Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um leigubifreiðar (gagnagrunnur um atvinnu- og starfsleyfi)

Umsögn til samgöngunefndar Alþingis

30.4.2001

Persónuvernd barst í dag erindi yðar dags. 26. apríl 2001 þar sem Persónuvernd var sent til umsagnar frumvarp til laga um leigubifreiðar, 633. mál, heildarlög.

Í tilefni af erindinu var umrætt frumvarp lesið með hliðsjón af lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 95/46/EB um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga.


Persónuvernd gerir athugasemdir við ákvæði frumvarpsins um gagnagrunn með persónuupplýsingum um atvinnuleyfishafa og útstöðvar frá þeim gagnagrunni.


Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins yrði Vegagerðinni falin framkvæmd mála er varða leigubifreiðar, þ.á.m. útgáfa atvinnuleyfa og leyfa fyrir forfallabílstjóra. Þá væri Vegagerðinni einnig falin með ákvæðinu "starfræksla gagnagrunns sem veitir m.a. staðfestingu atvinnuleyfa og heimildir til undanþágu frá akstri eigin bifreiðar. Í framangreindan gagnagrunn eru skráðar þær lágmarksupplýsingar sem nauðsynlegar eru til útgáfu atvinnu- og/eða starfsleyfis." Af orðalagi ákvæðisins mætti draga þá ályktun að hér væri um að ræða heimildarákvæði fyrir Vegagerðina til að halda málaskrá yfir umsóknir um atvinnuleyfi og leyfi fyrir forfallabílstjóra. Hins vegar er ekki þörf á slíku heimildarákvæði enda er stjórnvöldum alla jafnan áskilinn réttur til að halda slíkar skrár. Um meðferð upplýsinga í þeim skrám almennt eftir stjórnsýslulögum nr. 37/1993, með áorðnum breytingum, upplýsingalögum nr. 50/1996, með áorðnum breytingum og eftir atvikum lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.


Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins gæti Vegagerðin "heimilað sérstakar útstöðvar frá gagnagrunninum á bifreiðastöðvum eða hjá bifreiðastjórafélögum til þess að afgreiða undanþágur skv. 9. gr.". Með ákvæðinu gæti Vegagerðin því veitt einstökum bireiðastöðvum og bifreiðastjórafélögum tengingu við umrædda málaskrá sína um tölvunet. Að mati Persónuverndar skortir rök fyrir slíkri samtengingu og er þeirri spurningu ósvarað hvers vegna ekki sé hægt að veita viðkomandi bifreiðastöðvum upplýsingar um atvinnuleyfishafa á viðkomandi stöð með einfaldari og viðurhlutaminni hætti. Enn fremur er óljóst hvers vegna gert er ráð fyrir heimild til að tengja bifreiðastjórafélög við umrædda málaskrá, enda útgáfa leyfa samkvæmt lögunum eingöngu í höndum Vegagerðarinnar og einstakra bifreiðastöðva. Er þetta sérstaklega athyglivert þar sem í almennum athugasemdum við frumvarpið segir að ákveðins trúnaðarbrests hafi gætt milli þeirra þriggja stéttarfélaga leigubifreiðastjóra sem hafa haft útgáfu akstursleyfa með höndum frá því í nóvember 1999.


Í 3. mgr. 2. gr. er kveðið á um skyldu atvinnuleyfishafa til að veita Vegagerðinni "upplýsingar sem varða atvinnuleyfi þeirra og nýtingu þess, þ.m.t. staðfest afrit af skattframtölum". Af þessu tilefni skal bent á að í frumvarpinu er hvergi að finna tæmandi talningu á því hvaða upplýsingar verði skráðar í umræddan gagnagrunn. Þess í stað er að finna auðkennatalningar í almennum athugasemdum með frumvarpinu og með 2. gr. þess. Í þeim kemur fram að skráðar verði upplýsingar um nafn bifreiðastjóra, kennitölur þeirra, heimilisfang, bifreiðastöð, kallnúmer, "nýtingu atvinnuleyfis, heimilað og tekið orlof, útgerðarheimildir vegna veikinda o.fl.". Óljóst er hvort með orðalaginu "o.fl." sé t.d. veitt heimild til að skrá í gagnagrunninn upplýsingar úr skattframtölum leyfishafa, sbr. áðurgreinda 3. mgr. 2. gr. frv. Þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir heimild til víðtækra tenginga við gagnagrunninn, sbr. m.a. 2. mgr. 2. gr. frv., væri æskilegt að kveðið væri skýrt á um hversu víðtæk vinnsla persónuupplýsinga væri heimiluð á þessu sviði.


