Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi

Umsögn til allsherjarnefndar Alþingis

25.11.2005

Umsögn Persónuverndar um 189. mál, þingskjal nr. 189.

Persónuvernd vísar til bréfs allsherjarnefndar Alþingis, dags. 14. nóvember 2005, þar sem óskað er umsagnar stofnunarinnar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 16/2000 um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi. Breytingunum er ætlað að færa ákvæði laganna til samræmis við fjórar gerðir Evrópusambandsins, þ.e. reglugerð 2004/871/EB frá 29. apríl 2004, ákvörðun 2005/211/JHA frá 24. febrúar 2005, ákvörðun 2005/451/JHA frá 13. júní 2005 og reglugerð 2005/1160/EB frá 6. júlí 2005.

1.

Ekki verður annað séð en að frumvarp þetta sé í samræmi við framangreindar gerðir Evrópusambandsins. Því verða ekki gerðar efnislegar athugasemdir við ákvæði þess að öðru leyti en því, að í c-lið 4. gr., sem mælir fyrir um aðgengi Umferðarstofu að Schengen-upplýsingakerfinu, mætti að ósekju tilgreina í hvað skyni stofnuninni er heimilt að nota aðganginn. Er það í samræmi við a- og b-liði 1. mgr. 10. gr. laga nr. 16/2000 þar sem fram kemur í hvaða skyni þargreindum yfirvöld er heimilt að nota aðgang sinn að kerfinu. Þá er sérstaklega tekið fram í 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 2005/1160/EB að yfirvöld sem bera ábyrgð á útgáfu skráningarskírteina skuli hafa aðgang að nánar tilgreindum upplýsingum í Schengen-upplýsingakerfinu í þeim tilgangi einum að kanna hvort ökutæki sem óskað er skráningar á hafi verið stolið, selt ólöglega eða horfið.

2.

Fyrir skýrleika sakir þykir rétt að benda á eftirfarandi varðandi þær tilvísanir í gerðir Evrópusambandsins sem er að finna í athugasemdum í greinargerð með frumvarpinu.

Í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins er a-liður 2. mgr. sagður vera í samræmi við áskilnað 4. mgr. 1. gr. ákvörðunar 2005/211. Það ákvæði felur í sér breytingu á 99. gr. Schengen-samningsins og er réttilega tilgreint sem grundvöllur 2. gr. frumvarpsins (7. gr. laga nr. 16/2000). Ákvæði a-liðar 2. mgr. er hins vegar efnislega sambærilegt við a-lið 7. mgr. 1. gr. ákvörðunar 2005/211.

Í athugasemdum við 4. gr. frumvarpsins er a-liður ákvæðisins sagður vera í samræmi við 8. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 871/2004 og 3. mgr. 1. gr. ákvörðunar nr. 2005/211. Þarna hafa tilvísanir víxlast, en grundvöllur þessa ákvæðis er 8. mgr. 1. gr. ákvörðunar nr. 2005/211 og 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 2004/871.

Persónuvernd gerir ekki frekari athugasemdir.





Var efnið hjálplegt? Nei