Umsagnir

Umsögn um tillögur að breytingum á reglugerð nr. 431/1998 um ökuferilsskrá og punktakerfi

Umsögn til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 11. janúar 2002

11.1.2002


Með bréfi, dags. 4. desember 2001, óskaði dóms- og kirkjumálaráðuneytið eftir umsögn Persónuverndar (PV) um erindi Lögreglunnar í Reykjavík (LR) og Sambands Íslenskra Tryggingafélaga (SÍT) , dags. 29. október 2001, um breytingar á reglugerð nr. 431/1998 um ökuferilsskrá og punktakerfi.


Í umræddu erindi kemur fram að nú eru færðar í ökuferilsskrá þær upplýsingar um umferðarlagabrot sem varða ökumenn og byggðar eru á kærum lögreglumanna, upplýsingar um umferðarslys sem lögregluskýrslur hafi verið ritaðar um og upplýsingar sem berast frá lögregluyfirvöldum erlendis um umferðarlagabrot manna búsettra hér á landi. Á skrána eru ekki færðar upplýsingar sem berast bifreiðatryggingafélögum á sérstökum tjónstilkynningum, þ.e. vegna atburða sem verða án afskipta lögreglu.


Erindið LR og SÍT er tvíþætt. Í fyrsta lagi varðar það mögulegar breytingar á umræddri reglugerð "til að jafna stöðu ökumanna gagnvart færslum í skrána". Í öðru lagi er óskað afstöðu PV til þess hvort "ekki sé eðlilegt út frá réttarvörslusjónarmiðum að bifreiðatryggingafélögin fái aðgang að upplýsingum um feril ökumanna í skránni, ekki síst ungra ökumanna, þannig að félögin geti hagnýtt sér þessar upplýsingar við iðgjaldsákvarðanir".


Skilningur Persónuverndar á fyrra lið umrædds erindis, þ.e. um breytingar á reglugerðinni til að "jafna stöðu ökumanna gagnvart færslum í skrána" er sá að á ferðinni sé hugmynd um að færa á skrána upplýsingar sem berast bifreiðatryggingafélögum á sérstökum tjónstilkynningum, þ.e. vegna atburða sem verða án afskipta lögreglu. Áður en Persónuvernd tekur afstöðu til framagreindrar breytingar er þess óskað að útskýrt verði hvaða nauðsyn sé á slíku, hvernig slíkt verði kunngjört þeim sem fylla út tjónstilkynningar og hvernig fyrirhugað sé að orða umrætt reglugerðarákvæði.


Varðandi síðari lið erindisins skal minnt á þá meginreglu um gæði gagna og vinnslu sem kveðið er á um í 7. gr. laganna. Er þar m.a. áskilið að við meðferð persónuupplýsinga, þ.m.t. miðlun þeirra, skuli þess gætt að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar. Er nauðsynlegt að Persónuvernd berist skýringar á því hvers vegna tilteknu bifreiðatryggingafélagi sé nauðsyn að fá upplýsingar um aðra en þá sem eru í viðskiptum við það félag.





Var efnið hjálplegt? Nei