Að auki er gerð athugasemd við að í frumvarpinu er ekki kveðið skýrt á um hverjum skuli heimill aðgangur að umræddum gagnagrunni. Til dæmis virðist í eftirfarandi texta á bls. 6 í almennum athugasemdum með frumvarpinu gert ráð fyrir að komið sé upp tengingu lögreglu við gagnagrunninn, þrátt fyrir að orðalag frumvarpsins sjálfs geri eingöngu ráð fyrir að Vegagerðin, auk einstakra bifreiðastöðva og bifreiðastjórafélaga, geti haft slíkan aðgang: "Með tilkomu gagnagrunns Vegagerðarinnar verður lögreglu auðveldað eftirlitshlutverk sitt en henni ber að hafa eftirlit með því að á götum úti aki enginn leigubifreið nema sá sem til þess hefur réttindi." Að auki eru hvorki færð rök fyrir því í frumvarpinu né athugasemdum hvaða þörf er á að lögregla hafi aðgang að öllum þeim upplýsingum sem gert er ráð fyrir að verði skráðar í umræddan gagnagrunn í stað þess að hafa einungis aðgang að lista yfir atvinnuleyfishafa og handhafa leyfa fyrir forfallabílstjóra. Þá er ekki tekið fram í frumvarpinu að aðgengi einstakra bifreiðastöðva að umræddum gagnagrunni skuli takmarkaður við þá bifreiðastjóra sem starfi á viðkomandi stöðvum.


Loks segir í almennum athugasemdum við frumvarpið, bls. 6: "Gert er ráð fyrir að aðgangur að grunnupplýsingum gagngrunnsins verði mjög takmarkaður og í fullu samræmi við ákvæði laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga." Þrátt fyrir það er hvergi vísað til umræddra laga í frumvarpinu. Þá eru í frumvarpinu hvorki sett fram ákvæði til verndar þeim réttindum hins skráða sem kveðið er á um í lögum nr. 77/2000 né lagðar þær lágmarksskyldur á skrárhaldara sem hvíla á ábyrgðaraðilum samkvæmt lögunum. Má t.d. nefna upplýsingarétt hins skráða, sbr. 18. sbr. 19. gr. laganna, og skyldur ábyrgðaraðila til að gæta að öryggi þeirra persónuupplýsinga sem unnið er með, sbr. 11. gr., viðhafa innra eftirlit með vinnslunni, sbr. 12. gr., leiðrétta rangar og villandi upplýsingar, sbr. 25. gr., og eyða þeim upplýsingum sem ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita.


Í ljósi þess sem rakið er hér að framan leggur Persónuvernd til að eftirfarandi breytingar verði gerðar á umræddu frumvarpi:

1. 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins orðist svo: "Vegagerðin fer með framkvæmd mála er varða leigubifreiðar. Undir starfssvið hennar fellur útgáfa starfsleyfa bifreiðastöðva, útgáfa atvinnuleyfa, útgáfa leyfa fyrir forfallabílstjóra og námskeiðahald."

2. 2. ml. 2. mgr. 2. gr. frv. falli brott.

3. 3. mgr. 2. gr. orðist svo: "Atvinnuleyfishöfum er skylt að veita Vegagerðinni upplýsingar sem varða atvinnuleyfi þeirra og nýtingu þess".

4. 2. ml. 3. mgr. 9. gr. frv. orðist svo: "Bifreiðastöðvar annast veitingu undanþágna."


Vegna þess stutta frests sem Persónuvernd var veittur til umsagnar um frumvarpið er sá fyrirvari gerður að einungis vannst tími til að gera þær athugasemdir sem fram komu við fyrstu skoðun á frumvarpinu. Ber umsögnin af sömu ástæðu þess væntanlega merki að hægt sé að setja fram þær athugasemdir sem í henni greinir með skýrari og styttri hætti





Var efnið hjálplegt? Nei