Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra

21.11.2006

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra

Persónuvernd vísar til bréfs heilbrigðis- og trygginganefndar, dags. 15. nóvember sl., þar sem óskað er umsagnar Persónuverndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra, 330. mál, lífeyrisgreiðslur elli- og örorkulífeyrisþega o.fl. (þskj. 353 á 133. löggjafarþingi.)

Í 6. mgr. 1. gr. frumvarpsins, sem felur í sér breytingu á 10. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, er að finna svohljóðandi ákvæði:

„Tryggingastofnun ríkisins skal hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin aflar úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda eða frá öðrum þeim aðilum sem getið er um í 47. gr."

Efnislega sambærilegt ákvæði er að finna í 6. mgr. 16. gr. frumvarpsins, sem felur í sér breytingu á 26. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra. Um þetta er ítarlega fjallað í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins, en þar segir:

„Í 6. mgr. 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um skyldu Tryggingastofnunar ríkisins til að hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin aflar um tekjur úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda eða frá öðrum þeim aðilum sem getið er um í 47. gr. laganna. Með eftirliti getur stofnunin brugðist fyrr við og má gera ráð fyrir að dragi úr erfiðleikum vegna ofgreiðslna þar sem fyrr er hægt að leiðrétta hvort sem um of- eða vangreiðslur er að ræða. Tryggingastofnun getur hafið leiðréttingar þegar frá og með næsta mánuði eftir að aðstæður breytast. Til innheimtu á ofgreiddum bótum kemur þó ekki fyrr en innheimta hefst eftir árlegt uppgjör tekjutengdra bóta. Ákvæði 6. mgr. eru í samræmi við tillögur starfshóps sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipaði hinn 5. janúar 2006 til þess að fara yfir eftirlit Tryggingastofnunar ríkisins með endurreikningi á tekjutengdum bótum. Formaður starfshópsins var Þórir Haraldsson lögfræðingur en í hópnum voru fulltrúar frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu, Tryggingastofnun ríkisins, ríkisskattstjóra, Landssambandi eldri borgara og Öryrkjabandalagi Íslands. Einnig var leitað álits Ásmundar Stefánssonar, formanns nefndar sem skipuð var af forsætisráðherra, sbr. fylgiskjal II með frumvarpi þessu, um nánari útfærslu á framkvæmd og eftirliti með tekjutengdum bótum Tryggingastofnunar. Framangreindur starfshópur fór ítarlega yfir framkvæmd Tryggingastofnunar á eftirliti og árlegu uppgjöri tekjutengdra bóta til lífeyrisþega. Þá fór starfshópurinn yfir upplýsingar frá Tryggingastofnun um endurreikning bótagreiðslna, fjölda bótaþega sem voru endurreiknaðir og skiptingu inneigna og krafna. Í áliti starfshópsins kom fram að framkvæmd eftirlits, endurreiknings bóta og uppgjörs hefði leitt í ljós að bæta þyrfti núverandi kerfi og gera það sveigjanlegra. Starfshópurinn var sammála um mikilvægi þess að útreikningur Tryggingastofnunar á bótarétti lífeyrisþega væri byggður á réttum upplýsingum og lífeyrisþegar ættu að tryggja sem best að upplýsingar sem bótaréttur þeirra væri byggður á væru sem réttastar á hverjum tíma. Starfshópurinn taldi að efling samtímaeftirlits af hálfu Tryggingastofnunar væri brýn nauðsyn þar sem með því móti gæti Tryggingastofnun betur sinnt því grundvallarhlutverki sínu að greiða réttar bætur á réttum tíma. Starfshópurinn taldi að með eflingu slíks eftirlits og innleiðingu skýrra reglna um aðgerðir í tengslum við það ætti að vera mögulegt að draga verulega úr van- og ofgreiðslum bóta og þar fari saman hagsmunir Tryggingastofnunar og viðskiptavina hennar."

Með vísan til þessa gerir Persónuvernd ekki athugasemdir við umræddar lagabreytingar, en tekið skal fram að Persónuvernd er ekki fyllilega ljóst hvort til standi að afla þessara upplýsingar án samþykkis umsækjanda. Af því tilefni skal bent á að í 2. mgr. 47. gr. laga nr. 117/1993 er gert ráð fyrir að fengið sé skriflegt samþykki umsækjanda fyrir öflun Tryggingastofnunar ríkisins á upplýsingum um hann hjá skattyfirvöldum. Standi til að gera breytingu á því varðandi tilteknar upplýsingar, hér upplýsingar í staðgreiðsluskrá sem haldin er í samræmi við ákvæði laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, er um að ræða undantekningu frá meginreglu. Með hliðsjón af kröfum til skýrleika lagaákvæða er æskilegt að slíkt sé tekið fram berum orðum í umræddum ákvæðum frumvarps þessa.




Var efnið hjálplegt? Nei