Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á upplýsingalögum

28.4.2006

Frumvarp til laga um breytingar á upplýsingalögum, einkum hvað varðar rétt til endurnota á opinberum upplýsingum

Persónuvernd vísar til bréfs allsherjarnefndar Alþingis, dags. 12. apríl 2006, þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til laga um breytingar á upplýsingalögum nr. 50/1996 (690. mál, 132. löggjafarþing). Efni frumvarpsins lýtur einkum að innleiðingu tilskipunar 2003/98/EB um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera. Með því er átt við að einkaaðilum sé veittur aðgangur að upplýsingum sem þar eru varðveittar, þ. á m. skrám, til að geta notað þær í markaðslegum tilgangi.

Í c-lið 5. gr. frumvarpsins, þar sem lagt er til að við upplýsingalög, bætist ný 26. gr., kemur fram að stjórnvöldum verður ekki skylt að veita aðgang að upplýsingum í umræddu skyni heldur verði það aðeins heimilt. Þar kemur og m.a. annars fram að endurnot upplýsinga mega ekki brjóta í bága við lög, þ. á m. lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Þá kemur fram í a-lið 5. gr. frumvarpsins, þar sem lagt er til að ný 24. gr. bætist við upplýsingalög, að ákvæði um endurnotkun opinberra upplýsinga eiga aðeins að gilda um fyrirliggjandi upplýsingar sem eru í vörslum stjórnvalda og almenningur á rétt til aðgangs að samkvæmt 3. gr. laganna eða öðrum lögum.

Samkvæmt framangreindu á með umræddu frumvarpi hvorki að breyta gildandi rétti um til hvaða gagna hjá stjórnvöldum almenningur hafi aðgang né um vernd persónuupplýsinga. Verði frumvarpið að lögum mun það þannig aðeins hafa í för með sér að settar verða reglur um hvernig aðgangur skuli veittur og skilyrði fyrir honum. Í ljósi þessa gerir Persónuvernd ekki athugasemdir við frumvarpið.




Var efnið hjálplegt? Nei