Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslunaratvinnu; Skylda til skráningar eigendasögu myndverka

15.9.2006

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslunaratvinnu, þ.e. um að lögfest verði ákvæði um skyldu til skráningar eigendasögu myndverka

1.

Persónuvernd vísar til bréfs iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins, dags. 25. ágúst 2006, þar sem óskað er athugasemda við umsögn Samtaka verslunar og þjónustu, dags. 15. s.m., við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 28/1998 um verslunaratvinnu. Er sú umsögn veitt í ljósi bréfs Gallerís Foldar til samtakanna, dags. 14. s.m. Í umsögninni er tekið undir athugasemdir í bréfinu um tillögu að reglum, sem bætt yrði við 23. gr. laganna, um skráningu eigendasögu að myndverkum. Þessar reglur eru í stuttu máli að:

þegar myndverk séu seld á opnum og lokuðum, frjálsum uppboðum, svo og í atvinnuskyni, skuli eigendasaga ávallt liggja fyrir eftir því sem kostur sé; og

Listasafni Íslands skuli ávallt sendar haldbærar upplýsingar um eigendasöguna án óeðlilegs dráttar.

Í bréfi Gallerís Foldar er vakin athygli á þeim mikla fjölda myndverka sem seld eru og bent á að á árabilinu 1985 til 2005 hafi 11.295 verk verið seld á uppboðum og sé það fyrir utan alla aðra sölu. Þá er bent á að mjög mikill munur er á verðmæti myndverka og því hversu merkileg í listrænum skilningi þau eru metin. Kemur fram sá skilningur að líta beri til þess hvort myndverk séu eftir einhverja af helstu listamönnum þjóðarinnar eður ei. Í ljósi þessa segir m.a. í bréfi Gallerís Foldar:

„[R]étt [er] að setja mjög stórt spurningamerki við að nauðsynlegt sé að taka nákvæmar eigendasögur af öllum verkum, jafnt verkum amatöra og lærðra myndlistarmanna, grafikverkum, afsteypum, jafnvel prentum, og þannig má áfram telja. Er það ekki fullmikið?"

Sérstakar athugasemdir eru og gerðar við þá tillögu að Listasafni Íslands verði send afrit af eigendasögum. Um það segir:

„Spurt er nokkurra spurninga:

Til hvers á safnið að varðveita þessar upplýsingar og hefur það burði til að halda utan um slíkan gagnagrunn?

Ef skráning hjá safninu stangast ekki á við lög um persónuvernd, hvað á þá að gera ef seljandi fer fram á nafnleynd gagnvart öðrum en kaupanda, sem reyndar er töluvert algengt?

Hverjir eiga að fá aðgang að þessum upplýsingum?"

Auk framangreinds segir að í flestum tilfellum sé ómögulegt fyrir listmunasala eða uppboðshaldara að sannreyna að uppgefin eigendasaga sé rétt. Þá segir m.a.:

„Lög sem kunna að verða sett í því augnamiði að fyrirbyggja sölu á fölsuðum listaverkum þurfa að vera þannig að það sé hægt að fara eftir þeim og að tilgangurinn sé augljós. Hann er það ekki ef ætlunin er að fylla skjalageymslur og tölvur af gagnslausum og einskisverðum upplýsingum um verk sem engum manni dytti nokkurn tímann í hug að gætu verið fölsuð."

2.

Ein af grundvallarreglum persónuupplýsingaréttarins er sú að tilgangurinn með vinnslu persónuupplýsinga skal vera skýr og málefnalegur, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. persónuverndartilskipunar EB nr. 95/46/EB sem lögin grundvallast á. Þá er það ein af grundvallarreglum persónuupplýsingaréttarins að aldrei skal unnið með meiri persónuupplýsingar en nauðsynlegt er í þágu tilgangsins með vinnslunni, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 7. gr. laganna, sbr. c-lið 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar.

Ljóst er að sú vinnsla persónuupplýsinga, sem lögð er til í frumvarpinu, myndi þjóna málefnalegum tilgangi, þ.e. að koma í veg fyrir að fölsuð myndverk séu seld sem ófölsuð væru. Þær athugasemdir, sem fram koma í bréf Gallerís Foldar, sem tekið er undir í framangreindri umsögn Samtaka verslunar og þjónustu, lúta hins vegar að því að umrædd vinnsla persónuupplýsinga yrði svo umfangsmikil að hún færi fram úr því sem nauðsynlegt væri. Þá verði ekki séð að það þjóni skýrum tilgangi að vinna með allt þetta magn persónuupplýsinga.

Persónuvernd telur þessar athugasemdir skoðunarverðar; þrátt fyrir að brýnt sé að hamla sölu falsaðra myndverka er enda einnig mikilvægt að slíkt leiði ekki til skráningar og annarrar vinnslu persónuupplýsinga sem engin þörf er fyrir. Í því sambandi ber að hafa í huga að tildrög að sölu myndverks geta verið með ýmsum hætti og geta m.a. persónulegar ástæður legið þar að baki. Kann það því í vissum tilvikum að vera mönnum viðkvæmt að þeir hafi selt eða eignast tiltekið verk.

Eðlilegt er að einkalífshagsmunir, sem slíku tengjast, hafi vægi við mótun umræddra reglna rétt eins og þeir hagsmunir að tryggt sé að ekki séu seld fölsuð verk. Á það m.a. við um mat á því hvort skrá beri eigendasögu allra myndverka eða aðeins hinna verðmætari verka og þeirra verka sem álíta má hafa sérstakt gildi í listasögunni.





Var efnið hjálplegt? Nei