Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum

Umsögn til allsherjarnefndar Alþingis

27.12.2005

Persónuvernd vísar til bréfs allsherjarnefndar Alþingis, dags. 12. desember 2005, þar sem óskað er umsagnar stofnunarinnar um frumvarp til laga um öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum (328. mál á 132. löggjafarþingi 2005–2006). Ljóst er að þetta frumvarp, ef af lögum verður, mun hafa í för með sér takmörkun á friðhelgi einkalífs, enda heimilar það leit á m.a. heimili gerðarþola. Þá er tekið fram í 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins að leitað kunni að verða í m.a. tölvugögnum. Hins vegar er í frumvarpinu að finna reglur sem tryggja eiga meðalhóf, einkum þau ákvæði að leit skuli fara fram samkvæmt dómsúrskurði, sbr. 2. gr. og II. kafla; að sönnunargagna verði ekki aflað vegna brota sem talin verða minni háttar beinist beiðni að einstaklingi og þau hafa ekki verið liður í atvinnustarfsemi, sbr. a-lið 2. mgr. 3. gr.; að sönnunargagna verði ekki aflað sé stórfelldur munur á hagsmunum gerðarþola af því að sönnunargagna verði ekki aflað og hagsmunum gerðarbeiðanda af því að afla slíkra gagna, sbr. b-lið 2. mgr. 3. gr.; að sönnunar verði ekki aflað með gögnum sem hafa að geyma upplýsingar sem óheimilt væri að gefa vitnaskýrslu um í einkamáli fyrir dómi, sbr. 3. mgr. 4. gr.; að í úrskurði héraðsdóms skuli afmarkað hvaða gagna verði aflað og hvar þeirra skuli leitað hjá gerðarþola, sbr. 1. mgr. 9. gr.; og að gerðarbeiðanda sé eingöngu heimilt að vera viðstaddur leit, þegar sönnunargagna er aflað hjá gerðarþola, að því marki sem nauðsynlegt er til að veita upplýsingar, en augljóslega væri einkalífsskerðingin af leit enn meiri en ella fengi gerðarbeiðandi að fylgjast með.

Í ljósi framangreindra ákvæða telur Persónuvernd ekki ástæðu til frekari athugasemda við frumvarpið. Hins vegar skal tekið fram að stofnunin telur þá réttarvernd, sem þeim er ætlað að tryggja, afar mikilvæga í ljósi 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þar sem kveðið er á um grundvallarregluna um friðhelgi einkalífs. Telur stofnunin þessa réttarvernd raunar forsendu þess að frumvarpið verði að lögum.





Var efnið hjálplegt? Nei