenda sem fengið hafa persónuupplýsingar. Að mati Persónuverndar er orðalag umrædds ákvæðis tilskipunarinnar ekki rýmra að þessu leyti en a-liður 12. gr. tilskipunar 95/46/EB, sem 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 322/2001 byggðist efnislega á. Þá verður ekki séð að skilgreiningu hugtaksins „viðtakandi“ hafi verið breytt efnislega að þessu leyti í tilskipun (ESB) 2016/680. Loks er þess að geta að hvorki orðalag 13. gr. laga nr. 75/2019 né lögskýringargögn þykja benda til þess að lagasetningunni hafi verið ætlað að rýmka rétt einstaklinga til upplýsinga af þeim toga sem hér reynir á. Þegar litið er til framangreinds telur Persónuvernd verða að leggja til grundvallar að kvartandi eigi ekki rétt á að fá upplýsingar úr aðgerðaskráningu málaskrárkerfis ríkislögreglustjóra um uppflettingar einstakra starfsmanna á upplýsingum um hana sem skráðar voru í kerfið, á grundvelli tilvitnaðs ákvæðis. Er sú niðurstaða í samræmi við fyrrgreindan úrskurð Persónuverndar í máli nr. 2020010601.

Geta ber þess að þar sem umræddar upplýsingar úr atburðaskráningu teljast sem slíkar ekki vera persónuupplýsingar kvartanda verður hún ekki talin eiga rétt á að fá afrit af upplýsingunum á grundvelli 1. málsl. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 75/2019.

4.2.

Upplýsingar um tímasetningar uppflettinga

Kemur þá til úrlausnar hvort kvartandi hafi átt eða eigi rétt á upplýsingum um það hvenær ríkislögreglustjóri fletti upp persónuupplýsingum hennar í málaskrárkerfinu, sbr. umfjöllun um ábyrgð á þeirri vinnslu persónuupplýsinga sem hér um ræðir í II.3. að framan.

Að mati Persónuverndar verður hvorki ráðið af orðalagi 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 322/2001 né lögskýringargögnum að ríkislögreglustjóra hafi borið að veita kvartanda upplýsingar um tímasetningar uppflettinga. Telur Persónuvernd því verða að leggja til grundvallar að ríkislögreglustjóra hafi verið heimilt að synja beiðni kvartanda um umræddar upplýsingar með vísan til þess að vitneskjuréttur hennar samkvæmt ákvæðinu hafi ekki tekið til þeirra. Er sú niðurstaða í samræmi við fyrrgreindan úrskurð Persónuverndar frá 29. september 2020 í máli nr. 2020010601. Jafnframt telur Persónuvernd að sömu sjónarmið og voru rakin í kafla II.4.1., um þýðingu slíkrar upplýsingagjafar fyrir starfsmenn lögreglu og löggæslustarf, eigi við um upplýsingar af þessum toga.

Þá verður ekki séð að réttur kvartanda til upplýsinga um tímasetningar uppflettinga á persónuupplýsingum hennar í málaskrárkerfi ríkislögreglustjóra hafi verið aukinn með 2. mgr. 13. gr. laga nr. 75/2019, sbr. tilskipun (ESB) 2016/680. Samkvæmt því telur Persónuvernd ekki rétt að leggja fyrir ríkislögreglustjóra að veita kvartanda umræddar upplýsingar. Er sú niðurstaða í samræmi við fyrrgreindan úrskurð Persónuverndar í máli nr. 2020010601.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Ákvörðun ríkislögreglustjóra um að synja [A] um upplýsingar um þá starfsmenn sem flettu upp persónuupplýsingum hennar í rafrænu málaskrárkerfi embættisins og um tímasetningar uppflettinga samrýmdist reglugerð nr. 322/2001 um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu og lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. reglugerð (ESB) 2016/679.

Í Persónuvernd, 24. nóvember 2020


Helga Þórisdóttir                              Þórður Sveinsson
Var efnið hjálplegt? Nei