Umsagnir

Frumvarp til laga um miðlun upplýsinga og vernd uppljóstrara

4.6.2015

Persónuvernd hefur veitt umsögn um frumvarp til laga um vernd uppljóstrara. Í umsögninni segir m.a. að það sé mat stofnunarinnar að ákvæði frumvarpsins um undanþágu frá þagnarskyldu starfsstétta sem fjalla um viðkvæmar persónuupplýsingar, samrýmist hvorki sjónarmiðum um meðalhóf né ákvæðum stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs. Þá telur stofnunin að skýra þurfi betur samhengi frumvarpsins við aðra löggjöf. Einnig leggur stofnunin til að settur verði á fót starfshópur sem hafi það hlutverk að kanna nánar það lagaumhverfi sem nú er til staðar og hvort raunveruleg þörf sé á lagaákvæðum sem þessum og hver reynsla erlendra ríkja hafi verið.


Reykjavík, 18. maí 2015

Frumvarp til laga um miðlun upplýsinga og vernd uppljóstrara

Persónuvernd vísar til tölvubréfs allsherjar- og menntamálanefndar frá 6. maí 2015 þar sem óskað er umsagnar stofnunarinnar um frumvarp til laga um miðlun upplýsinga og vernd uppljóstrara (þskj. 1113, 647. mál á 144. löggjafarþingi).


Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að uppljóstrurum, sem miðla upplýsingum um misgerð eða það sem þeir eru í góðri trú um að sé misgerð, verði veitt vernd gagnvart lögsóknum og annars konar aðgerðum.


Persónuvernd ítrekar fyrri umsagnir sínar sem hún hefur áður veitt um efnislega sambærileg frumvörp, sbr. umsagnir frá 8. mars og 13. október 2013, sem sendar voru allsherjar- og menntamálanefnd. Í þeim kom m.a. fram að þegar komið sé á kerfum, sem ætlað er að vernda uppljóstrara, megi telja eðlilegt að skilgreindur sé einhver aðili sem taki við tilkynningum um meintar misgerðir, vegi þær og meti og ákveði viðbrögð. Þá verði að telja eðlilegt að réttindi þeirra sem bornir eru ávirðingum séu skilgreind. Hefur nefndinni nú þegar verið sent afrit af áliti nr. 1/2006, um uppljóstranir, frá starfshópi samkvæmt 29. gr. persónuverndartilskipunarinnar nr. 95/46/EB, sem skipaður er fulltrúum persónuverndarstofnana í aðildarríkjum ESB og gegnir ráðgefandi hlutverki um túlkun og beitingu tilskipunarinnar. Ítrekar stofnunin þau sjónarmið sem fram koma í áliti hópsins og telur hún brýnt að þau séu höfð að leiðarljósi við setningu lagaákvæða um þetta efni.


Einnig ítrekar Persónuvernd fyrri athugasemdir sínar varðandi ákvæði frumvarpsins um frávik frá þagnarskyldu, sem nú má finna stað í 6. gr. frumvarpsins. Persónuvernd gerir alvarlegar athugasemdir við framangreint ákvæði þar sem kveðið er á um refsileysi gagnvart trúnaðar- og þagnarskylduákvæðum laga.  Í ákvæðinu er lagt til að falla skuli frá saksókn ef miðlun upplýsinga skv. II. kafla laganna brýtur gegn trúnaðar- og starfsskyldum laga nema því aðeins að ríkir almannahagsmunir krefjist málshöfðunar. Persónuvernd telur að ákvæðið þurfi að afmarka nánar en eins og það er nú verður það ekki skilið á annan hátt en að t.d. læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn megi ávallt rjúfa skyldu sína til þagmælsku um hagi sjúklings, sé slíkt trúnaðarrof þáttur í uppljóstrun samkvæmt ákvæðum frumvarpins. Með setningu slíks ákvæðis væri litið fram hjá því að friðhelgi einkalífs manna nýtur verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í þessu felst að löggjafanum ber skylda til að veita einkalífi manna, þar á meðal viðkvæmum persónuupplýsingum, sérstaka lagavernd. Sú ráðagerð sem kemur fram í 6. gr. frumvarpsins, að veita jafn opna og óskilgreinda undanþágu frá refsivernd á friðhelgi einkalífs manna, án frekari lögákveðinna skilyrða með því að aflétta þagnarskyldu starfstétta sem fjalla um viðkvæmar persónuupplýsingar, samræmist að mati Persónuverndar ekki sjónarmiðum um meðalhóf og færi því í bága við fyrrgreind ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu. Af tilvísunum í greinargerð frumvarpsins til alþjóðlegar samvinnu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins um að uppræta spillingu verður auk þess ekki ályktað að svo langt þurfi að ganga til að ná þeim almennum markmiðum sem stefnt skuli að til að vernda uppljóstrara. Varar Persónuvernd sterklega við því að slík regla sé lögfest.


Þá telur Persónuvernd m.a. að skýra þurfi betur samhengi frumvarpsins við aðra löggjöf sem veitir vernd vegna uppljóstrana, sbr. einkum 25. gr. fjölmiðlalaga nr. 38/2011 um vernd heimildarmanna og ákvæði laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, t.a.m. ákvæði um að hinn skráði eigi rétt á að fá frá ábyrgðaraðila vitneskju um hvaða upplýsingar um hann er eða hefur verið unnið með, og hvaða slíkar upplýsingar koma, sbr. 1. og 4. tölul. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 77/2000.


Persónuvernd leggur að lokum til að nefndin hlutist til um að settur verði á fót starfshópur til að kanna nánar það lagaumhverfi sem nú er til staðar og hvort raunveruleg þörf sé á lagaákvæðum sem þessum og hver reynsla af þeim hefur verið í ríkjum þar sem þau hafa verið sett. Líkt og kemur fram í skýringum við frumvarpið hefur slíkur hópur verið settur á stofn í Danmörku. Telur stofnunin að undirbúningsvinna slíks hóps gæti haft mikla þýðingu til að tryggja vandaða löggjöf á þessu sviði.



Var efnið hjálplegt? Nei