Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun

Umsögn til samgöngunefndar Alþingis

5.12.2005

Persónuvernd vísar til bréfs samgöngunefndar Alþingis, dags. 16. nóvember 2005, þar sem umsagnar stofnunarinnar er óskað um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 69/2003 um Póst og fjarskiptastofnun. Í frumvarpinu er lögð til breyting á 13. gr. laganna, en hún myndi fela í sér að úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála yrði lögð niður, sem og að ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar yrðu þá kæranlegar til ráðuneytisins í stað nefndarinnar áður.

Persónuvernd gerir ekki athugasemdir við þessa breytingu að öðru leyti en því er varðar ákvarðanir tengdar vinnslu persónuupplýsinga í fjarskiptum, sbr. IX. kafla fjarskiptalaga nr. 81/2003.

Í því sambandi bendir Persónuvernd í fyrsta lagi á að valdmörkin í þeim efnum milli Póst- og fjarskiptastofnunar og úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála annars vegar og Persónuverndar hins vegar eru óskýr í þeim efnum, sbr. einnig umsögn Persónuverndar, dags. 26. febrúar 2003, um frumvarp það sem varð að lögum nr. 69/2003. Verði úrskurðarnefndin lögð niður og ráðuneytið taki við hlutverki hennar mun hinn sami vafi verða uppi varðandi valdmörk þess og Persónuverndar nema tekin verði upp ákvæði sem leysi úr þessum vafa.

Í öðru lagi bendir stofnunin á að þau yfirvöld, sem framfylgja eiga reglum um meðferð persónuupplýsinga, eiga að starfa alveg sjálfstætt að þeim verkum sem þeim eru fengin, sbr. 1. mgr. 28. gr. tilskipunar 95/46/EB um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga. Í því felst að þau eiga í störfum sínum að vera óháð ráðherra og ráðuneyti. Verði umrætt frumvarp samþykkt óbreytt kunna íslensk lög því að brjóta í bága við framangreinda tilskipun og þar með skyldur Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.





Var efnið hjálplegt? Nei