Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands

31.7.2013

Persónuvernd hefur veitt umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir upplýsingaskyldu fjármálafyrirtækja til seðlabankans til að hann geti sinnt hlutverki sínu, þ.e. að stuðla að stöðugu verðlagi og virku og öruggu fjármálakerfi. Auk þess verði það hlutverk seðlabankans að stuðla að fjármálastöðugleika. Skilningur Persónuverndar á frumvarpinu er sá að breytingarnar feli í sér að skerpt verði á skyldu fjármálafyritækja til að afhenda seðlabankanum þau gögn sem hann óskar eftir. Þá sé tilgangur þess bundinn við að afla upplýsinga um viðkomandi lögaðila – en ekki persónuupplýsinga um einstaklinga. Persónuvernd telur að afmarka þurfi ákvæði frumvarpsins nánar þar sem núverandi orðalag gæti falið í sér opna heimild til að vinna með víðtækar upplýsingar um einstaklinga.

Reykjavík,  26. júní 2013

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, með síðari breytingum (varúðarreglur, aðgangur að upplýsingum o.fl.)


1.
Persónuvernd vísar til tölvubréfs efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis frá 20. júní 2013 þar sem óskað er umsagnar stofnunarinnar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, með síðari breytingum (varúðarreglur, aðgangur að upplýsingum o.fl.). Þskj. 20, 20. mál á 142. löggjafarþingi. Þá vísar stofnunin enn fremur til fundar nefndarinnar með fulltrúum Persónuverndar fyrr í dag, þann 26. júní 2013.

Í frumvarpinu er m.a. gert ráð fyrir upplýsingaskyldu fjármálafyrirtækja gagnvart Seðlabanka Íslands. Í 4. gr. frumvarpsins eru lagðar til eftirfarandi breytingar á 29. gr. núgildandi laga:

a.    Á eftir orðunum „skv. 3. og 4. gr.“ í 1. mgr. kemur: og fullnægja eftirliti með reglum sem settar eru samkvæmt lögum þessum.
b.    Við 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Skylt er, að viðlögðum viðurlögum skv. 37. gr., að láta Seðlabankanum í té allar upplýsingar og gögn sem bankinn telur nauðsynleg. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum.

Í athugasemdum þeim er fylgja frumvarpinu segir að með ákvæðinu sé lagt til að þeim lögaðilum sem 29. gr. laganna tekur til verði óháð þagnarskyldu skylt að láta í té allar upplýsingar og gögn sem Seðlabankinn telur þörf á til að sinna hlutverki sínu samkvæmt 3. og 4. gr. laganna, þ.e. stuðla að stöðugu verðlagi og virku og öruggu fjármálakerfi. Verði 1. gr. frumvarpsins að lögum verður það einnig hlutverk Seðlabanka Íslands að stuðla að fjármálastöðugleika.

Með vísan til framangreinds vill Persónuvernd koma eftirfarandi á framfæri.

2.
Skilningur Persónuverndar er sá að þær breytingar, sem lagðar eru til í framangreindu frumvarpi, feli fyrst og fremst í sér að skerpt verði á skyldu fjármálafyrirtækja til að afhenda Seðlabanka Íslands þær upplýsingar og gögn sem bankinn óskar eftir. Þá verður ekki annað ráðið af frumvarpinu en markmið þess sé að styrkja heimildir Seðlabanka Íslands til að afla upplýsinga um lausafjárstöðu og gjaldeyrisjöfnuð hjá fjármálafyrirtækjum þegar hann framfylgir eftirlitshlutverki sínu. Því virðist tilgangur þess bundinn við að afla upplýsinga um viðkomandi lögaðila og stöðu þeirra – en ekki persónuupplýsinga um einstaklinga.

Þrátt fyrir að athugasemdir með frumvarpinu beri ekki annað með sér en að ætlunin sé að afla almennra upplýsinga um stöðu fjármálafyrirtækja telur Persónuvernd að afmarka þurfi ákvæði 4. gr. frumvarpsins nánar þar sem núverandi orðalag hennar gæti ella falið í sér  opnar heimildir til að vinna með víðfeðmar upplýsingar um einstaklinga. Þá telur stofnunin rétt að umrætt ákvæði verði takmarkað við upplýsingar um lausafjárstöðu og gjaldeyrisjöfnuð. Því leggur Persónuvernd til að b.-liður 4. gr. frumvarpsins orðist svo:

b.    Við 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Framangreindum lögaðilum er skylt, að viðlögðum viðurlögum skv. 37. gr., að láta Seðlabankanum í té allar upplýsingar og gögn sem eru bankanum nauðsynleg  í tengslum við eftirlit og athuganir á lausafjárstöðu og gjaldeyrisjöfnuði . Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum.



Var efnið hjálplegt? Nei