Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um auknar rannsóknarheimildir lögreglu

5.6.2012

Persónuvernd hefur veitt umsögn um frumvarp til laga um auknar rannsóknarheimildir lögreglu sem beitt yrði við rannsóknir á skipulagðri brotastarfsemi. Í umsögn Persónuverndar kemur m.a. fram að ekki séu nægar ástæður til að draga úr skilyrðum fyrir því að beita megi símhlerunum og öðrum sambærilegum úrræðum, enda geti dómari þegar heimilað lögreglu að beita slíkum úrræðum þegar fyrir því séu brýnir almannahagsmunir.

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála


Persónuvernd vísar til tölvubréfs allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis frá 30. mars 2012 þar sem óskað er umsagnar stofnunarinnar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála (622. mál á 140. löggjafarþingi, þskj. 981). Í frumvarpinu er lagt til að við lögin bætist ný grein, þ.e. 52. gr. a, sem veiti lögreglu auknar rannsóknarheimildir. Í því felist að lögreglu verði veitt heimild til að hefja rannsókn út af vitneskju eða grun um að verið sé að undirbúa eða leggja á ráðin um að fremja brot gegn 175. gr. a almennra hegningarlaga. Þá verði veitt heimild til að beita símahlustun og öðrum sambærilegum úrræðum samkvæmt XI. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála þó svo að ekki sé fullnægt skilyrði 2. mgr. 83. gr. þeirra laga um að brot geti varðað átta ára fangelsi að lögum. Ekki þurfi að leika rökstuddur grunur á um að framið hafi verið brot til að dómsúrskurður verði kveðinn upp ef vitneskja eða grunur sé um slíkan undirbúning eða ráðagerð sem að framan greinir. Gert er ráð fyrir að ríkissaksóknari hafi eftirlit með aðgerðum samkvæmt ákvæðum frumvarpsins og fái um þær tilkynningar. Þá er gert ráð fyrir að allsherjarnefnd verði árlega gefin skýrsla um aðgerðirnar.

1.
Um þörf á ákvæðum um hvenær hefja megi rannsókn
Í fyrrnefndu ákvæði 175. gr. a í almennum hegningarlögum er mælt fyrir um refsingu við því að sammælast við annan mann um að fremja verknað sem varðar að minnsta kosti fjögurra ára fangelsi og er liður í starfsemi skipulagðra brotasamtaka. Með slíkum samtökum er nánar tiltekið átt við félagsskap þriggja eða fleiri manna sem hefur það að meginmarkmiði, beint eða óbeint í ávinningsskyni, að fremja með skipulegum hætti refsiverðan verknað sem varðar að minnsta kosti fjögurra ára fangelsi, eða þegar verulegur þáttur í starfseminni felst í því að fremja slíkan verknað.

Samkvæmt 52. gr. laga um meðferð sakamála ber lögreglu, hvenær sem þess er þörf, að hefja rannsókn vegna vitneskju eða gruns um að refsivert brot hafi verið framið hvort sem henni hafi borist kæra eða ekki. Eins og að framan greinir er það lýst refsivert í hegningarlögum að sammælast um að fremja slík brot sem frumvarpið tekur til. Ætla má að vísbendingar um undirbúning eða ráðslag um slíkt brot, sem lýst er í 175. gr. a í almennum hegningarlögum, sbr. frumvarpstillöguna, feli jafnframt í sér grun um að tveir menn eða fleiri hafi sammælst um brotið. Í því felst jafnframt að uppi er grunur um háttsemi sem fellur undir verknaðarlýsingu hegningarlagaákvæðisins, en það felur um leið í sér að rannsókn lögreglu myndi falla undir 52. gr. laga nr. 88/2008. Af því leiðir að óljóst er hvers vegna talin er þörf á umræddri viðbót við lög um meðferð sakamála.

