Umsagnir

Umsögn um frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum, lögum um meðferð opinberra mála og lögum um fjarskipti vegna samnings Evrópuráðsins um tölvubrot

Umsögn til allsherjarnefndar Alþingis

27.4.2006

Umsögn um frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum, lögum um meðferð opinberra mála og lögum um fjarskipti vegna samnings Evrópuráðsins um tölvubrot

Persónuvernd vísar til bréfs allsherjarnefndar Alþingis, dags. 27. mars 2006, þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum nr. 19/1940, lögum um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 og lögum um fjarskipti nr. 81/2003 (þskj. 905, 619. mál á 132. löggjafarþingi). Er tilgangur þeirra breytinga, sem lagðar eru til í frumvarpinu, að fullnægja ákvæðum Evrópuráðssamnings frá 23. nóvember 2001 um tölvubrot. Í 4. gr. þessa frumvarps er ákvæði sem Persónuvernd telur tilefni til að gera athugasemdir við. Þar er lagt til að við b-lið 2. mgr. 87. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála bætist nýr málsliður, svohljóðandi: „Til aðgerða skv. b-lið 86. gr. er þó nægilegt að brot geti að lögum varðað tveggja ára fangelsi."

Þær aðgerðir, sem hér um ræðir, eru að fengnar séu upplýsingar hjá síma- eða fjarskiptafyrirtækjum um símtöl eða fjarskipti við tiltekinn síma eða fjarskiptatæki. Ákvæði b-liðar 86. gr. laga nr. 19/1991 nær þannig ekki aðeins til tölvubrota heldur margra annarra brota. Það gerir nú ráð fyrir að afbrot verði að geta varðað átta ára fangelsi eða að miklir almanna- eða einkahagsmunir þurfi að vera í húfi til að úrræðum samkvæmt því, s.s. símhlerun, verði beitt. Í þessum úrræðum er fólgin mikil skerðing á friðhelgi einkalífs og eru þessi ströngu skilyrði fyrir beitingu þeirra í samræmi við það. Álítur Persónuvernd því að sérstök rök þurfi til að koma svo að slakað sé á þessum skilyrðum. Hvað tölvubrot varðar geta slík rök verið til staðar þar eð öflun sönnunargagna um þau geti verið útilokuð nema aflað sé upplýsinga um þau fjarskipti sem áttu sér stað við framkvæmd þeirra. Ekki verður hins vegar séð að sams konar rök eigi almennt við um önnur brot. Í ljósi þess leggur Persónuvernd til að umrædd tillaga að breytingu á lögum nr. 19/1991 verði þrengd þannig að hún nái aðeins til tölvubrota sem framin eru með notkun á fjarskiptakerfi. Þar eð ekki hafa öll fjarskipti sérstakt gildi við rannsókn slíkra brota leggur Persónuvernd einnig til að tillagan verði þrengd hvað tegundir þeirra fjarskipta varðar sem undir hana falla.

Framangreindar tillögur Persónuverndar að breytingum á tillögu 4. gr. frumvarpsins að nýjum málslið í b-lið 2. mgr. 87. gr. laga nr. 19/1991 gætu birst með eftirgreindum hætti í orðalagi hins nýja málsliðar: „Til að fá upplýsingar skv. b-lið 86. gr. um tölvusamskipti er þó nægilegt að afbrot geti að lögum varðað tveggja ára fangelsi, enda sé um að ræða brot sem framið er með tölvu og er fólgið í notkun á fjarskiptakerfi."





Var efnið hjálplegt? Nei