2.
Símhlerun og skyldar aðgerðir
Eftirlit Alþingis
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ekki verði gert að skilyrði að rökstuddur grunur sé uppi um að framið hafi verið brot til að kveða megi upp dómsúrskurð um símhleranir og annars konar rannsóknarúrræði samkvæmt XI. kafla laga um meðferð sakamála. Þess í stað nægi að brotið sé í undirbúningi eða að lagt sé á ráðin um það. Þá er gert ráð fyrir að brot þurfi ekki að varða átta ára fangelsi, sbr. 2. mgr. 83. gr. laga um meðferð sakamála. Í þessu felst nánar tiltekið að grunur um brot, framið af skipulögðum brotasamtökum, gæti orðið tilefni umræddra rannsóknarúrræða þegar a.m.k. fjögurra ára fangelsi liggur við brotinu. Hins vegar stæði það óhaggað að afla þyrfti úrskurðar dómara.

Eins og fyrr greinir nægir það eitt að sammælst sé um brot til að leggja megi á refsingu samkvæmt 175. gr. a í almennum hegningarlögum. Sjálft brotið, sem sammælst er um, þarf því ekki að hafa verið framið. Í ljósi þess er óljóst hvers vegna talið er nauðsynlegt að lögfesta það sérstaklega að ekki þurfi að vera uppi rökstuddur grunur um framningu brots til að beita megi umræddum rannsóknarúrræðum.

Hvað varðar afnám skilyrðis um að brot þurfi að varða að lögum átta ára fangelsi skal áréttað að brýnir almanna- eða einkahagsmunir geta nægt sem tilefni umræddra rannsóknarúrræða. Í ljósi þess hversu mjög þessi úrræði skerða friðhelgi einkalífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, er nauðsynlegt að þeim sé ekki beitt nema af brýnum ástæðum. Í samræmi við það gerir gildandi ákvæði 2. mgr. 83. gr. laga um meðferð sakamála strangar kröfur til refsiramma en veitir þó dómara undanþágu frá honum, þ.e. heimild til að meta hvort brýnir hagsmunir séu af beitingu úrræðis þó svo að refsiramminn eigi ekki við. Persónuvernd telur að með þessari nálgun sé tekið nægt tillit til þjóðfélagslegra hagsmuna af rannsókn brotamála. Ekki sé því þörf á að breyta umræddum kröfum til beitingar rannsóknarúrræða, þ. á m. símhlerunar, samkvæmt XI. kafla laga um meðferð sakamála.

Hvað varðar skýrslugjöf til Alþingis bendir Persónuvernd á að þar ræðir um miðlun upplýsinga um rannsókn brotamála út fyrir svið réttarvörslukerfisins. Verði umrædd ákvæði lögfest er lögð áhersla á að við skýrslugjöfina verði gætt varkárni þannig að ekki verði veittar frekari persónuupplýsingar en eðlilegt og nauðsynlegt er.


3.
Niðurstaða
Persónuvernd telur óljóst hvers vegna talin er þörf á að lögfesta þau ákvæði frumvarpsins sem lúta að því hvenær lögregla megi hefja rannsókn, enda má ætla að lögregla hafi þegar þær heimildir sem fjallað er um í ákvæðunum. Í ljósi hinnar víðtæku verknaðarlýsingar 175. gr. a í almennum hegningarlögum telur Persónuvernd einnig óljóst hvers vegna talin er þörf á ákvæði þess efnis að ekki þurfi rökstuddan grun um framningu brots til að beita megi úrræðum samkvæmt XI. kafla laga um meðferð sakamála, s.s. símhlerunum. Að auki telur Persónuvernd ekki tilefni til að draga úr skilyrðum fyrir því að beita megi slíkum úrræðum. Hvað skýrslugjöf til Alþingis varðar áréttar Persónuvernd mikilvægi þess að persónuupplýsingum verði ekki miðlað út fyrir svið réttarvörslukerfisins umfram það sem eðlilegt og nauðsynlegt er.





Var efnið hjálplegt? Nei